fimmtudagur, 30. apríl 2015

Af vængjum

Við sem höfum alist upp á Íslandi, eða í flestum Norður-Evrópulöndum, er nokkuð lukkuleg með að þvi fylgir ákveðið frelsi hvað líkamsímynd varðar. Við erum nefnilega öll vön að rífa okkur úr öllu í sturtunni í sundi, í ræktinni eða í gufu. Frá unga aldri höfum við staðið hlið við hlið, feitar og mjóar, litlar og stórar, með allskonar mitti, maga og brjóst og sápað okkur i sturtunni án þess mikið að spá í nekt sem slíkri. Það var ákveðið menningarsjokk að koma hingað til Bretlands þar sem nekt er alls ekki sjállfsagt mál. Hér fer fólk í sundfötin heima hjá sér, klæðir sig svo í fötin sín yfir, fer í sundlaugina þar sem það pukrast í litlum klefa áður en svo er haldið út í laug án þess að koma við í sturtunni. Hér er nakinn likami eitthvað til að fela og/eða grínast með. Ég veit af reynslu að flestar konur eru með appelsínuhúð og slit og að flest brjóst þurfa á alvarlegum stuðining að halda til að gefa þá mynd að þau sé stinn. Ég veit þetta vegna þess að ég hef komið milljón sinnum inn i búningsklefa þar sem ég stóð kviknakin meðal annarra kviknakinna kvenna. Ég veit hvernig venjulegar konur líta út.  Breskar kynsystur mínar hafa ekki þessa reynslu. Eftir því sem þær best vita eru allar konur eins og fótósjoppuð Elle McPherson af því að þær hafa aldrei fengið tækifæri til að sjá aðrar venjulegar konur. Ekki nema von að þeim finnist þær vera ómögulegar sjálfar. 

Ég verð þessvegna að viðurkenna að ég var hissa þegar ég sá Dove SönnFegurð myndbandið í gær sem segir að ein af hverjum fjórum íslenskum stúlkum fer ekki í sund vegna þess að þær skammast sín fyrir líkama sinn. Ég var sannfærð um að íslenskar stúlkur væru allar eins og ég; óttalausar eða að minnsta kosti með löngutöng reista hátt í áttina að hverjum þeim sem mundaði sig við aðfinnslur. 

Nú veit ég ekki hvort þetta Norður-Evrópska uppeldi mitt sé það sem hjálpar mér svona mikið nú þegar ég er að reyna að stunda "fitusátt" (fat acceptance) eða hvort ég sé hreinlega bara alveg á skjön við allt sem aðrar konur eru að hugsa. Ég hef engar óraunhæfar hugmyndir um fegurð. Sjálf hef ég aldrei þurft neitt sérstaklega að berjast við útlitið. Mér hefur alltaf þótt ég vera voðalega sæt. Ég sagði stundum að það var eiginlega vandamál því ef mér þætti ég hrikaleg þá hefði ég kannski barist meira við að halda mig við megrunir svona í gegnum árin. En nei, ég hef alltaf bara verið ánægð með mig og hef getað skautað létt yfir það sem ég gat ekki alveg gúdderað. Ég gat bara ekki hatast við sjálfa mig. Það var svo þegar ég fann raunverulega innri ástæðu til að léttast þegar þetta small saman. Ég var svo ósátt við að geta ekki leikið við Lúkas. Mér þótti ómögulegt að vera svo feit mamma að ég gæti ekki hlaupið um með honum, beygt mig niður eftir honum eða jafnvel tekið eina salíbunu í rennibrautinni með honum. Þetta var ástæða fyrir að grennast með innri meiningu og hafði ekkert með það að gera hvernig ég leit út. 

Núna er Lúkas límdur við xboxið sitt, finnst ég að mestu leyti vera "inappropriate mum" og hringsnýr augunum af "embarrassment" þegar ég sting upp á að við leikum okkur saman. Hann er pre-teen og ég er jafn hallærisleg og Vanilla Ice. Innri meiningin mín hefur þvi ósjálfrátt snúist að útlitinu. Ég gat náttúrlega ekki annað en notið þess óhjákvæmilega fylgifisks að grennast að geta keypt föt á fleiri stöðum og notið þess prósess í meira magni. Ég fann reyndar líka að ég varð krítískari á sjálfa mig. Eftir því sem ég grenntist meira varð ég óánægðari með vængina mína. Vængirnir mínir eru bakspik. Það er afskaplega fátt fallegt hægt að segja um bakspik og það er nánast útilokað að fela það. En þetta var eitthvað sem ég tók fyrst eftir almennilega eftir að ég grenntist. Upp að þeim tímapunkti hafði ég aldrei haft áhyggjur af neinum einum þætti af líkama mínum. Það var meira svona bara general yfir allt heildina. En ef ég spái í því þá eru vængirnirn mínir alveg örugglega eitthvað sem bara ég sé, hvað þá hef áhyggjur af. Enginn annar er að velta þessu fyrir sér. Fyrir utan að ef fólk hefur í alvörunni tíma til að velta fyrir sér hvort ég sé feit þá finnst mér líklegra að það sjái bara alla heildarfituna en fókusi ekki á vængina. Þetta er einfaldlega ekki neitt til að hafa eyða tíma í.

Er ég í alvörunni svona hrokafull og sjálfumglöð að mér er eiginlega samt alveg sama þó vængirnir sjáist þegar ég er í sundi? Eða er þetta nonchalance núna einfaldlega komið til vegna þess að ég er orðin hundgömul og ég er einfaldlega sáttari við mig en stúlkur á aldrinum 18-25 ára eru við sig? Eða hefur eitthvað breyst svo að krafan er ríkari að þessar stúlkur samræmist einhverjum staðli sem ég þurfti ekki að spá í fyrir 15-20 árum? Nú tala ég frá sjónarmiði þess sem hefur verið feit alla ævi, ég hef aldrei haft það sem ég myndi flokka sem lúxus að hafa áhyggjur af einhverju jafnsmávægilegu og fimm aukakílóum. Reyndu við fimmtíu. Kannski þarf bara að setja smá perspective á þetta. Ég veit það eitt fyrir víst að ég er alveg ómöguleg yfir tilhugsuninni að ungar, fallegar, allskonar konur fari ekki í sund af ótta við að samræmast ómögulegum stöðlum. Ég vildi óska að ég gæti sannfært þessar ungu konur að það er helber tímasóun að hafa áhyggjur af lærapokum, sliti, aukakílóum og vængjum. Tilhugsunin að þær eyði næstu tuttugu árum í þessar áhyggjur er of sorgleg til að hugsa til enda.  Fegurð hverrar ykkar veltur einfaldlega ekki á fegurð einhverrar annarar. 

mánudagur, 27. apríl 2015

Af reiði-og rassaköstum

Það kom að því að ég lenti í árekstri á hjólinu. Ég var á leið heim úr vinnu á fimmtudagskvöld og var komin til Wrexham þegar ég þarf að fara yfir hringtorg og eitthvert manngrey varð fyrir því að sjá mig ekki og rauk út á hringtorgið þar sem ég var hálfnuð yfir það. Ég smellti því hjóli og sjálfri mér nett inn í hliðina á bílnum, flaug svo í fallegum boga upp á húddið hvaðan ég rúllaði svo mjúklega á götuna. Þetta var á háannatíma og mikil umferð, bæði bílar og gangandi. Á eftir bílnum sem keyrði á mig var staddur af tilviljun slökkvilðsbíll sem stöðvaði alla umferð á meðan ég lá í götunni. Sjúkrahúsið er rétt við hornið og það var akkúrat læknir á rölti sem kom hlaupandi á staðinn æpandi "I´m a doctor!" og það myndaðist fljótt þéttur hringur af áhorfendum í kringum mig. Ég fann fljótlega að ég var ekki slösuð, bara smávegis í sjokki, en kunni ekki við annað en að láta sem ég væri við dauðans dyr svona til að valda engum áhorfendum vonbrigðum. Ég lá þessvegna grafkyrr á meðan læknirinn þuklaði á mér og tilkynnti svo múginum að ég væri ekki lömuð. Þegar sjúkrabíllinn kom svo á staðinn innan nokkurra mínútna urðu flestir frá að hverfa á meðan sjúkraliðarnir tjékkuðu á mér. Ég reyndi að virka dösuð og rugluð svona til að bæta upp að það voru engar blóðslettur eða brákuð bein en fann nú samt fyrir nokkrum vonbrigðum frá flestum viðstöddum. Löggan kom svo og rak flesta í burtu til að geta tekið skýrslu af mér og ökumanninum. 

Að öllu gamni slepptu þá var þetta heilmikið sjokk og ég grenjaði alla leiðina heim. Fór svo með strætó í vinnuna á föstudaginn en ákvað að ég þyrfti að drífa mig aftur í hnakkinn og fór í langan túr á laugardagsmorgun. Sem betur fer er ég ekki hrædd en þarf að taka aðeins á hvað ég er reið. Ég verð alveg vitlaus í skapinu þegar ökumenn bíla gera eitthvað smávægilegt sem ég dæmi sem óásættanlega hegðun gagnvart mér í umferðinni. Hjólamenningin hér er lítil sem engin og ökumenn kunna illa að díla við hjól í umferðinni. Og ég hjálpa litið til við að kynna gleðilegt samstarf hjólreiða og bíla ef ég er hjólandi um öskrandi ókvæðisorð að öllu og öllum. (Ber þar hæst við "Asshat" og "Dickwad") Ég verð víst að reyna að slaka aðeins á. 

Ég hef heldur engan áhuga á að verða "hjólreiðamaður", ég get ekki gert annað en að finnast eitthvað örlítið hallærislegt við að þröngva sér í lycragalla merktan Tour de France, setja upp "wrap around" sólgleraugu og loftnæman hjálm. Ég er ekki í tímatöku og ég er ekki í keppni. Það er ekki tilgangurinn að fjarlægja gleðina úr hjólreiðunum. Mér finnst einmitt bara svo æðislegt að geta sameinað það að komast í og úr vinnu ókeypis við að fá að njóta þess að hreyfa mig úti. Ég get ekki annað en fundist það vera forréttindi að hafa tækifæri til að gera þetta svona. Það að stunda það sem ég flokka sem "náttúrulega" hreyfingu (eitthvað sem fellur eðlilega inn í daglegt líf) er nefnilega mitt aðal keppikefli og er eitthvað sem mér finnst falla 100% inn í þessa lífsýn mína sem afneitar megrun og þvingunum en býður velkomið það að næra sig vel og hreyfa sig af hreinni gleði. 

Maður þarf bara að passa sig á að aka ekki í veg fyrir valtara og verð´ að klessu, ojbara. 

föstudagur, 17. apríl 2015

We love you Wrexham, we do, We love you Wrexham we do, Oooh Wrexham we love you.

Það hefur komið mér sjálfri jafn assgoti mikið á óvart og það hefur sjálfsagt komið vinum mínum hversu mikill fótboltaáhugamaður ég er skyndilega orðin. Ég er jú, anti sportisti og með sérlega fyrirlitningu á hópíþróttum. Fyrir nokkrum árum síðan hefði ég sjálf hlegið hvað hæst ef einhver hefði stungið upp á að ég kæmi til með að eyða öðrum hverjum laugardagseftirmiðdegi öskrandi mig hása við að horfa á utandeildarlið í Norður-Wales spila sub-standard fótbolta. 

Til að byrja með vildi ég bara vera góð eiginkona. Dave minn er búinn að vera stuðningsmaður Wrexham FC síðan hann fékk fyrst að fara á völlinn um átta ára aldur. Hann fékk reyndar ekki að fara á hvern leik, þetta var á áttunda áratugnum þegar það var í alvörunni hættulegt að mæta á suma leiki vegna ofbeldismanna. Menn slógust af alvöru á þessum tíma. Hann var þess þó aðnjótandi að fá að horfa á Wrexham spila þegar þeir voru stór klúbbur, voru í Evrópu og hann horfði td á þá spila við og vinna lið eins og Porto og Roma. Hann er reyndar síðan búinn að fylgjast með þeim falla niður um hverja deildina á fætur annarri þar til nánast botninum er náð. Svo er Dave líka fæddur og uppalinn í Wrexham. Að hans mati kom aldrei til greina að styðja neitt annað en sitt heimalið. Og það þrátt fyrir að bæði Liverpool og Manchester eru hérna rétt hjá okkur. Hann er, eins og hann segir sjálfur og er augljóst því hann giftist mér, "a glutton for punishment." 

Sjálf fékk ég ekki að njóta þessara "glory days". Nei, minn fyrsti heimaleikur var á ísköldum nýjársdag 2003 þar sem við töpuðum 3-0 fyrir Macclesfield. Og maðurinn minn var ekkert að eyða í sæti fyrir mig, nei, hann fór með mig á "the kop end" þar sem allra hörðustu stuðningsmennirnir standa allan leikinn. Ég hafði ekki einu sinni heyrt um Macclesfield á þessum tíma.  Sem er reyndar líka annar bónus við utandeildina, ég er búin að læra heilmikið í landafræði. Altrincham, Aldershot,  Welling og Woking anyone?

Mér fannst samt hrikalega gaman. Það var sungið og kallað og þó ég skildi ekki alveg reglurnar á vellinum skildi ég hversu mikilvægt þetta var fyrir Dave og alla hina sem stóðu í kringum okkur. Það var nánast áþreyfanleg sorgin þegar dómarinn flautaði í leikslok og við gengum niðurlút út búin að tapa á heimavelli. 

Dave elskar fótbolta. Hann er stærðfræðingur og skilur leikinn á tölfræðilegan hátt. Og mér fannst sjálfsagt að setja mig aðeins inn í stærsta áhugamál hans. Svona til að vera slarkfær í tungumálinu.  Það var hreinlega annað hvort það eða vera pirruð í gegnum helminginn af hjónabandinu. Þannig að ég hlustaði á hann þegar hann talaði, og horfði á leiki með honum og smá saman fór ég að skilja reglurnar og skynja færnina sem þarf til að vera góður fótboltamaður. Mér finnst sérstaklega gaman að skoða söguna, liðin sem voru einu sinni risastór en eru varla til lengur. Hver man ekki eftir því td að styðja Notthingam Forest á áttunda áratugnum í gegnum Evrópusigur þeirra? Og flestir íslendingar á mínum aldri bera Sheffield Wed-nes-dei fram á la Bjarni Fel fremur en eins og við vitum hvernig á að segja það, Wensdei. En hver fylgist með þessum liðum núna? Flestir hafa sjálfsagt skipt yfir í lið sem er auðveldara að styðja, eins og Liverpool eða United. Ég ét líka í mig sögur af því þegar litla liðið vinnur stóra liðið eins og þegar Wrexham vann Arsenal í bikarleik 1992. Það er eitthvað óviðjafnanlegt við Davíð og Golíat slagi. Og sérstaklega gaman af því að hugsa til þess að Wrexham, sem er þriðji elsti klúbbur í heimi er búinn að spila fótbolta síðan 1864. Það var ekki einu sinni alþingishús á Íslandi á þeim tíma. 

Ég fór svo að fara með Dave á völlinn fyrir tveimur árum síðan svona nokkuð reglulega. Og áhuginn negldur niður. Fyrir mér snýst þetta um svo miklu meira en fótboltann, þetta snýst um að vera hluti af hóp. Mér finnst enn skemmtilegast að syngja. Í sönnum breskum sið snýst allt um að gera grín að sjálfum sér og stríða andstæðingum. "We´re shit and we know we are" syngjum við oft til að slá vopnin úr höndum hins liðsins. Eða uppáhaldið mitt "We know what we are, we know what we are; Sheepshagging bastards, we know what we are" Við höfum þannig tekið móðgunina sem Englendingar nota á Veilsverja, að þeir noti kindur til annars en bara ullarframleiðslu, og notum í okkar hag. Svo er gert grín að hinum. "Are you Chester in disguise?" myndum við syngja um hvaða lið sem okkur finnst sérlega lélegt til dæmis. "2-0 and you fucked it up!" er sérstaklega ljúfur söngur þegar andstæðingarnir fara yfir en svo náum við að jafna. Leikmennirnir fá svo sinn skammt líka. "He´s one of our own, Robbie Evans, he´s one of our own" syngjum við um strák héðan úr nágrannaþorpinu og dáumst að heimaræktuðu talent. "Score in a brothel, you couldn´t score in brothel" er svo mjög vinsælt ef einhver þeirra missir af gefnu marki. 
 
Svo er það samkenndin sem myndast. Ég tala um "okkur" eða "við" þegar ég tala um fótboltaliðið. Og ég held að við sem höldum með svona litlu (lélegu) liði finnum samkenndina enn sterkar. Það getur hver sem er haldið með United eða Chelsea eða Barcelona og vitað að flestir leikir verði sigurleikir, en það krefst ástríðu að halda með liði sem tapar oftar en ekki. 

Ég hef ákveðið að taka þessu sem góðri lífslexíu. Það er allt í lagi að skipta um skoðun. Og það er svo sannarlega ekkert að því að finna sér nýtt áhugamál. Hversu hallærislegt sem manni má hafa fundist það sem unglingur. Meira að segja þó áhugamálið feli í sér að veifa rauðum og hvítum trefli og æpa ókvæðisorð að ókunnugum frá Grimsby. 

Það er síðastl heimaleikurinn á þessari leiktíð núna á laugardaginn.  Okkur tókst illa upp í ár, planið var að komast aftur inn í deildina þar sem við eigum heima en við klárum þess í stað árið á að lafa í 11. sæti. Við töpuðum utandeildarbikarúrslitaleiknum sem varbspilaður á Wembley fyrir liði sem er í neðri deild en við og við rákum þjálfarann. Leiktíðin endar því á svona frekar lágstemmdum nótum. Hvað um það, svo lengi sem við klárum hærra en Chester. Og skiptir engu, næsta leiktíð, það verður okkar tími! Nú er bara að finna sér eitthvað til dundurs til að láta tímann líða þangað til tímabilið byrjar aftur. 

"Can you hear the Chester sing? Oh ah, oh ah"

fimmtudagur, 16. apríl 2015

Af ást og hatri. Og fat shaming.

Söngkonan P!nk var í fréttum um daginn. Hún mætti á samkomu sem var ætluð sem fjáröflunarveisla fyrir rannsóknir á krabbameini. En í stað þess að fá að vekja athygli á málstaðnum snérist umræðan um hversu mikið hún hafði fitnað. Miðlar eins og Upworthy og Huffington Post voru fljótir til að benda á hversu skrýtið þetta væri og P!nk sjálf átti ekki í miklum vandræðum með að svara gagnrýnendum fullum hálsi. En samt. Hvað er það í nútíma samfélagi sem gerir það að verkum að "Fat shaming" eða fituskömm virðist vera ásættanleg hegðun?

Að hluta til er það skýrt af því hversu auðvelt það er að koma skoðun sinni, óritskoðaðri, út um allan heim. Twitter, Facebook og blogg hafa gefið öllum rödd, og þar eru vanvitar ekki undanskildir. Við getum öll séð myndir af P!nk um leið og hún birtist á rauða dreglinum og öll getum við myndað okkur skoðun og ælt þeirri skoðun svo út úr okkur á ljóshraða. 

Sjálf held ég að það sé þó einungis lítill hluti af fituskömm. Fituskömm, eins og svo margt annað sem miður fer í sálarlífi okkar mannfólksins, kemur frá okkur sjálfum. Við viðhöldum þessu. Við ráfum um hugsjúk og heltekin af hugsunum um kílóafjöld og kolvetni, fitu og hreyfingu þannig að öll gleði hefur verið sogin úr lífinu. Kvíðabólgan í maganum yfir því hvað vigtin og spegillinn segja leyfir manni ekki að njóta eins einasta matarbita. Í stað þess að borða til að njóta þess eða jafnvel til að fá næringu er matur allt í einu orðinn óvinurinn eða einhverskonar prófskali á hversu viljasterk við erum. Á það hversu dugleg við erum. Og í stað þess að hreyfa okkur af einskærri gleði yfir því að við erum búin líkama sem getur gert ótrúlega hluti lítum við á hreyfingu sem kvöð og pínu, sem refsingu yfir því hversu mikið við borðum, hversu þung við erum og hversu litla stjórn við höfum á okkur. (Sjá Linda Bacon, HAES)

Er ekki of miklu púðri eytt í að hafa áhyggjur af því hvernig við sjálf, og aðrir, líta út og of litlu púðri eytt í að gera heiminn að betri stað? 

Goffman (1963) setti í kenningu hvernig stigma er flokkað i það að gera fólk óásættanlegt í augum annarra.  Hann flokkaði þetta sem "tribal stigmata", "abominations of the body" og "blemishes of individual character".  Þannig horfum við ekki bara niður á þá sem flokkast í þessa hópa heldur tekur einstaklingurinn þessi óþægindi inn á sig líka og skilgreinir sjálfan sig út frá þessu. 

Það er svo auðvelt að benda á feita. Við sjáumst svo vel. Við berum utan á okkur það sem flestir túlka sem skapgerðarbrest, leti og skort á elju. Hugsið ykkur ef illkvittið fólk væri allt með gúlp á nefinu? Eða heimilisofbeldismenn væru allir með tvölfalt stærri rass en við hin? Sjálfumglaðir alsettir vörtum. Það væri nú ljómandi gott. Við gætum auðveldlega bent á þetta fólk og passað okkur á að vera ekkert að dedúa neitt við það. Svona eins og þegar mér er bent á það úti á götu hvað ég sé feit. Eins og að það segji mér eitthvað um hver ég sé. Eða þegar internetið finnur sig knúið til að segja P!nk að hún sé nú alveg búin að sleppa sér. Málið er að með því að búa til svona stigma í kringum offitu gerum við vandamálið verra. 

"The reasons for perceived discriminations deleterious effect on heath are many, including the stress of repeated contact with antagonistic others, rejection or aviodance on social settings, negative self perceptions, and differential allocations of resources via social segregation." (Campbell and Troyer 2007; Carr and Friedman 2005)

Þess vegna gildir það sama um að klæða fituskömm upp í áhyggjur af heilsu fólks. Nú má ekki misskilja mig. Það er enginn vafi á þvi að það er mýgrútur af sjúkdómum sem verða verri að díla við þegar maður er of feitur. En það má heldur ekki rugla því saman við að flestir þessa sjúkdómar eru ekki orsakaðir af offitu. Og halda það að áhyggjur af heilsu fólks gefi leyfi til að niðurlægja eða láta of feitum einstaklingi liða illa með sjálfa sig er stórkostlegur misskilningur. Þannig get ég sagt að líkamlega líður mér betur þegar ég er 80-90 kíló en þegar ég 100-140 kíló. Vegna þess að það er auðveldara að hreyfa mig þegar ég er léttari. En ég var ekki "veikari" þegar ég var feitari. Það sem gerist hinsvegar er að feitt fólk er mun líklegra til að telja sig vera við verri heilsu en það er vegna stigmans sem fylgir því að vera feitur.  Það að ég sé 100% heilsuhraust og geti að auki framkvæmt alla þá hreyfingu sem ég þarf til að viðhalda þessu hreysti ætti að vera nógur mælikvarði fyrir mig. Ég á ekki að þurfa að finnast ég þurfi LÍKA að vera grönn innan einhverra staðla sem hafa verið settir af tískuheiminum. Ég á að geta gengið um hnarreist í þeirri vissu að sterki, fallegi líkami minn hafi borið mig í gegnum lífið, geti hjólað 50 km á dag, geti lyft þungum lóðum, hafi borið og nært barn og sé ákkúrat réttur fyrir mig. Öll skömm, öll vanlíðan yfir því að ég sé ekki nóg kemur utan að frá. Ég bjó þær tilfinningar ekki til. 

Ef ég set þetta upp þannig að of feitur einstaklingur hefur í hyggju að byrja að hreyfa sig. Það er jú betra að vera aktífur. En við stressið sem það fylgir því að gera eitthvað nýtt og óþekkt sem allir myndu finna fyrir bætist við skynjað stress í formi þess að gera ráð fyrir því að aðrir geri grín að manni, að maður fái óþægileg komment eða augngotur ofan á svo stressið sem maður verður fyrir þegar það svo gerist í alvörunni. (Já, það eru óteljandi mannvitsbrekkur þarna úti sem sjá sóma sinn helst í því að öskra hástöfum á mann til að láta mann vita hversu óæskilegur maður er útlits) Allt þetta verður til þess að það er ólíklegra að sá feiti hætti sér út í neina hreyfingu. 

Það er svo skýrt að þessi fituskömm verður bara að hætta. Það sem er skrýtnast við þetta að fituskömmin virðist hreinlega aukast í sama magni og samfélagið fitnar, þrátt fyrir gífurlega aukingu á fólki í yfirþyngd virðist ekkert ganga í að fá okkur til að taka okkur sjálf í sátt. Ég hef sagt það áður að ef við gætum hatað okkur mjó þá væri enginn feitur. Við þurfum enga hjálp við það hatur. Hvernig væri að prófa ást, samúð eða skilning? 



mánudagur, 13. apríl 2015

Vinnu(hjól)hestur

Ég er hjólandi þessa dagana, bæði í og úr vinnu. Í siðustu viku hjólaði ég oftar en ekki báðar leiðir, 55 kílómetra á dag. Ég skal alveg viðurkenna smá rasssæri við vikulok og ég stoppaði í smá sólbað á leiðinni heim einu sinni eða tvisvar en að öðru leyti var þetta lítið mál. Ég á bara eitt par af hjólabuxum með gelpúðum í rassi en þyrfti helst að fjárfesta í nokkrum í viðbót til að eiga alltaf til skiptanna. Ég er líka alltaf að fara þetta hraðar, er búin að skafa af þrjár mínútur af tímanum sem þetta tekur. Það hjálpar að það er búið að vera klikkað veður núna að undanförnu með hitastigið farandi upp undir 20 gráður. Ekki kvarta ég nú yfir því. Það er reyndar heilmikið púsluspil að pakka mér í vinnu. Ég skal viðurkenna að leiðin til Chester liggur svona nett niður á við þannig að þrátt fyrir að hamast í klukkustund og tuttugu mínutur er ég enn nokkuð fersk þegar ég kem til vinnu. Þannig að ég er með vinnufötin í bakpokanum og fríska upp á mig og skipti inni á klósetti. Af því að ég er í starfi sem krefst þess að ég sé í "business wear" er hægara sagt en gert að pakka því öllu niður. Nú er ég reyndar búin að eignast góðan bakpoka svo ég kem svo sem öllu fyrir. Svo þarf ég að skipta aftur áður en ég fer aftur heim. Þá er veðrið orðið allt öðruvisi og leiðin öll upp á við þannig að ég þarf að setja yfirhöfn í bakpokann og jafnvel skipta úr langerma peysu yfir í stutterma og taka upp sólgleraugu. Þannig þarf ég áður en ég legg af stað vera búin að hugsa fyrir öllum möguleikum. Það kemur sér því óneitanlega vel að ég var búin að læra vandlega á svona skipulagsvinnu fyrir nokkru þegar ég fyrst byrjaði að spekúllera í heilsunni. Ég er oftast búin að nokkurnvegin plana vinnufötin með vikuáætlun og nesti er allt planlagt sömuleiðis með vikuna i huga. Hjólafötin er öll tilbúin í einni skúffu og ég er alltaf með aukabol, léttan vind/regnjakka og buff pakkaða í bakpokann. Þó að ég sjái að þetta er smávegis vinna að koma þessu öllu fyrir þá er ég bara glöð að gera þetta. Ég get nefnilega ekki að því gert en að þakka fyrir í hljóði að vera nógu hraust til að gera þetta. Það að ég sé nógu líkamlega hraust til að hjóla 55 km yfir daginn og nógu skipulögð til að framkvæma það hlýtur að vera vísbending að það sem ég nú trúi á sé rétt. Hversvegna að berja hausnum við steininn til að ná mér niður í einhverja handahófskennda tölu á vigtinni? Skiptir í alvörunni máli hvað ég er þung ef ég er nógu heilsuhraust til að stunda svona hreyfingu? 

Þetta hugarfar breytir reyndar ekki þeirri staðreynd að mér líður nú samt betur í líkamanum þegar ég borða fallega. Of mikill sykur skilur eftir sig ónotatilfinningu í liðamótum og ég vakna með dúndrandi hausverk daginn eftir þegar ég borða yfir mig. Og það að ég skuli segja að mér sé sama hvað ég sé þung breytir því heldur ekki að ég hef í hyggju að gera mitt besta til að borða þannig að mér líði vel, bæði í liðamótum og í sálinni. Það sem ég ætla ekki að gera er að hafa teljandi áhyggjur yfir því.

Brjálæðingur á hjóli.

föstudagur, 10. apríl 2015

Af skrýtnum stöðlum

Það er margsannað að megrunarkúrar virka ekki.  Það er bara staðreynd. 95-97% þeirra sem fara í megrun og léttast um töluverða þyngd hafa fitnað aftur og oftast um meira en þyngdartapið innan þriggja ára. Og gildir þá litlu hvort um megrun eða lífstílsbreytingu er að ræða. Spurningin er að sjálfsögðu hversvegna við gerum okkur þetta trekk í trekk. Ef maður væri með verk og færi til læknis sem segði manni að læknismeðferðin skilaði í 97% tilfella meiri verkjum er harla ólíklegt að maður myndi samþykkja að undirgangast meðferðina, en samt kjósum við flest að gera okkur þetta þegar kemur að mataræði. 

"There are two indisputable facts regarding dietary treatment of obesity. The first is that virtually all programs appear to be able to demonstrate moderate success in promoting at least some short term weight loss. The second is that there is virtually no evidence that clinically significant weight loss can be maintained over the long-term by the vast majority of people." -Confronting the failure of behavioral and dietary treatments for obesity. Garner & Wooley, 1991.

Nánast undartekningalaust og samt höldum við áfram að hamast á stigavélinni á meðan við vigtum kotasælu og gúrku og tökum við hrósinu á meðan vel gengur. "Oh, þú ert svo dugleg!" "Bara að ég hefði þennan viljastyrk" og svo framvegis þar til sál og líkami gefst upp enn einu sinni og maður tapar sér í fjalli af kleinuhringjum og meðfylgjandi samviskubiti og sannfæringu um að maður sé dauðadæmdur lúser með enga jákvæða eiginleika. 

Ef ég skoða málið þá held ég að það sé bara betra að byrja að breyta hugmyndafræðinni sem liggur að baki þess að feitir séu annars flokks fólk en að lafa í vonlausri megrun og það er líka alveg kominn tími til að skoða óraunhæfa fegurðastaðla. Ég leitaði uppi og skoðaði nokkrar myndir af fyrirsætum sem eru flokkaðar í yfirstærð. Samkvæmt fegurðarstuðlum tískuheimsins eru þær hlussur. Og það sem kom verst við mig var að allar voru þær ímynd þess sem ég myndi kalla fullkomna konu. Risastór brjóst, grannt mitti, ávalur magi og þykk læri sem stóðu þétt saman. En allar eru þær einungis taldar hæfar til að auglýsa föt fyrir konur í yfirstærð. Engin þeirra fór yfir stærð 16, flestar voru á bilinu 8-14. Að vera í stærð 8 er samkvæmt mínum stuðli að vera mjög grönn.  Mér finnst þetta skrýtið. Væri ekki skemmilegra að sjá þessar konur auglýsa föt fyrir hinn almenna markað þannig að við hefðum fyrir augunum konur í algengustu stærðinni? (14 hér í Bretlandi) Það væri einfaldlegra skemmtilegra að hafa breiðari hóp kvenna til að auglýsa föt og myndi lýsa betur meðalkonunni. (Ég ætlaði að segja eitthvað um að ekki myndi maður vilja að þingmenn eða stjórnendur fyrirtækja sýndu ekki þversnið af mannfólkinu en svo mundi ég að það er víst ekki nógu góð samlíking heldur...) 

Hvernig væri það? Ef ég fengi bara að sjá í auglýsingum konur sem mér finnast líta út eins og konur, konur sem láta mér líða vel með að vera með risastór brjóst og læri sem enginn sér dagsbirtu á milli? Allskonar konur sem eru táknmynd fyrir hversu mismunandi við erum allar. Með allskonar brjóst og allskonar læri.  Það hlýtur að vera betra en að ég gangi um með angistarkvein í hjarta yfir því hvað ég sé ólöguleg á allan hátt. Kannski er það svo samanburðurinn sem er að drepa okkur allar. Mark Twain sagði :"Comparison is the death of all joy" og mér finnst það nokkuð gott. Það er alltaf hægt að finna einhvern sem er mjórri, ríkari, sætari og skemmtilegri en maður sjálfur. Og það er oftast skammgóður vermir að hitta á einhvern feitari og leiðinlegri. 

Ég þarf líklegast að byrja á sjálfri mér. Ég segi "venjulegt" fólk þegar ég tala um grannt fólk og það hlýtur þá að fylgja með að ég sé óvenjuleg. Og ég á ekki við að ég sé spes eða sérstök, nei óvenjuleg hlýtur að þýða að ég sitji fyri utan normið á neikvæðan hátt. Jamm, ég held að breytt afstaða okkar allra til þess hvað er fallegt og hvað það er sem er verið að mæla þegar talað er um kílóafjölda sé nauðsynleg. Ég bara get ekki gúdderað það lengur að virði mitt sem manneskju minnki við hvert aukakíló.

Meiru hlussurnar þessar tvær.

fimmtudagur, 9. apríl 2015

Af sértrúarsöfnuðum og sérvisku

Ég horfði á sérlega merkilega heimildamynd í gær um mann sem leitaði leiða til að lengja líf sitt og ákvað að prófa að lifa eftir þremur mismunandi lífstílum sem allir halda því fram að þeir lengi lífið. Mér þótti þetta skemmtilegur og áhugaverður þáttur og það fyrir nokkrar sakir. Fyrir það fyrsta finnst mér skringilegt að vilja lengja lífiið, flestir viðmælendur voru að tala um 120-150 ár. Á meðan að ég hef enga sérstaka dauðaósk þá sé ég heldur ekki mikinn tilgang í að skrölta um langt framyfir það sem hlýtur að vera skemmtilegt. En það sem sló mig mest var að allir þrír viðmælendur eru í því sem ég kalla lífstíl, og allt voru þetta kunnuglegir lífstílar. Helst ber að nefna "Calorie Restriction" eða lághitaeiningkúr og svo "Paleo" eða hellismannakúrinn. Sá þriðji var svo bara öfgagrænmetisætur sem í raun borðuðu bara ávexti. (Og voru svo miklir rugludallar að ég nenni ekki að eyða frekari ummælum um þau.) Það var ljóst um leið og heimildamyndargerðarmaðurinn, Giles, byrjaði að tala við fólkið að öll voru þau sanntrúuð, og flest það sem var sagt og gert var ekki endilega byggt á 100% vísindum (þó margt sem þau prédika líti út eins og vísindi þá hefði ég nú frekar flokkað sem pseudoscience) og var fremur byggt á blindri trú. Það er alger grunnskilyrði fyrir því að lifa eftir þessum "vísindum" að maður þarf að vera sanntrúaður og trúa á kenningarnar af sömu einurð og fólk lifir eftir hinum ýmsu trúarkenningum. 

Paleo fólkið virkaði sérstaklega eins og sértrúarsöfnuður sem dýrkar leiðtogann, Mark Sissons. Hann var svona hálfguð í þeirra augum og fólk hvískraði um að hann liti út fyrir að vera þrítugur þrátt fyrir að vera rúmlega fimmtugur. Ég get ekki sagt að ég hafi verið sammála, hann lítur út fyrir að vera vöðvastæltur rúmlega fimmtugur maður. Sem er nátturulega ljómandi gott fyrir hann, en engu að síður, fimmtugur. Ég er líka alveg sammála paleo fólki um að við borðum allt of mikið af unnum einföldum kolvetnum. En nema að maður sé með skýrt óþol fyrir matartegund þá sé ég heldur enga ástæðu til að skera algerlega út heilan fæðuhóp. Hver í ósköpunum getur haldið því fram að það sé ekki gott að borða hafragraut? Fyrir utan að ef maður skoðar vísindi aðeins þá er eina ástæðan fyrir því að við erum ekki hellisbúar lengur sú að við borðum glúkósa sem við fáum úr kolvetnum. Um leið og við byrjuðum að borða þannig stækkaði í okkur heilinn, við urðum gáfaðri og gáfaðri og gátum leyst stærri og stærri verkefni. Og að lokum færðum við okkur úr hellinum og inn í raðhús í Grafarvoginum, hversu gáfulegt það var nú.  Bottom line er að við værum enn hellisbúar ef ekki fyrir kolvetnin og Mark Sissons myndi ekki vera að raka inn peningum fyrir að setlja paleostimplað fæðubótarefni. 

Fólkið sem borðar skertar hitaeiningar var líka sanntrúað á sinn lífstíl en hafði engan svona sérstakan flokk eða leiðtoga. Á meðan að það er að minnsta kosti hægt að sjá að paleo fólkið var hraust og vel stælt eftir allt cross fittið var hitaeiningasnauða fólkið veiklulegt og illa til reika. Hárið þunnt, tennurnar ljótar, húðin þurr og tekin og þau voru með Biafra maga, útstæðan af næringarskorti sem maður sér bara á fórnarlömbum hungursneyðar. Þau borðuðu lítið spennandi mat, soðið bygg og súrkál að mestu leyti og ég varð að vera sammála Giles um að ég væri frekar til í að lifa styttra og fá kleinuhring öðruhvoru en að lafa til 150 ára í þessu auma ástandi. Sjálf er ég spennt að heyra hvenær þetta fólk deyr því ég er nokkuð viss um að vísindin segi núna að það er jafn óhollt að vera undir þyngd og það er að vera yfir þyngd. Þannig lifir fólk sem er nokkrum kílóum of þungt en er aktíft lengur en þeir sem eru grannir en stunda enga líkamsrækt. Svo voru þau bara voðalega ljót. 

Mér finnast bara allir öfgar vera af hinu slæma. Ég fæ um mig sömu ónotatilfinningu við að hlusta á þetta fólk og ég fæ þegar ég heyri boðskap talsmanna ISIS eða kristna manna sem vilja meina að samkynhneigð sé óguðleg. Á meðan ég horfði á þáttinn sá ég alveg skýrt hversvegna ég á svona ofboðslega erfitt með að halda mig við lífstíl. Á sama hátt og ég get bara allsekki trúað í blindni á eitthvað og lagt örlög mín í hendur einhvers æðra afls get ég ekki trúað í blindni á lífstíl sem krefst þess að ég skilji eftir efasemdamanneskjuna í mér. Það bara stríðir á móti öllu sem ég trúi á. 

Sama gildir um að borða af innsæji. (Getur einhver þýtt intuitive eating betur fyrir mig?) Málið er að það eru líka reglur sem þarf að fylgja þar.  Ég fann í gær hvernig helgislepjan byrjaði hreinlega að leka af mér. Ég hafði hlustað eftir hungri og heiðrað líkama minn allan daginn og fattaði svo að ég gekk um með svona holier than thou svip á andlitinu af því að ég hafði nánast ekki borðað neitt. Og þegar ég hlustaði á röddina innra með mér var hún að þylja með sér "ef ég hlusta svona á mig og borða ekki neitt og þá verð ég ógeðslega mjó og hamingjusöm og..." Stopp hér! Þetta er ekki enn einn megrunarkúrinn. Ég verð greinilega að vinna enn harðari höndum að því að skáka heimsmyndinni sem segir mér að því minna sem ég borða því merkilegri manneskja er ég. Það er hægara sagt en gert. Og það er algerlega lífsnauðsyn að ég geri þetta ekki að sértrúarsöfnuðinum minum því ég veit að það er örugg leið til að fá mig til að læðast út um bakdyrnar. 

Er til megrunarkúr sem hefur anarkisma að leiðarljósi? Eða heitir það bara að vera feitur?

mánudagur, 6. apríl 2015

Sorgin og snickersið

Mér sýnist sem svo að það verði allir að viðurkenna að það er aðeins meira í þessu spikstríði en að borða minna og hreyfa sig meira. Við getum öll verið sammála um að þetta snúist um eitthvað annað en skort á viljastyrk eða vanvitund á hvað er hitaeiningarík matvara. Ég held að við getum öll samþykkt að væri þetta svo einfalt þá væri líka ólíklegt að svo mörg okkar náum ekki tökum á þessu helvíti.

Ég þarf að byrja á því að skilgreina módelið eða hugsunarháttinn sem ég nota til að skilgreina og skilja heiminn og sjálfa mig. Þannig er það alveg ljóst að ég sé mig sem "góða" þegar ég borða hreint og "vonda" þegar ég borða nammi. Eða þegar ég borða hreint en í óhóflegu magni. Þessi skilgreining á mér er það fyrsta sem ég verð að díla við og breyta. Ég er ekki verri manneskja fyrir að finnast súkkulaði gott. Það er algerlega eðlilegt að finnast það, súkkulaði inniheldur efni sem sendir heilanum skýr skilaboð um vellíðan. Ég stend líka í þeirri meiningu að þegar ég neita mér um hitt og þetta sýni ég skýran karakterstyrk og á sömu nótum er ég sérlega lélegur pappír að mínu mati þegar ég stunda ofát. Eins og það segi eitthvað um persónuleika minn, gáfur, skapgerð, gjafmildi, samúð eða hvað annað sem ég tel sem góða eiginleika á mannverum. 
Ég set líka skýrt samasemmerki á milli matar og ástar/huggunar/hamingju/vellíðan og svo á milli skerandi samviskubits og ofáts. 
Þetta er allt saman eitthvað sem ég greinilega þarf að díla við. Það er algerlega ótækt að setja einhverskonar siðferðislegt mat á það hvernig ég borða. Það að ég sé feit er ekki skilgreining á því hver ég er. 

En, að þessu sögðu þá veit ég líka að mér líður sjömilljónsinnum betur þegar ég er léttari. Ekki af því að ég er geðsjúklega sæt þegar ég er grennri, heldur vegna þess að mér er þá ekki jafn illt allstaðar og mér er þegar ég er þung. Það er hugsunin sem ég þarf að koma að sem þeirri innri meiningu sem hvatningu til að borða af innsæji. Enginn fokkings megrunarkúr, heldur til að næra líkama og sál eins og best er. 

Ég varð fyrir gífurlegri uppljómun um daginn þegar ég loksins skilgreindi mig sem tilfinningaætu. Hingað til hef ég ekki getað viðurkennt það aðallega vegna þess að það er ekkert sem hrjáir mig. Engin tilfinningasár úr æsku. Ég var elskuð og dáð, átti frábæra vini, gekk vel í öllu sem ég tók mér fyrir hendur, meira segja íþróttum þegar ég ákvað að gera vel þar. Nei, mér finnst matur bara svo rosalega góður. En þegar ég í alvörunni hugsaði um þetta, lét hugann reika, lét hugann finna svarið án þess að þrýsta á það þá kom alltaf sama svarið upp. Ég verð svo sorgmædd þegar ég þarf að hætta að borða. Tilhugsunin um að þurfa að hætta þegar ég bara orðin södd veldur mér í alvörunni sorg. Ég er nokkuð viss um að þetta kemur að hluta til vegna þess að ég þurfti að neita mér um mat þegar ég var yngri, af vellviljuðum hugmyndum var ég sett í megrun þegar ég var 11 ára. En málið er að ég var löngu fyrir þann tíma byrjuð að stunda svindilbraskið mitt til að passa að ég fengi sem mest af sætindum. Og ég sit eftir með tilfinningaspaghettíið að það einfaldlega að borða framyfir seddu er tilfinningaát, hvort sem það kemur einfaldlega vegna þess að ég er reið yfir því að mega ekki borða jafnmikið og mig langar til. 

Ég hef val. Ég get kosið að borða mat sem mér finnst góður í magni sem heiðrar hungrið mitt og hætt svo. Ég veit nefnilega að sorgartilfinningin yfir því að hætta er fljót að líða hjá, sér í lagi ef ég sannfæri sjálfa mig um að ég megi borða hvað sem er, hvað sem mig langar í er á matseðlinum. Það er enginn matur vondur eða góður, það er allt leyfilegt. 

Það er æfingar framundan. Að finna hungur, að heiðra hungrið með því að borða það sem seður mig, að finna sorgina og leyfa mér bara að vera sorgmædd og halda svo bara áfram.