sunnudagur, 29. september 2013

Og allt er komið í sínar vanalegu skorður; eftir ofur fitu (og vatns-)tap fyrstu vikurnar er ég núna komin á eðlilegt ról með um það bil kíló í missi. 97.5 kg í morgun og það orðið alveg ljóst að hormónaendursetning virkar ekki á mig, þ.e.a.s ekki ef tilgangurinn er að léttast. Í þessari viku borðaði ég lambalæri með sósu og grænmeti, bolognese með hrúgu af parmesan, eggjabökur og beikon, kjúklingakorma með blómkálsgrjónum, kjúklingaleggi og salat,  steinaldarbrauð með osti eða lifrakæfu, flaxgraut með rjóma, avókadómús með rjóma, chia búðing með rjóma, kókósbúðing með rjóma, rjóma með rjóma.... Ég gæti ekki verið ánægðari. Bara sleppa hveiti og sykri og ég er góð. Ég borðaði mikið af hnetum í vikunni en sleppti jógúrti alveg. Ætla ð gera tilraunir í næstu viku með að bæta við jógúrti til að sjá hvaða áhrif það hefur.

Prófaði í morgun að baka smákökur úr möndlusmjöri. Möndlurnar eru kolvetnaminni en til dæmis jarðhnetur og gefa auðvitað nýtt og skemmtilegt bragð. Þessar tóku 17 mínútur allt í allt að henda saman og baka og komu ljómandi vel út.

170 g hreint möndlusmjör
1 egg
1 tsk lyftiduft
30 ml hlynsýróp
salt
pekanhetumulningur

Allt blandað saman í deig og svo hnoðað í litlar kúlur og sett á silíkón bökunarplatta.Uþb 13-15 kúlur.  Hver kúla flött út og skreytt með kókósflögum, eða meiri pekanhnetum eða pístasíum. Það er líka voðalega gott að strá smá salti yfir líka. Það mætti líka alveg setja dökka súkkulaðibita í degið, það þarf örugglega ekki mikið meira en 30, 40 grömm til að gera gott. Baka svo við 180 g í 8-10 mínútur og láta svo kólna á grind.
Ég á enn eftir að finna upp smákökur sem eru í alvörunni stökkar, þessar verða mjúkar á degi tvö. En með tæp 3 grömm af kolvetnum í hverri smákökur er mínum tilgangi svo sem náð.


4 ummæli:

Margrét sagði...

Hvernig er kolvetnainnihaldið í hlynsýrópi? hélt að það væri mjög varasamt...eða???

murta sagði...

Í hverjum 100g af hlynsýrópi eru 67 g af kolvetnum, og þau eru auðvitað bara sykur. (Sucrose) En hlynsýróp er líka stútfullt af andoxunarefnum sem hjálpa til við vinnslu í metabolic state ásamt því að vera fullt af zinci sem er gott fyrir hjartað.Og kynhvötina! Persónulega er ég tilbúin að nota náttúruleg sykurefni eins og hlynsýróp í litlu magni (30 ml í allri uppskriftinni eru 20 g af kolvetnum sem er varla mikið) frekar en að nota gervisykur eins og aspartame, sem koma með sínum eigi vandamálum, eða náttúrusykur eins og stevia sem eru ógeðsleg á bragðið. Ég get notað hlynsýróp í nokkru magni án þess að finna fyrir neikvæðum áhrifum. Þetta er mitt val og hver og einn verður að sjálfsögðu að ákveða hvað best hentar þeim sjálfum.

Unknown sagði...

Möndlusmjör! Ætli það fáist á íslandinu góða? Fáranlega girnilegar stórkökur :)

Nafnlaus sagði...

Já það fæst núorðið í Bónus meira að segja :)