sunnudagur, 20. október 2013

Það sem er að bærast innra með mér akkúrat núna er eiginlega of viðkvæmt, of framandi og of nýtt til að ég geti myndað setningar og sett á blað. Allt síðan að ég ákvað að ég væri ekki gölluð, ég væri bara feit, hefur ný og ókunnug stemning verið innra með mér. Ég er sátt. Mér líður vel. Ég þarf ekki að vera mjó.

Sko! Ég sagði það. Ég bara þarf ekki að vera mjó.

Eins og ég segi þá er þetta afskaplega nýtt og viðkvæmt ennþá og ég þarf að næra tilfinninguna vel og hlúa að henni. Ég gleymi mér enn oft á dag og ætla að rjúka í megrun. En oftast næ ég að grafa upp tilfinningarsprotann sem segir að ég þurfi ekki að vera mjó og í hvert sinn verður tilfinningin sterkari.

Nei, ég get ekki skrifað um þetta ennþá. Allar setningar hljóma skinheilagar eða eins og að ég hafi fundið einvherja lausn og það er ekki rétt eða satt. Þetta hefur með þann aldargamla sannleik að gera að þegar maður sættist við sjálfa sig eins og maður er þá er loksins hægt að gera breytingar. Þetta hefur með það að gera að þegar keppikeflið er ekki kíló heldur heilbrigði þá er þetta hægt. Þetta hefur með það að gera að þegar ég eitra ekki fyrir sjálfri mér með sykri og hveiti þá get ég hugsað skýrt.

Mér líður rosalega vel.

Engin ummæli: