sunnudagur, 17. nóvember 2013

Þarna um daginn þegar að ég fattaði að ég er ekki gölluð, ég er bara feit, fóru hlutirnir að smella saman fyrir mig. Ég er bara feit. Það er í raun hálf kómískt að hugsa til þess að í öll þessi ár hafi ég séð þetta sem persónuleikabrest eða eitthvað sem ég þurfti að "takast á við". En síðan þá hafa forsendurnar breyst. Ég er hætt að reyna að laga sjálfa mig, það er nefnilega ekkert að mér til að laga. Ég er hvorki verri né betri manneskja en hver meðaljón. Það er ekki að segja að ég sé hætt að reyna að grennast, það er bara á allt öðrum og þægilegri forsendum sem ég er að rembast við það. Þó svo að ég sé genatískt forrituð til að fitna, sitja á sófanum og nýta sem minnstu orkuna til brennslu þýðir það heldur ekki að ég geti ekki unnið að því að vera heilsuhraustari. Og það er líka ekkert að því að langa til að geta keypt föt hvar sem er.

Ég hef líka gefið sjálfri mér leyfi til að brjóta allar reglur og mér hefur bara sjaldan liðið betur eða verið sáttari við stússið. Ég fylgi enn að mestu leyti lágkolvetnalífstíl en hef aðlagað að mínum eigin líkama. Þannig þoli ég vel að borða kartöflur, haframjöl í nokkru magni, nokkuð af hrísgrjónum og quinoa. Hveiti og sykur leggst frekar illa í mig og ég reyni að sleppa. Sama gildir um flesta ávexti og ávaxtasafi er algert nó nó. Það sem best hefur hentað mér núna er það sem á engilsaxnesku er kallað intermittent fasting. Það er að segja ég gef líkamanum bara hvíld frá mat í nokkra klukkutíma á sólarhring. Ég hætti að borða klukkan átta á kvöldin og byrja aftur eftir klukkan tólf á hádegi. Innan þessa ramma fæ ég mér það sem mig langar í að mestu leyti en reyni að hafa það frekar skynsamlegt. Ég bæti líka ekki upp föstuna, þaes ég fæ mér bara venjulegan hádegismat, er ekki að bæta við því sem ég að öllu jöfnu hefði borðað í morgunmat. Þetta virðist henta mér afskaplega vel. Ég er orðin svöng rétt um eittleytið og nýt hádegismatarins mikið og svo er ég bara sátt það sem eftir lifir dags. Ég er hætt að stika um á kvöldin í örvæntingafullri leit að "einhverju", fæ mér bara góðan kvöldmat og jafnvel eftirrétt og svo er ég bara hætt.

Það fá eflaust margir sem lifa og hrærast í heilsusamlegum lífstíl hland fyrir hjartað við að lesa að ég borði ekki morgunmat, að ég borði bara tvær stórar máltíðir á dag í stað sex smærri, að ég borði kolvetni, að ég leyfi mér að verða svöng, að ég fasti... Þetta eru allt skýr viljabrot á "reglunum". En málið er að reglurnar breytast svo ört núna að ég bara get ekki lengur fylgst með. Það bara er ekki hægt að fylgja þeim öllum því að lokum fattar maður að helmingurinn af þeim stangast á við hvora aðra og afgangurinn hentar ekki. Hversu oft hef ég ekki "gert allt rétt" samkvæmt reglunum en samt fitnað? Fyrir utan að um leið og ég er búin að lesa mér til um eina kenninguna (með tilheyrandi vísindalegum staðreyndum, sönnunum og tilraunum) þá afsannar næsti vísindamaður sannindin og maður situr eftir ægilega hallærislegur enn að reyna að klára restina af lífrænu hnetusmjörskrukkunni (eða agave flösku eða chia fræpoka eða hvað svo sem það var) sem maður keypti þegar hnetusmjör var svarið.

Nei, ég er búin að prófa þetta allt og það eina sem ég veit fyrir víst er að ég verða að trúa mínum eigin sannleik.

Engin ummæli: