fimmtudagur, 9. apríl 2015

Af sértrúarsöfnuðum og sérvisku

Ég horfði á sérlega merkilega heimildamynd í gær um mann sem leitaði leiða til að lengja líf sitt og ákvað að prófa að lifa eftir þremur mismunandi lífstílum sem allir halda því fram að þeir lengi lífið. Mér þótti þetta skemmtilegur og áhugaverður þáttur og það fyrir nokkrar sakir. Fyrir það fyrsta finnst mér skringilegt að vilja lengja lífiið, flestir viðmælendur voru að tala um 120-150 ár. Á meðan að ég hef enga sérstaka dauðaósk þá sé ég heldur ekki mikinn tilgang í að skrölta um langt framyfir það sem hlýtur að vera skemmtilegt. En það sem sló mig mest var að allir þrír viðmælendur eru í því sem ég kalla lífstíl, og allt voru þetta kunnuglegir lífstílar. Helst ber að nefna "Calorie Restriction" eða lághitaeiningkúr og svo "Paleo" eða hellismannakúrinn. Sá þriðji var svo bara öfgagrænmetisætur sem í raun borðuðu bara ávexti. (Og voru svo miklir rugludallar að ég nenni ekki að eyða frekari ummælum um þau.) Það var ljóst um leið og heimildamyndargerðarmaðurinn, Giles, byrjaði að tala við fólkið að öll voru þau sanntrúuð, og flest það sem var sagt og gert var ekki endilega byggt á 100% vísindum (þó margt sem þau prédika líti út eins og vísindi þá hefði ég nú frekar flokkað sem pseudoscience) og var fremur byggt á blindri trú. Það er alger grunnskilyrði fyrir því að lifa eftir þessum "vísindum" að maður þarf að vera sanntrúaður og trúa á kenningarnar af sömu einurð og fólk lifir eftir hinum ýmsu trúarkenningum. 

Paleo fólkið virkaði sérstaklega eins og sértrúarsöfnuður sem dýrkar leiðtogann, Mark Sissons. Hann var svona hálfguð í þeirra augum og fólk hvískraði um að hann liti út fyrir að vera þrítugur þrátt fyrir að vera rúmlega fimmtugur. Ég get ekki sagt að ég hafi verið sammála, hann lítur út fyrir að vera vöðvastæltur rúmlega fimmtugur maður. Sem er nátturulega ljómandi gott fyrir hann, en engu að síður, fimmtugur. Ég er líka alveg sammála paleo fólki um að við borðum allt of mikið af unnum einföldum kolvetnum. En nema að maður sé með skýrt óþol fyrir matartegund þá sé ég heldur enga ástæðu til að skera algerlega út heilan fæðuhóp. Hver í ósköpunum getur haldið því fram að það sé ekki gott að borða hafragraut? Fyrir utan að ef maður skoðar vísindi aðeins þá er eina ástæðan fyrir því að við erum ekki hellisbúar lengur sú að við borðum glúkósa sem við fáum úr kolvetnum. Um leið og við byrjuðum að borða þannig stækkaði í okkur heilinn, við urðum gáfaðri og gáfaðri og gátum leyst stærri og stærri verkefni. Og að lokum færðum við okkur úr hellinum og inn í raðhús í Grafarvoginum, hversu gáfulegt það var nú.  Bottom line er að við værum enn hellisbúar ef ekki fyrir kolvetnin og Mark Sissons myndi ekki vera að raka inn peningum fyrir að setlja paleostimplað fæðubótarefni. 

Fólkið sem borðar skertar hitaeiningar var líka sanntrúað á sinn lífstíl en hafði engan svona sérstakan flokk eða leiðtoga. Á meðan að það er að minnsta kosti hægt að sjá að paleo fólkið var hraust og vel stælt eftir allt cross fittið var hitaeiningasnauða fólkið veiklulegt og illa til reika. Hárið þunnt, tennurnar ljótar, húðin þurr og tekin og þau voru með Biafra maga, útstæðan af næringarskorti sem maður sér bara á fórnarlömbum hungursneyðar. Þau borðuðu lítið spennandi mat, soðið bygg og súrkál að mestu leyti og ég varð að vera sammála Giles um að ég væri frekar til í að lifa styttra og fá kleinuhring öðruhvoru en að lafa til 150 ára í þessu auma ástandi. Sjálf er ég spennt að heyra hvenær þetta fólk deyr því ég er nokkuð viss um að vísindin segi núna að það er jafn óhollt að vera undir þyngd og það er að vera yfir þyngd. Þannig lifir fólk sem er nokkrum kílóum of þungt en er aktíft lengur en þeir sem eru grannir en stunda enga líkamsrækt. Svo voru þau bara voðalega ljót. 

Mér finnast bara allir öfgar vera af hinu slæma. Ég fæ um mig sömu ónotatilfinningu við að hlusta á þetta fólk og ég fæ þegar ég heyri boðskap talsmanna ISIS eða kristna manna sem vilja meina að samkynhneigð sé óguðleg. Á meðan ég horfði á þáttinn sá ég alveg skýrt hversvegna ég á svona ofboðslega erfitt með að halda mig við lífstíl. Á sama hátt og ég get bara allsekki trúað í blindni á eitthvað og lagt örlög mín í hendur einhvers æðra afls get ég ekki trúað í blindni á lífstíl sem krefst þess að ég skilji eftir efasemdamanneskjuna í mér. Það bara stríðir á móti öllu sem ég trúi á. 

Sama gildir um að borða af innsæji. (Getur einhver þýtt intuitive eating betur fyrir mig?) Málið er að það eru líka reglur sem þarf að fylgja þar.  Ég fann í gær hvernig helgislepjan byrjaði hreinlega að leka af mér. Ég hafði hlustað eftir hungri og heiðrað líkama minn allan daginn og fattaði svo að ég gekk um með svona holier than thou svip á andlitinu af því að ég hafði nánast ekki borðað neitt. Og þegar ég hlustaði á röddina innra með mér var hún að þylja með sér "ef ég hlusta svona á mig og borða ekki neitt og þá verð ég ógeðslega mjó og hamingjusöm og..." Stopp hér! Þetta er ekki enn einn megrunarkúrinn. Ég verð greinilega að vinna enn harðari höndum að því að skáka heimsmyndinni sem segir mér að því minna sem ég borða því merkilegri manneskja er ég. Það er hægara sagt en gert. Og það er algerlega lífsnauðsyn að ég geri þetta ekki að sértrúarsöfnuðinum minum því ég veit að það er örugg leið til að fá mig til að læðast út um bakdyrnar. 

Er til megrunarkúr sem hefur anarkisma að leiðarljósi? Eða heitir það bara að vera feitur?

Engin ummæli: