þriðjudagur, 12. nóvember 2013

Ég fann rækt um daginn. Ræktin er í Ruabon sem er þarnæsta þorp við mig og ég á þar leið um nú þegar ég hjóla heim. Þetta lá því við að það væri við hæfi að allavega kanna hvað er í boði. Ég fattaði um daginn að það eru að verða komin tvö ár síðan ég tók í járn, ár síðan að ég hljóp síðast. Þegar ég uppgötvaði þetta verð ég að segja að mér þótti ég bara nokkuð góð að hafa náð að halda mér rokkandi svona undir hundraðinu, ég hlýt að hafa náð að breyta mataræðinu að heilmiklu leyti svona fyrst ég er enn ekki orðin tonn.

Hvað um það ég stoppaði við á leiðinni heim úr vinnu í dag, albúin með prógrammið mitt gamla úr "Lift like a man, look like a goddess" bókinni minni. Ég held að ég geti með sanni sagt að ekkert þyki mér skemmtilegra en að lyfta þungt. Ég er búin að prófa allskonar hreyfingu en járnið er alltaf skemmtilegast. Og hentar mér vel. Mér finnst bæði töff og kúl að vera ógeðslega sterk.

Ræktin er algerlega heimagerð, þetta er svona nánast eins og að lyfta bara í skúrnum heima hjá nágrannanum. Engin meðlimagjöld, maður bara borgar tvö pund í hvert sinn sem maður kemur. Fær pin númer sem maður getur notað til að komast inn og út þegar manni sýnist sjálfum, hvort sem er opið eða ekki og maður á þá bara að skilja pundin eftir á afgreiðsluborðinu. Það bætir aldeilis trúna á mannkynið þegar maður veit að enn finnst svona traust og velvild.

Ég rölti um og sá að hér ætti ég heima. Allt svæðið undirtekið af lóðum og stöngum og ekkert fínerí. Ekkert vesen eða pjatt. Ég hitaði upp í smástund og setti svo stöng á bakið til að taka hnébeygjur. Ég gat bara helminginn af því sem ég gat síðast þegar ég lyfti, en andskotakornið það er líka helmingi meira en ég gerði í gær.

Þegar ég var hálfnuð eða svo með settið byrjuðu fastakúnnarnir að tínast inn. Hver strákurinn á fætur öðrum, allir enn í rafvirkja eða smiðsvinnugallanum í vinnuskóm með stáltær. Ekki nokkur ástæða til að skipta yfir í íþróttaföt, ekki þegar maður er kominn til að hnykla upphandleggsvöðvana og taka nokkur pump í bekkpressunni! Allir með yfirbyggingu á handleggjum en örmjóa fótleggi. Karlmenn. Þeir eru svo fyndnir.

Ég flissaði bara svona með sjálfri mér á meðan að ég kláraði æfinguna mína, teygði vel á (sem uppskar nokkrar augngotur, enda örugglega eitthvað sem aldrei hefur sést þarna áður) og hjólaði svo heim, kófsveitt og hamingjusöm.

I´m baaack!

2 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Geggjað!!

Fátt skemmtilegra en að lyfta! Varð ekki lítið glöð þegar ég fann loksins rækt hér í Japan sem ég get mætt kl. 5.30 í ! :)

Erla sagði...

járn er skemmtilegast, erla