fimmtudagur, 30. apríl 2015

Af vængjum

Við sem höfum alist upp á Íslandi, eða í flestum Norður-Evrópulöndum, er nokkuð lukkuleg með að þvi fylgir ákveðið frelsi hvað líkamsímynd varðar. Við erum nefnilega öll vön að rífa okkur úr öllu í sturtunni í sundi, í ræktinni eða í gufu. Frá unga aldri höfum við staðið hlið við hlið, feitar og mjóar, litlar og stórar, með allskonar mitti, maga og brjóst og sápað okkur i sturtunni án þess mikið að spá í nekt sem slíkri. Það var ákveðið menningarsjokk að koma hingað til Bretlands þar sem nekt er alls ekki sjállfsagt mál. Hér fer fólk í sundfötin heima hjá sér, klæðir sig svo í fötin sín yfir, fer í sundlaugina þar sem það pukrast í litlum klefa áður en svo er haldið út í laug án þess að koma við í sturtunni. Hér er nakinn likami eitthvað til að fela og/eða grínast með. Ég veit af reynslu að flestar konur eru með appelsínuhúð og slit og að flest brjóst þurfa á alvarlegum stuðining að halda til að gefa þá mynd að þau sé stinn. Ég veit þetta vegna þess að ég hef komið milljón sinnum inn i búningsklefa þar sem ég stóð kviknakin meðal annarra kviknakinna kvenna. Ég veit hvernig venjulegar konur líta út.  Breskar kynsystur mínar hafa ekki þessa reynslu. Eftir því sem þær best vita eru allar konur eins og fótósjoppuð Elle McPherson af því að þær hafa aldrei fengið tækifæri til að sjá aðrar venjulegar konur. Ekki nema von að þeim finnist þær vera ómögulegar sjálfar. 

Ég verð þessvegna að viðurkenna að ég var hissa þegar ég sá Dove SönnFegurð myndbandið í gær sem segir að ein af hverjum fjórum íslenskum stúlkum fer ekki í sund vegna þess að þær skammast sín fyrir líkama sinn. Ég var sannfærð um að íslenskar stúlkur væru allar eins og ég; óttalausar eða að minnsta kosti með löngutöng reista hátt í áttina að hverjum þeim sem mundaði sig við aðfinnslur. 

Nú veit ég ekki hvort þetta Norður-Evrópska uppeldi mitt sé það sem hjálpar mér svona mikið nú þegar ég er að reyna að stunda "fitusátt" (fat acceptance) eða hvort ég sé hreinlega bara alveg á skjön við allt sem aðrar konur eru að hugsa. Ég hef engar óraunhæfar hugmyndir um fegurð. Sjálf hef ég aldrei þurft neitt sérstaklega að berjast við útlitið. Mér hefur alltaf þótt ég vera voðalega sæt. Ég sagði stundum að það var eiginlega vandamál því ef mér þætti ég hrikaleg þá hefði ég kannski barist meira við að halda mig við megrunir svona í gegnum árin. En nei, ég hef alltaf bara verið ánægð með mig og hef getað skautað létt yfir það sem ég gat ekki alveg gúdderað. Ég gat bara ekki hatast við sjálfa mig. Það var svo þegar ég fann raunverulega innri ástæðu til að léttast þegar þetta small saman. Ég var svo ósátt við að geta ekki leikið við Lúkas. Mér þótti ómögulegt að vera svo feit mamma að ég gæti ekki hlaupið um með honum, beygt mig niður eftir honum eða jafnvel tekið eina salíbunu í rennibrautinni með honum. Þetta var ástæða fyrir að grennast með innri meiningu og hafði ekkert með það að gera hvernig ég leit út. 

Núna er Lúkas límdur við xboxið sitt, finnst ég að mestu leyti vera "inappropriate mum" og hringsnýr augunum af "embarrassment" þegar ég sting upp á að við leikum okkur saman. Hann er pre-teen og ég er jafn hallærisleg og Vanilla Ice. Innri meiningin mín hefur þvi ósjálfrátt snúist að útlitinu. Ég gat náttúrlega ekki annað en notið þess óhjákvæmilega fylgifisks að grennast að geta keypt föt á fleiri stöðum og notið þess prósess í meira magni. Ég fann reyndar líka að ég varð krítískari á sjálfa mig. Eftir því sem ég grenntist meira varð ég óánægðari með vængina mína. Vængirnir mínir eru bakspik. Það er afskaplega fátt fallegt hægt að segja um bakspik og það er nánast útilokað að fela það. En þetta var eitthvað sem ég tók fyrst eftir almennilega eftir að ég grenntist. Upp að þeim tímapunkti hafði ég aldrei haft áhyggjur af neinum einum þætti af líkama mínum. Það var meira svona bara general yfir allt heildina. En ef ég spái í því þá eru vængirnirn mínir alveg örugglega eitthvað sem bara ég sé, hvað þá hef áhyggjur af. Enginn annar er að velta þessu fyrir sér. Fyrir utan að ef fólk hefur í alvörunni tíma til að velta fyrir sér hvort ég sé feit þá finnst mér líklegra að það sjái bara alla heildarfituna en fókusi ekki á vængina. Þetta er einfaldlega ekki neitt til að hafa eyða tíma í.

Er ég í alvörunni svona hrokafull og sjálfumglöð að mér er eiginlega samt alveg sama þó vængirnir sjáist þegar ég er í sundi? Eða er þetta nonchalance núna einfaldlega komið til vegna þess að ég er orðin hundgömul og ég er einfaldlega sáttari við mig en stúlkur á aldrinum 18-25 ára eru við sig? Eða hefur eitthvað breyst svo að krafan er ríkari að þessar stúlkur samræmist einhverjum staðli sem ég þurfti ekki að spá í fyrir 15-20 árum? Nú tala ég frá sjónarmiði þess sem hefur verið feit alla ævi, ég hef aldrei haft það sem ég myndi flokka sem lúxus að hafa áhyggjur af einhverju jafnsmávægilegu og fimm aukakílóum. Reyndu við fimmtíu. Kannski þarf bara að setja smá perspective á þetta. Ég veit það eitt fyrir víst að ég er alveg ómöguleg yfir tilhugsuninni að ungar, fallegar, allskonar konur fari ekki í sund af ótta við að samræmast ómögulegum stöðlum. Ég vildi óska að ég gæti sannfært þessar ungu konur að það er helber tímasóun að hafa áhyggjur af lærapokum, sliti, aukakílóum og vængjum. Tilhugsunin að þær eyði næstu tuttugu árum í þessar áhyggjur er of sorgleg til að hugsa til enda.  Fegurð hverrar ykkar veltur einfaldlega ekki á fegurð einhverrar annarar. 

Engin ummæli: