föstudagur, 10. apríl 2015

Af skrýtnum stöðlum

Það er margsannað að megrunarkúrar virka ekki.  Það er bara staðreynd. 95-97% þeirra sem fara í megrun og léttast um töluverða þyngd hafa fitnað aftur og oftast um meira en þyngdartapið innan þriggja ára. Og gildir þá litlu hvort um megrun eða lífstílsbreytingu er að ræða. Spurningin er að sjálfsögðu hversvegna við gerum okkur þetta trekk í trekk. Ef maður væri með verk og færi til læknis sem segði manni að læknismeðferðin skilaði í 97% tilfella meiri verkjum er harla ólíklegt að maður myndi samþykkja að undirgangast meðferðina, en samt kjósum við flest að gera okkur þetta þegar kemur að mataræði. 

"There are two indisputable facts regarding dietary treatment of obesity. The first is that virtually all programs appear to be able to demonstrate moderate success in promoting at least some short term weight loss. The second is that there is virtually no evidence that clinically significant weight loss can be maintained over the long-term by the vast majority of people." -Confronting the failure of behavioral and dietary treatments for obesity. Garner & Wooley, 1991.

Nánast undartekningalaust og samt höldum við áfram að hamast á stigavélinni á meðan við vigtum kotasælu og gúrku og tökum við hrósinu á meðan vel gengur. "Oh, þú ert svo dugleg!" "Bara að ég hefði þennan viljastyrk" og svo framvegis þar til sál og líkami gefst upp enn einu sinni og maður tapar sér í fjalli af kleinuhringjum og meðfylgjandi samviskubiti og sannfæringu um að maður sé dauðadæmdur lúser með enga jákvæða eiginleika. 

Ef ég skoða málið þá held ég að það sé bara betra að byrja að breyta hugmyndafræðinni sem liggur að baki þess að feitir séu annars flokks fólk en að lafa í vonlausri megrun og það er líka alveg kominn tími til að skoða óraunhæfa fegurðastaðla. Ég leitaði uppi og skoðaði nokkrar myndir af fyrirsætum sem eru flokkaðar í yfirstærð. Samkvæmt fegurðarstuðlum tískuheimsins eru þær hlussur. Og það sem kom verst við mig var að allar voru þær ímynd þess sem ég myndi kalla fullkomna konu. Risastór brjóst, grannt mitti, ávalur magi og þykk læri sem stóðu þétt saman. En allar eru þær einungis taldar hæfar til að auglýsa föt fyrir konur í yfirstærð. Engin þeirra fór yfir stærð 16, flestar voru á bilinu 8-14. Að vera í stærð 8 er samkvæmt mínum stuðli að vera mjög grönn.  Mér finnst þetta skrýtið. Væri ekki skemmilegra að sjá þessar konur auglýsa föt fyrir hinn almenna markað þannig að við hefðum fyrir augunum konur í algengustu stærðinni? (14 hér í Bretlandi) Það væri einfaldlegra skemmtilegra að hafa breiðari hóp kvenna til að auglýsa föt og myndi lýsa betur meðalkonunni. (Ég ætlaði að segja eitthvað um að ekki myndi maður vilja að þingmenn eða stjórnendur fyrirtækja sýndu ekki þversnið af mannfólkinu en svo mundi ég að það er víst ekki nógu góð samlíking heldur...) 

Hvernig væri það? Ef ég fengi bara að sjá í auglýsingum konur sem mér finnast líta út eins og konur, konur sem láta mér líða vel með að vera með risastór brjóst og læri sem enginn sér dagsbirtu á milli? Allskonar konur sem eru táknmynd fyrir hversu mismunandi við erum allar. Með allskonar brjóst og allskonar læri.  Það hlýtur að vera betra en að ég gangi um með angistarkvein í hjarta yfir því hvað ég sé ólöguleg á allan hátt. Kannski er það svo samanburðurinn sem er að drepa okkur allar. Mark Twain sagði :"Comparison is the death of all joy" og mér finnst það nokkuð gott. Það er alltaf hægt að finna einhvern sem er mjórri, ríkari, sætari og skemmtilegri en maður sjálfur. Og það er oftast skammgóður vermir að hitta á einhvern feitari og leiðinlegri. 

Ég þarf líklegast að byrja á sjálfri mér. Ég segi "venjulegt" fólk þegar ég tala um grannt fólk og það hlýtur þá að fylgja með að ég sé óvenjuleg. Og ég á ekki við að ég sé spes eða sérstök, nei óvenjuleg hlýtur að þýða að ég sitji fyri utan normið á neikvæðan hátt. Jamm, ég held að breytt afstaða okkar allra til þess hvað er fallegt og hvað það er sem er verið að mæla þegar talað er um kílóafjölda sé nauðsynleg. Ég bara get ekki gúdderað það lengur að virði mitt sem manneskju minnki við hvert aukakíló.

Meiru hlussurnar þessar tvær.

1 ummæli:

Elías sagði...

Ég held að þetta snúist mest um vandamál í fatahönnun. Föt eru yfirleitt bara hönnuð í einu sniði og frummyndin er alltaf á granna konu. Önnur númer eru bara kópíur af upprunalegu hönnuninni. Stelpurnar eru þarna í hlutverki herðatrés til að sýna hönnun sem er samkvæmt hefð hönnuð í vissri stærð.