fimmtudagur, 16. apríl 2015

Af ást og hatri. Og fat shaming.

Söngkonan P!nk var í fréttum um daginn. Hún mætti á samkomu sem var ætluð sem fjáröflunarveisla fyrir rannsóknir á krabbameini. En í stað þess að fá að vekja athygli á málstaðnum snérist umræðan um hversu mikið hún hafði fitnað. Miðlar eins og Upworthy og Huffington Post voru fljótir til að benda á hversu skrýtið þetta væri og P!nk sjálf átti ekki í miklum vandræðum með að svara gagnrýnendum fullum hálsi. En samt. Hvað er það í nútíma samfélagi sem gerir það að verkum að "Fat shaming" eða fituskömm virðist vera ásættanleg hegðun?

Að hluta til er það skýrt af því hversu auðvelt það er að koma skoðun sinni, óritskoðaðri, út um allan heim. Twitter, Facebook og blogg hafa gefið öllum rödd, og þar eru vanvitar ekki undanskildir. Við getum öll séð myndir af P!nk um leið og hún birtist á rauða dreglinum og öll getum við myndað okkur skoðun og ælt þeirri skoðun svo út úr okkur á ljóshraða. 

Sjálf held ég að það sé þó einungis lítill hluti af fituskömm. Fituskömm, eins og svo margt annað sem miður fer í sálarlífi okkar mannfólksins, kemur frá okkur sjálfum. Við viðhöldum þessu. Við ráfum um hugsjúk og heltekin af hugsunum um kílóafjöld og kolvetni, fitu og hreyfingu þannig að öll gleði hefur verið sogin úr lífinu. Kvíðabólgan í maganum yfir því hvað vigtin og spegillinn segja leyfir manni ekki að njóta eins einasta matarbita. Í stað þess að borða til að njóta þess eða jafnvel til að fá næringu er matur allt í einu orðinn óvinurinn eða einhverskonar prófskali á hversu viljasterk við erum. Á það hversu dugleg við erum. Og í stað þess að hreyfa okkur af einskærri gleði yfir því að við erum búin líkama sem getur gert ótrúlega hluti lítum við á hreyfingu sem kvöð og pínu, sem refsingu yfir því hversu mikið við borðum, hversu þung við erum og hversu litla stjórn við höfum á okkur. (Sjá Linda Bacon, HAES)

Er ekki of miklu púðri eytt í að hafa áhyggjur af því hvernig við sjálf, og aðrir, líta út og of litlu púðri eytt í að gera heiminn að betri stað? 

Goffman (1963) setti í kenningu hvernig stigma er flokkað i það að gera fólk óásættanlegt í augum annarra.  Hann flokkaði þetta sem "tribal stigmata", "abominations of the body" og "blemishes of individual character".  Þannig horfum við ekki bara niður á þá sem flokkast í þessa hópa heldur tekur einstaklingurinn þessi óþægindi inn á sig líka og skilgreinir sjálfan sig út frá þessu. 

Það er svo auðvelt að benda á feita. Við sjáumst svo vel. Við berum utan á okkur það sem flestir túlka sem skapgerðarbrest, leti og skort á elju. Hugsið ykkur ef illkvittið fólk væri allt með gúlp á nefinu? Eða heimilisofbeldismenn væru allir með tvölfalt stærri rass en við hin? Sjálfumglaðir alsettir vörtum. Það væri nú ljómandi gott. Við gætum auðveldlega bent á þetta fólk og passað okkur á að vera ekkert að dedúa neitt við það. Svona eins og þegar mér er bent á það úti á götu hvað ég sé feit. Eins og að það segji mér eitthvað um hver ég sé. Eða þegar internetið finnur sig knúið til að segja P!nk að hún sé nú alveg búin að sleppa sér. Málið er að með því að búa til svona stigma í kringum offitu gerum við vandamálið verra. 

"The reasons for perceived discriminations deleterious effect on heath are many, including the stress of repeated contact with antagonistic others, rejection or aviodance on social settings, negative self perceptions, and differential allocations of resources via social segregation." (Campbell and Troyer 2007; Carr and Friedman 2005)

Þess vegna gildir það sama um að klæða fituskömm upp í áhyggjur af heilsu fólks. Nú má ekki misskilja mig. Það er enginn vafi á þvi að það er mýgrútur af sjúkdómum sem verða verri að díla við þegar maður er of feitur. En það má heldur ekki rugla því saman við að flestir þessa sjúkdómar eru ekki orsakaðir af offitu. Og halda það að áhyggjur af heilsu fólks gefi leyfi til að niðurlægja eða láta of feitum einstaklingi liða illa með sjálfa sig er stórkostlegur misskilningur. Þannig get ég sagt að líkamlega líður mér betur þegar ég er 80-90 kíló en þegar ég 100-140 kíló. Vegna þess að það er auðveldara að hreyfa mig þegar ég er léttari. En ég var ekki "veikari" þegar ég var feitari. Það sem gerist hinsvegar er að feitt fólk er mun líklegra til að telja sig vera við verri heilsu en það er vegna stigmans sem fylgir því að vera feitur.  Það að ég sé 100% heilsuhraust og geti að auki framkvæmt alla þá hreyfingu sem ég þarf til að viðhalda þessu hreysti ætti að vera nógur mælikvarði fyrir mig. Ég á ekki að þurfa að finnast ég þurfi LÍKA að vera grönn innan einhverra staðla sem hafa verið settir af tískuheiminum. Ég á að geta gengið um hnarreist í þeirri vissu að sterki, fallegi líkami minn hafi borið mig í gegnum lífið, geti hjólað 50 km á dag, geti lyft þungum lóðum, hafi borið og nært barn og sé ákkúrat réttur fyrir mig. Öll skömm, öll vanlíðan yfir því að ég sé ekki nóg kemur utan að frá. Ég bjó þær tilfinningar ekki til. 

Ef ég set þetta upp þannig að of feitur einstaklingur hefur í hyggju að byrja að hreyfa sig. Það er jú betra að vera aktífur. En við stressið sem það fylgir því að gera eitthvað nýtt og óþekkt sem allir myndu finna fyrir bætist við skynjað stress í formi þess að gera ráð fyrir því að aðrir geri grín að manni, að maður fái óþægileg komment eða augngotur ofan á svo stressið sem maður verður fyrir þegar það svo gerist í alvörunni. (Já, það eru óteljandi mannvitsbrekkur þarna úti sem sjá sóma sinn helst í því að öskra hástöfum á mann til að láta mann vita hversu óæskilegur maður er útlits) Allt þetta verður til þess að það er ólíklegra að sá feiti hætti sér út í neina hreyfingu. 

Það er svo skýrt að þessi fituskömm verður bara að hætta. Það sem er skrýtnast við þetta að fituskömmin virðist hreinlega aukast í sama magni og samfélagið fitnar, þrátt fyrir gífurlega aukingu á fólki í yfirþyngd virðist ekkert ganga í að fá okkur til að taka okkur sjálf í sátt. Ég hef sagt það áður að ef við gætum hatað okkur mjó þá væri enginn feitur. Við þurfum enga hjálp við það hatur. Hvernig væri að prófa ást, samúð eða skilning? 



Engin ummæli: