mánudagur, 4. maí 2015

Af uppreisn

Ég á aldrei eftir að verða grönn. Aldrei. Ég á aldrei eftir að verða grönn þannig að ég get allt eins verið hamingjusöm. 

Oftar en ekki ljósta mann bestu hugmyndirnar þegar maður er að hreyfa sig og það var á hjólreiðum á leiðinni í vinnunna um daginn sem þessi hugsun kom upp. Ég get allt eins bara verið hamingjusöm frekar en að reyna að vera grönn. En hvað þýðir það eiginlega þegar ég segi svona hluti? Hvað þýðir það að vera feit og hamingjusöm og í hvað á ég að eyða tíma mínum ef ég er búin að gefa upp á bátinn þennan draum um að verða grönn og í ofan á lag búin að fjarlæga samasemmerkið á milli grönn og hamingjusöm? 

Get ég nú bara látið það eftir mér að ryksuga í mig heilum kexpakka á kvöldin? Get ég hætt að hreyfa mig? Get ég bara strokið ástúðlega um belginn á mér og andvarpað af hamingju að ég þurfi ekki lengur að hafa áhyggjur af honum? Get ég bara "gefist upp"?

Mér finnst að gefast upp ekki vera skilgreinining á að hætta að reyna að vera grönn og vera hamingjusöm. Ég held að þetta túlkist frekar sem bara ein setning: að vera hamingjusöm. Um leið og ég tek út úr dæminu að vera grönn opna ég fyrir möguleikann á að borða til að næra mig af alvöru og hreyfa mig fyrir gleðina. Ég er nefnilega hamingjusöm þegar ég hreyfi mig og þegar ég næri mig. Þegar ég hinsvegar borða með það eitt í huga að þvinga fram hitaeiningaþurrð og hreyfi mig með það eitt í huga að brenna enn fleiri hitaeiningum er ég ekki hamingjusöm. Hreyfing er ekki góð af því að maður gæti grennst af því að hreyfa sig; hreyfing er góð af því að hreyfing er góð. Það er hreyfinging sjálf sem gerir manni gott, ekki eitthvað sem kannski gæti gerst í framtíðinni. 

Ég á bara enn erfitt með að slaka á uppreisninni. Ég veit ekki alveg gagnvart hverjum ég er að gera uppreisn þegar ég borða yfir mig; gegn einhverju óskilgreindu yfirvaldi sem áður bannaði ofát á mat sem ég flokka sem djúsí eða gagnvart samfélagi sem segir mér að ég sé ákveðinn karakter bara vegna þess að það ég er feit. Ég á enn mjög erfitt með það. Að það sé hægt að segja mér að ég sé löt, án viljastyrks og einmana bara af því að ég ber utan á mér hvernig ég borða. Hvað með grönnu manneskjuna sem mætir ekki í vinnu? Ekki get ég dæmt um að hún sé löt bara á útlitinu en samt er í lagi að dæma svo um feitt fólk. Persónulega veit ég um fáa sem vinna jafn hörðum höndum að nokkrum sköpuðum hlut og ég hef unnið að því að verða grönn síðustu 35 árin. En samt má dæma mig sem lata. 

Er nema von að mig langi stundum að gera uppreisn. En ég er bara alltaf að skilja betur að byltingin étur börnin sín og fær sér svo líka kökusneið á eftir og bitnar á engum nema sjálfri mér. 

Sem færir mig aftur að því að vera hamingjusöm. Fyrir mér er það að finna þetta jafnvægi. Þar sem ég hreyfi mig þannig að það er skemmtilegt og með tilgangi en krefst ekki neins járnvilja. Járnvilji er bara fyrir sérsveitarmenn og á ekkert erindi við venjulegt fólk sem stundar venjulega hreyfingu. Þar sem ég er ekki það feit að ég meiði mig þegar ég hreyfi mig. Þar sem ég get borðað það sem mér sýnist, þegar mér sýnist en að ég kjósi frekar sjálfviljug að borða mat sem ég veit að lætur mér líða vel líkamlega. Þannig að ég kjósi að hætta að borða áður en ég verð of södd. Þar sem ég get dílað við sorgina sem ég finn þegar ég þvinga mig til að hætta áður en ég vil. Þar sem ég er frjáls.  

Það er meira en að segja það að gefa upp á bátinn rúmlega þrjátíu ára gamlan draum. Ég geri ekki ráð fyrir því að ég get bara hætt rétt sí sonna að hugsa í hitaeiningum. Þetta á eftir að vera smá prósess. En ég geri líka ráð fyrir því að sátt við sjálfa mig, jafnvægi og frelsi séu betri og stærri verðlaun en að passa í buxur sem ég keypti 1988. 


1 ummæli:

Kristín Guðbrands sagði...

Kíktu á þessa skvísu:
http://paleoforwomen.com/the-love-diet/

http://paleoforwomen.com/what-paleo-means-to-me/
Kv.
Stín stín