miðvikudagur, 13. nóvember 2013

Velmegun á sér ýmsar myndir. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að ég væri velmegandi neitt sérstaklega fyrr en um daginn. Á mínu heimili lýsir velmegunin sér í ruslapokunum. Þegar ég var hagsýn húsmóðir sem þurfti að velta hverju penníi á milli fingra keypti ég rúllu af Co-Op eigin tegund (own brand) "smart price" ruslapokum. Á rúllunni voru tuttugu 40 lítra pokar. Fyrir rúlluna borga ég rétt undir tveimur pundum. Þeir eru þunnir og lélegir og hanga asnalega í ruslatunnunni minni sem er Brabantia tunna og einir 50 lítrar.

Fyrir nokkru síðan fór ég inn í búsáhaldaverlsun og sá þar til sölu rúllu með tíu 50 lítra Brabantia ruslapokum á tvö pund og fimmtíu. Ég man að ég hugsaði með mér að þetta væri nú bruðl en það væri gaman að nota poka sem væru sér hannaðir fyrir tunnuna og ákvað að splæsa. Nú verða íslenskir lesendur að gera sér grein fyrir að í Bretlandi er ekki sama sýstem og heima þar sem öll heimili eru með litla ruslatunnu í skáp undir vaskinum. Hér erum við öll með stórar tunnur með loki á miðju eldhúsgólfi og þessvegna mikilvægt að vera með góða tunnu og poka sem virka.Þegar um það bil tveir pokar voru eftir á rúllunni segir Dave við mig að við þurfum að gera okkur ferð í búsáhaldaverslunina til að ná í fleiri Brabantia ruslapoka. "Veistu cariad" segir hann við mig "síðan að við byrjuðum að nota þessa poka hefur það hreinlega verið gaman að fara út með ruslið. Það þarf ekki að nota tvöfalt lag, þeir rifna ekki, þeir halda helmingi meira af drasli, þeir eru með tilbúnum hanka til að halda á þeim, þetta er bara allt annað líf!" Og ég gerði mér grein fyrir því að allan þennan tíma hef ég verið að nota falskan sparnað. Með því að kaupa ódýru pokana þurfti ég einfaldlega að kaupa helmingi fleiri. Fyrir utan pirringinn sem fólst í að setja tvo poka í einu, reyna að láta þá passa og það til þess eins að reyna svo að hlaupa með þá út í tunnu áður en þeir rifnuðu og bananahýði og kaffikorgur hryndu út um allt eldhúsgólf.

Já, velmegunin er í rusli.

Engin ummæli: