mánudagur, 6. apríl 2015

Sorgin og snickersið

Mér sýnist sem svo að það verði allir að viðurkenna að það er aðeins meira í þessu spikstríði en að borða minna og hreyfa sig meira. Við getum öll verið sammála um að þetta snúist um eitthvað annað en skort á viljastyrk eða vanvitund á hvað er hitaeiningarík matvara. Ég held að við getum öll samþykkt að væri þetta svo einfalt þá væri líka ólíklegt að svo mörg okkar náum ekki tökum á þessu helvíti.

Ég þarf að byrja á því að skilgreina módelið eða hugsunarháttinn sem ég nota til að skilgreina og skilja heiminn og sjálfa mig. Þannig er það alveg ljóst að ég sé mig sem "góða" þegar ég borða hreint og "vonda" þegar ég borða nammi. Eða þegar ég borða hreint en í óhóflegu magni. Þessi skilgreining á mér er það fyrsta sem ég verð að díla við og breyta. Ég er ekki verri manneskja fyrir að finnast súkkulaði gott. Það er algerlega eðlilegt að finnast það, súkkulaði inniheldur efni sem sendir heilanum skýr skilaboð um vellíðan. Ég stend líka í þeirri meiningu að þegar ég neita mér um hitt og þetta sýni ég skýran karakterstyrk og á sömu nótum er ég sérlega lélegur pappír að mínu mati þegar ég stunda ofát. Eins og það segi eitthvað um persónuleika minn, gáfur, skapgerð, gjafmildi, samúð eða hvað annað sem ég tel sem góða eiginleika á mannverum. 
Ég set líka skýrt samasemmerki á milli matar og ástar/huggunar/hamingju/vellíðan og svo á milli skerandi samviskubits og ofáts. 
Þetta er allt saman eitthvað sem ég greinilega þarf að díla við. Það er algerlega ótækt að setja einhverskonar siðferðislegt mat á það hvernig ég borða. Það að ég sé feit er ekki skilgreining á því hver ég er. 

En, að þessu sögðu þá veit ég líka að mér líður sjömilljónsinnum betur þegar ég er léttari. Ekki af því að ég er geðsjúklega sæt þegar ég er grennri, heldur vegna þess að mér er þá ekki jafn illt allstaðar og mér er þegar ég er þung. Það er hugsunin sem ég þarf að koma að sem þeirri innri meiningu sem hvatningu til að borða af innsæji. Enginn fokkings megrunarkúr, heldur til að næra líkama og sál eins og best er. 

Ég varð fyrir gífurlegri uppljómun um daginn þegar ég loksins skilgreindi mig sem tilfinningaætu. Hingað til hef ég ekki getað viðurkennt það aðallega vegna þess að það er ekkert sem hrjáir mig. Engin tilfinningasár úr æsku. Ég var elskuð og dáð, átti frábæra vini, gekk vel í öllu sem ég tók mér fyrir hendur, meira segja íþróttum þegar ég ákvað að gera vel þar. Nei, mér finnst matur bara svo rosalega góður. En þegar ég í alvörunni hugsaði um þetta, lét hugann reika, lét hugann finna svarið án þess að þrýsta á það þá kom alltaf sama svarið upp. Ég verð svo sorgmædd þegar ég þarf að hætta að borða. Tilhugsunin um að þurfa að hætta þegar ég bara orðin södd veldur mér í alvörunni sorg. Ég er nokkuð viss um að þetta kemur að hluta til vegna þess að ég þurfti að neita mér um mat þegar ég var yngri, af vellviljuðum hugmyndum var ég sett í megrun þegar ég var 11 ára. En málið er að ég var löngu fyrir þann tíma byrjuð að stunda svindilbraskið mitt til að passa að ég fengi sem mest af sætindum. Og ég sit eftir með tilfinningaspaghettíið að það einfaldlega að borða framyfir seddu er tilfinningaát, hvort sem það kemur einfaldlega vegna þess að ég er reið yfir því að mega ekki borða jafnmikið og mig langar til. 

Ég hef val. Ég get kosið að borða mat sem mér finnst góður í magni sem heiðrar hungrið mitt og hætt svo. Ég veit nefnilega að sorgartilfinningin yfir því að hætta er fljót að líða hjá, sér í lagi ef ég sannfæri sjálfa mig um að ég megi borða hvað sem er, hvað sem mig langar í er á matseðlinum. Það er enginn matur vondur eða góður, það er allt leyfilegt. 

Það er æfingar framundan. Að finna hungur, að heiðra hungrið með því að borða það sem seður mig, að finna sorgina og leyfa mér bara að vera sorgmædd og halda svo bara áfram. 








Engin ummæli: