miðvikudagur, 16. október 2013

Maður lifir víst ekki á brauði einu saman og það er víst heldur ekki hægt að gefa bara kökur. Brauðlaust er nesti alltaf smávegis umhugsunarefni, sér í lagi þegar manni bara langar ekki í salat. Ég hef því að undanförnu verið að gera tilraunir með blómkálstortillakökur sem er auðvelt að hantera með í vinnuna.

Eftir að lesa milljón mismunandi útgáfur er ég komin á það að það er engin ein uppskrift sem er best en það er hinsvegar eitt sem er algerlega nauðsynlegt að gera. Það er að vinda vatnið úr blómkálinu. Ég sker það niður og gufusýð svo í örbylgjunni. Mauka svo niður og legg í múslín klút. Svo vindur maður og vindur allt vatn úr. Þegar maður getur bara ekki undið meira þá bætir maður út í eggi eða tveimur, osti og eða kryddi að lyst, fletur út í litlar tortilla kökur og bakar svo þartil gullið. Svo er hægt að geyma í ísskáp í nokkra daga. Það er reyndar líka voðalega gott að smella á pönnu og rista aðeins, þannig kemur enn betra bragð. Svo er bara að nota hugmyndaflugið, túnfisksalat eða skinka og ostur, lifrakæfa eða grænmeti og sósa eða bara ostur og tómatsósa. Rúlla upp eða brjóta saman og maður er búinn að fá grænmetisskammt án þess að taka eftir því!

Maukað kálið komið í klúinn og byrjað að leka úr því.

Svo bara vinda og kreista, vinda og kreista.

Blómkáls"deigið" og allt blómkálsvatnið. Þetta er bara hálfur haus þannig að sjá má hvað það er mikið vatn.

Tortilla! Namm!

Engin ummæli: