miðvikudagur, 13. maí 2015

Af áralöngum misskilningi

Ég er búin að úthugsa þetta allt saman og hef einungis komist að einni niðurstöðu. Allt sem við teljum að sé rétt, satt og óhrekjanlegur sannleikur hvað fitutap varðar stenst ekki. Hitaeiningar inn og út, þjálfun, viljastyrkur. Ekkert af þessu útskýrir hversvegna ég er feit og held áfram að vera feit. Og ekkert segir mér heldur að það sé slæmt að vera feit, nema fagurfræðin. 

Ef það væri hægt að stjórna fitu þá væri hún undir stjórn. Það er bara svo einfalt. Ég trúi því bara ekki lengur að það sé hægt að nota aga til að stjórna mataræði eða jafnvel matarhegðun. Ég trúi að það sé hægt að nota innsæji og skilning og virðingu við sjálfan sig. Ef maður finnur fyrir gífurlegri löngun í eitthvað þá er það vegna þess að það vantar eitthvað. Ef maður er að ströggla við að berjast gegn því sem maður skilgreinir sem lélegt val á mat, er betra að reyna að sleppa því að refsa sjálfum manni og reyna frekar að skilja hvað er í gangi. Ég hef notað aga og viljastyrk til að neyða sjálfa mig til að borða og haga mér á hátt sem er skilgreindur sem heilsusamlegur og það hefur hreinlega ekki hjálpað til að gera mig heilsusamlegri. Á margan hátt hefur það frekar gert mig veikari; hefur skaðað enn frekar samband mitt við mat, skaðað traustið sem ég á að bera til sjálfrar mín og að auki hefur það ekki skilað sérlegum varanlegum árangri til að verða mjó.

Það er hinsvegar hægt að ná árangri í að laga óheilbrigt samband við mat og það er hægt að verða heilsusamlegri og það allt án þess að léttast um eitt einasta kíló. 

Hræsnin í samfélaginu er augljós þegar skaðleg áhrif þess að fara í megrunarkúr eru skoðuð. Ef heilsan væri málið þá væri áherslan önnur. En samt er því er haldið fram að það eitt að vera grönn sé nóg. Að hvað aðferð sem er notuð til að verða grönn sé í lagi. Skera út heila næringarflokka, taka inn pillur sem valda hjartaflökti eða pillur sem valda saurleka! Og allt er þetta dæmt sem virðingarverðar leiðir til að verða "heilsusamlegur"! Endalausir jó-jó megrunarkúrar skilja ekkert eftir nema litla orku, lélega næringu og þeir algerlega rugla brennslukerfinu og hormónastarfsemi líkamans. Þegar fókusinn er á að refsa sjálfum sér, halda frá manni næringu, hatast við sjálfan sig fyrir að vera ekki nógu sterkur, er engin leið að ná fram heilsu. 

Um leið og við erum að sjá mannfólkið fitna sem heild erum við á sama tíma að horfa á næringarskort. Hvernig passar það? Erum við ekki að borða of mikið? Hversvegna erum við ekki að fá næringarefni? Kannski að það hafi með að gera að megrunarmarkaðurinn er búinn að fokka þessu öllu upp. Tökum sem dæmi D-vítamín bætta mjólk. Til að líkaminn geti upptekið D-vítamín þarf hann fitu. Mjólkin er engu síður auglýst sem fitusnauð. Hvernig á líkaminn þá að vinna úr viðbættu D-vítamíninu? Þetta er allt saman bara rugl.

Ég hef að undanförnu heyrt mikið talað um fólk sem er "skinny fat" Það er að segja að það er grannt á að líta en er með offitu að innan. Líffærin eru þakin innri fitu sem er mjög óheilsusamleg. Þegar ég hugsa um þetta þá sýnist mér að skilgreining á offitu sé orðin meiningarlaus ef grannt fólk getur líka verið offitusjúklingar. Ef grannt fólk fær innri offitu og sykursýki og feitt fólk er fílhraust með lágt kólesteról og fínan blóðþrýsting nú þá hlýtur það að vera merkingarlaust að vera of feitur.

Nema auðvitað hvað útlitið varðar. 

Mismunandi fólk bregst við mataræði og þjálfunarprógrammi á mismunandi hátt. Ég get skapað 3500 hitaeiningaþurrð yfir vikuna en ekki lést um 500 grömmin sem stærðfræðin segir að ég eigi að léttast um. Við stynjum upp yfir okkur að þessi og hinn geti borðað eins og hestur en aldrei fitnað en sumir geti ekki hugsað um mat án þess að bæta á sig fitu og samt höldum við að sama prógrammið gilldi fyrir alla? Hvaða rugl er það eiginlega? Borða minna og hreyfa sig meira... Þetta bara virkar ekki. Ef poki af kartöfluflögum hefði nákvæmlega sömu áhrifin á alla þá væru kartöfluflögur einfaldlega ólöglegar. 

Frá fyrstu stund sem maður byrjar að hreyfa sig byrjar líkaminn að vinna betur úr öllum næringarefnum og sér í lagi sykrum. Hreyfing er góð, ekki vegna þess að maður gæti kannski grennst. Hreyfing er góð vegna þess að allt kerfið helst við betur og lengur fram eftir ef maður hreyfir sig, þó maður léttist aldrei um eitt einasta kíló. En samt sjáum við ekkert sem árangur nema ef kíló og sentimetrar fjúki. Sannleikurinn er að frá fyrsta skrefi er árangri náð. 

Ef líkaminn vildi ekki vera feitur myndi hann ekki berjast gegn því að fitna? Ef líkamlega það er betra að vera grannur af hverju höfum við þróast til að vera með fituforða? Maður grennist þegar maður borðar ekki nóg. Og hvernig í ósköpunum er hægt að segja að það sé gott að borða ekki nóg? Náttúrulega granna fólkið dó allt út. Við erum afkomendur þeirra sem best söfnuðu fitu á líkamann til að lifa af hungurtímabil, við erum genatískt prógrömmuð til að fitna. 

Hjarta, heili og lifur eru líffærin sem brenna mestum hitaeiningum. Ef maður takmarkar þær byrjar maður einfaldlega að ganga á hæfni líffæranna til að starfa af fullum krafti. Það má vera að til að byrja með noti maður upp einhvern fituforða en að lokum byrja þess líffæri einfaldlega að starfa verr. Kaldhæðnin er svo að allir þessir "detox" kúrar sem fólk fer á. En með því að hefta orkuna sem lifrin fær byrjar að draga úr hæfni hennar til að vinna úr einmitt þessum eiturefnum sem tilgangurinn var að ná úr líkamanum! 

Það eina sem þarf að breytast er viðhorf okkar til feitra. Ef við erum jafnheilsusamleg og grannt fólk nú þá er engin ástæða til að krefjast þess að við grennumst nema af fagurfræðilegum ástæðum. Ekki krefst ég þess að rauðhærðir raki af sér hárið. Það velur það enginn að vera feitur, það eru mýmargar ástæður fyrir því að vera það. Nei, þetta er allt saman bara rugl og vitleysa og hver tilraun til að verða grennri gerir ekkert nema að vinna gegn því markmiði. Hættum þessu bara og byrjum frekar að fagna margbreytileika mannfólksins. 

Engin ummæli: