mánudagur, 13. apríl 2015

Vinnu(hjól)hestur

Ég er hjólandi þessa dagana, bæði í og úr vinnu. Í siðustu viku hjólaði ég oftar en ekki báðar leiðir, 55 kílómetra á dag. Ég skal alveg viðurkenna smá rasssæri við vikulok og ég stoppaði í smá sólbað á leiðinni heim einu sinni eða tvisvar en að öðru leyti var þetta lítið mál. Ég á bara eitt par af hjólabuxum með gelpúðum í rassi en þyrfti helst að fjárfesta í nokkrum í viðbót til að eiga alltaf til skiptanna. Ég er líka alltaf að fara þetta hraðar, er búin að skafa af þrjár mínútur af tímanum sem þetta tekur. Það hjálpar að það er búið að vera klikkað veður núna að undanförnu með hitastigið farandi upp undir 20 gráður. Ekki kvarta ég nú yfir því. Það er reyndar heilmikið púsluspil að pakka mér í vinnu. Ég skal viðurkenna að leiðin til Chester liggur svona nett niður á við þannig að þrátt fyrir að hamast í klukkustund og tuttugu mínutur er ég enn nokkuð fersk þegar ég kem til vinnu. Þannig að ég er með vinnufötin í bakpokanum og fríska upp á mig og skipti inni á klósetti. Af því að ég er í starfi sem krefst þess að ég sé í "business wear" er hægara sagt en gert að pakka því öllu niður. Nú er ég reyndar búin að eignast góðan bakpoka svo ég kem svo sem öllu fyrir. Svo þarf ég að skipta aftur áður en ég fer aftur heim. Þá er veðrið orðið allt öðruvisi og leiðin öll upp á við þannig að ég þarf að setja yfirhöfn í bakpokann og jafnvel skipta úr langerma peysu yfir í stutterma og taka upp sólgleraugu. Þannig þarf ég áður en ég legg af stað vera búin að hugsa fyrir öllum möguleikum. Það kemur sér því óneitanlega vel að ég var búin að læra vandlega á svona skipulagsvinnu fyrir nokkru þegar ég fyrst byrjaði að spekúllera í heilsunni. Ég er oftast búin að nokkurnvegin plana vinnufötin með vikuáætlun og nesti er allt planlagt sömuleiðis með vikuna i huga. Hjólafötin er öll tilbúin í einni skúffu og ég er alltaf með aukabol, léttan vind/regnjakka og buff pakkaða í bakpokann. Þó að ég sjái að þetta er smávegis vinna að koma þessu öllu fyrir þá er ég bara glöð að gera þetta. Ég get nefnilega ekki að því gert en að þakka fyrir í hljóði að vera nógu hraust til að gera þetta. Það að ég sé nógu líkamlega hraust til að hjóla 55 km yfir daginn og nógu skipulögð til að framkvæma það hlýtur að vera vísbending að það sem ég nú trúi á sé rétt. Hversvegna að berja hausnum við steininn til að ná mér niður í einhverja handahófskennda tölu á vigtinni? Skiptir í alvörunni máli hvað ég er þung ef ég er nógu heilsuhraust til að stunda svona hreyfingu? 

Þetta hugarfar breytir reyndar ekki þeirri staðreynd að mér líður nú samt betur í líkamanum þegar ég borða fallega. Of mikill sykur skilur eftir sig ónotatilfinningu í liðamótum og ég vakna með dúndrandi hausverk daginn eftir þegar ég borða yfir mig. Og það að ég skuli segja að mér sé sama hvað ég sé þung breytir því heldur ekki að ég hef í hyggju að gera mitt besta til að borða þannig að mér líði vel, bæði í liðamótum og í sálinni. Það sem ég ætla ekki að gera er að hafa teljandi áhyggjur yfir því.

Brjálæðingur á hjóli.

2 ummæli:

Harpa Sif sagði...

Ert yndisleg :) haltu þessu áfram

murta sagði...

:)