föstudagur, 17. apríl 2015

We love you Wrexham, we do, We love you Wrexham we do, Oooh Wrexham we love you.

Það hefur komið mér sjálfri jafn assgoti mikið á óvart og það hefur sjálfsagt komið vinum mínum hversu mikill fótboltaáhugamaður ég er skyndilega orðin. Ég er jú, anti sportisti og með sérlega fyrirlitningu á hópíþróttum. Fyrir nokkrum árum síðan hefði ég sjálf hlegið hvað hæst ef einhver hefði stungið upp á að ég kæmi til með að eyða öðrum hverjum laugardagseftirmiðdegi öskrandi mig hása við að horfa á utandeildarlið í Norður-Wales spila sub-standard fótbolta. 

Til að byrja með vildi ég bara vera góð eiginkona. Dave minn er búinn að vera stuðningsmaður Wrexham FC síðan hann fékk fyrst að fara á völlinn um átta ára aldur. Hann fékk reyndar ekki að fara á hvern leik, þetta var á áttunda áratugnum þegar það var í alvörunni hættulegt að mæta á suma leiki vegna ofbeldismanna. Menn slógust af alvöru á þessum tíma. Hann var þess þó aðnjótandi að fá að horfa á Wrexham spila þegar þeir voru stór klúbbur, voru í Evrópu og hann horfði td á þá spila við og vinna lið eins og Porto og Roma. Hann er reyndar síðan búinn að fylgjast með þeim falla niður um hverja deildina á fætur annarri þar til nánast botninum er náð. Svo er Dave líka fæddur og uppalinn í Wrexham. Að hans mati kom aldrei til greina að styðja neitt annað en sitt heimalið. Og það þrátt fyrir að bæði Liverpool og Manchester eru hérna rétt hjá okkur. Hann er, eins og hann segir sjálfur og er augljóst því hann giftist mér, "a glutton for punishment." 

Sjálf fékk ég ekki að njóta þessara "glory days". Nei, minn fyrsti heimaleikur var á ísköldum nýjársdag 2003 þar sem við töpuðum 3-0 fyrir Macclesfield. Og maðurinn minn var ekkert að eyða í sæti fyrir mig, nei, hann fór með mig á "the kop end" þar sem allra hörðustu stuðningsmennirnir standa allan leikinn. Ég hafði ekki einu sinni heyrt um Macclesfield á þessum tíma.  Sem er reyndar líka annar bónus við utandeildina, ég er búin að læra heilmikið í landafræði. Altrincham, Aldershot,  Welling og Woking anyone?

Mér fannst samt hrikalega gaman. Það var sungið og kallað og þó ég skildi ekki alveg reglurnar á vellinum skildi ég hversu mikilvægt þetta var fyrir Dave og alla hina sem stóðu í kringum okkur. Það var nánast áþreyfanleg sorgin þegar dómarinn flautaði í leikslok og við gengum niðurlút út búin að tapa á heimavelli. 

Dave elskar fótbolta. Hann er stærðfræðingur og skilur leikinn á tölfræðilegan hátt. Og mér fannst sjálfsagt að setja mig aðeins inn í stærsta áhugamál hans. Svona til að vera slarkfær í tungumálinu.  Það var hreinlega annað hvort það eða vera pirruð í gegnum helminginn af hjónabandinu. Þannig að ég hlustaði á hann þegar hann talaði, og horfði á leiki með honum og smá saman fór ég að skilja reglurnar og skynja færnina sem þarf til að vera góður fótboltamaður. Mér finnst sérstaklega gaman að skoða söguna, liðin sem voru einu sinni risastór en eru varla til lengur. Hver man ekki eftir því td að styðja Notthingam Forest á áttunda áratugnum í gegnum Evrópusigur þeirra? Og flestir íslendingar á mínum aldri bera Sheffield Wed-nes-dei fram á la Bjarni Fel fremur en eins og við vitum hvernig á að segja það, Wensdei. En hver fylgist með þessum liðum núna? Flestir hafa sjálfsagt skipt yfir í lið sem er auðveldara að styðja, eins og Liverpool eða United. Ég ét líka í mig sögur af því þegar litla liðið vinnur stóra liðið eins og þegar Wrexham vann Arsenal í bikarleik 1992. Það er eitthvað óviðjafnanlegt við Davíð og Golíat slagi. Og sérstaklega gaman af því að hugsa til þess að Wrexham, sem er þriðji elsti klúbbur í heimi er búinn að spila fótbolta síðan 1864. Það var ekki einu sinni alþingishús á Íslandi á þeim tíma. 

Ég fór svo að fara með Dave á völlinn fyrir tveimur árum síðan svona nokkuð reglulega. Og áhuginn negldur niður. Fyrir mér snýst þetta um svo miklu meira en fótboltann, þetta snýst um að vera hluti af hóp. Mér finnst enn skemmtilegast að syngja. Í sönnum breskum sið snýst allt um að gera grín að sjálfum sér og stríða andstæðingum. "We´re shit and we know we are" syngjum við oft til að slá vopnin úr höndum hins liðsins. Eða uppáhaldið mitt "We know what we are, we know what we are; Sheepshagging bastards, we know what we are" Við höfum þannig tekið móðgunina sem Englendingar nota á Veilsverja, að þeir noti kindur til annars en bara ullarframleiðslu, og notum í okkar hag. Svo er gert grín að hinum. "Are you Chester in disguise?" myndum við syngja um hvaða lið sem okkur finnst sérlega lélegt til dæmis. "2-0 and you fucked it up!" er sérstaklega ljúfur söngur þegar andstæðingarnir fara yfir en svo náum við að jafna. Leikmennirnir fá svo sinn skammt líka. "He´s one of our own, Robbie Evans, he´s one of our own" syngjum við um strák héðan úr nágrannaþorpinu og dáumst að heimaræktuðu talent. "Score in a brothel, you couldn´t score in brothel" er svo mjög vinsælt ef einhver þeirra missir af gefnu marki. 
 
Svo er það samkenndin sem myndast. Ég tala um "okkur" eða "við" þegar ég tala um fótboltaliðið. Og ég held að við sem höldum með svona litlu (lélegu) liði finnum samkenndina enn sterkar. Það getur hver sem er haldið með United eða Chelsea eða Barcelona og vitað að flestir leikir verði sigurleikir, en það krefst ástríðu að halda með liði sem tapar oftar en ekki. 

Ég hef ákveðið að taka þessu sem góðri lífslexíu. Það er allt í lagi að skipta um skoðun. Og það er svo sannarlega ekkert að því að finna sér nýtt áhugamál. Hversu hallærislegt sem manni má hafa fundist það sem unglingur. Meira að segja þó áhugamálið feli í sér að veifa rauðum og hvítum trefli og æpa ókvæðisorð að ókunnugum frá Grimsby. 

Það er síðastl heimaleikurinn á þessari leiktíð núna á laugardaginn.  Okkur tókst illa upp í ár, planið var að komast aftur inn í deildina þar sem við eigum heima en við klárum þess í stað árið á að lafa í 11. sæti. Við töpuðum utandeildarbikarúrslitaleiknum sem varbspilaður á Wembley fyrir liði sem er í neðri deild en við og við rákum þjálfarann. Leiktíðin endar því á svona frekar lágstemmdum nótum. Hvað um það, svo lengi sem við klárum hærra en Chester. Og skiptir engu, næsta leiktíð, það verður okkar tími! Nú er bara að finna sér eitthvað til dundurs til að láta tímann líða þangað til tímabilið byrjar aftur. 

"Can you hear the Chester sing? Oh ah, oh ah"

Engin ummæli: