Það er margt gott við að búa í útlöndum en ég skal nú samt segja að þetta var erfitt fyrst. Fyrir utan að sakna mömmu og pabba, vina og vandamanna ákaflega, þá var íslenskur matur mér sérlega hugleikinn. Hver sem hingað kom var krafinn um harðfist, söl, Nóakropp, flatkökur, lakkrís, remúlaði, pulsusinnep, hraunbita, appelsín, hangikjöt, saltfisk og skyr. Eftir því sem árin liðu varð listinn styttri þangað til að eftir stóð eiginlega bara harðfiskur. Þó ég slái nú ekki hendinni á móti Nóakroppi svona ef mér er boðið. Allt hitt fæ ég bara þegar ég kem heim. Það hjálpar líka að viðhalda harðfisknum (fyrir utan að vera gvuðaveigar) að Lúkas hámar hann í sig og ég vil endilega viðhalda því. Skyr var svo alltaf smávegis hjartasorg. Það er einhvernvegin vesen að vera að burðast með það á milli landa, og eitthvað sem ég nenni ekki að gera. Sérstaklega núna þegar keppikeflið er að fljúga með sem minnstan farangur.
Hér í Bretlandi er alltaf heill gangur tileinkaður jógurtafurðum í öllum stórmörkuðum. Heilu kílómetrarnir í röðum af allskonar gúmmelaði; hreint og bragðbætt, sykrað og ósykrað, með allskonar ávöxtum eða granóla og kexi, heilsusamlegt eða jafn djúsí og góður eftirréttur. Og þar með talin grísk jógurt sem síðustu ár hefur aldeilis byrjað að njóta vinsælda meðal þeirra sem hugsa um heilsuna. Full af próteini og fitusnauð en samt þykk og rjómakennd. Ég fór fljótt að hugsa með mér að ég þyrfti að koma fólki upp á séríslenskt skyr. Skildi eiginlega ekki afhverju það hafði ekki gerst fyrr. Enn betra og hollara en grísk jógúrt! Þegar ég svo fattaði að það er í raun einfalt mál að búa sér skyr til heima sá ég í hendi mér að hér væri tækifærið mitt. Byrja á heimayrkju, koma í umferð, og koma svo með sér íslensk-velska blöndu; íslenskt skyr úr velskri sauðamjólk!
Innan við viku eftir að ég hóf tilraunir heima kom í ljós að auðvitað var einvher búinn að hugsa þetta fyrir, og nú er hægt að kaupa hér skyr eftir íslenskri uppskrift í öllum betri stórmörkuðum. Hreint, jarðaberja og með hunangi. (Sem er bara rangt!) Og auglýsingin fylgir með. Tvisvar til þrisvar á kvöldin við sjónvarpsgláp æpi ég upp yfir mig "Eyrarbakki!" Og "hvaða fjall er þetta eiginlega? Það er ekkert fjall á Eyrarbakka?" Og um mig hríslast unaðsþjóðrembingur. VIð erum svo spes og æðisleg.
Skyrið er fínt. Það er ekki alíslenskt, framleitt í Þýskalandi, hugsað upp í Danmörku og markaðsett hér. Skyrið mitt er kannski ekki mikið íslenskara, framleitt í Wales með enskri undanrennu. Og það er ekki ódýrara að búa það til sjálf, amk ekki á meðan ARLA skyrið er á tilboði í ASDA. En það er svo skemmtilegt að búa það til sjálf. Standa yfir pottinum og fylgjast með hitastiginu. Hvað það er rosalega góð lykt sem stendur af skyrinu þegar það er búið að hleypa. Hvað það glansar fallega og að sjá svo breytinguna þegar mysan hefur síast frá. Það er bara eitthvað óviðjafnanlegt við allt sem maður leggur vinnu og ástúð í. Alveg sama hvað það er. Meira segja þó maður endi ekki sem útrásarvíkingur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli