laugardagur, 23. nóvember 2013

Það hefur alltaf verið kappsmál hjá mér að vera fín. Alveg sama hvernig ég hef verið í laginu og hversu erfitt það hefur verið að finna föt þá hef ég engu að síður lagt mikið í að vera fín. Það var oft erfitt og oftast þurfti ég að vera í einhverju sem bara passaði frekar en því sem mig í alvörunni langaði til að vera í. Þetta hefur leitt núna til þess að ég er hálf stíllaus, veit hvað ég vil en kann ekki að kaupa hlutina sem þarf til. Og enda alltaf á að kaupa allskonar drasl sem svo passar ekki saman og skapar engan heildstæðan stíl.

Ég ákvað því um daginn að takast á við þetta á sama hátt og ég tókst á við spikið; skipulega og með áætlun til að fylgja. Það bara verður að vera með plan.

Ég setti saman "mood board", liti, efni, tilfinningar, sem helst lýsa mér og hvernig ég vil að fólk sjái mig. Ég tók tillit til starfsins míns og þess að þar þarf ég að fylgja ákveðnum reglum. Ég vil líka að fólk í vinnunni taki eftir mér fyrir stíl því ég trúi þvi að fötin skapi manninn að vissu leyti og að ég eigi auðveldara með að komast upp metorðastigann ef ég klæði mig rétt.

Grátt, svart, kamel, bleikt, ull, silki, leður og gull er það sem helst kemur upp á mood borðinu mínu og ég fór þessvegna skipulega í gegnum skápinn minn og setti frá allt sem er teygt, togað, götótt eða of stórt eða of lítið. Svo raðaði ég öllu upp þannig að litir og efni eru augljós. Ég hef engan áhuga á að rembast við að komast í eitthvað í framtíðinni og tók í burtu allt sem ekki passar á mig núna. Ég er ánægð með mig eins og ég er og ætla að klæða mig þannig að best passi á mig og fari mér vel eins og ég er núna.

Svo tók ég til það sem eru lykilflíkur í skápnum. Ég á ekki mikið af fötum og hef mikinn áhuga á að láta það sem ég á duga með smá tilfæringum. Svartar buxur í vinnunna og tveir fallegir jakkar, einn svartur, hinn grár. Falleg hvít skyrta sem er aðeins meira kúl en bara venjuleg hvít skyrta. Nokkrir kjólar, sem geta staðið sjálfir eða verið undir jakka. Gallabuxur, leðurbuxur, leðurjakki og flott svört kápa. Þykk grá prjónapeysa og röndóttur bolur. Hnéhá stígvél, hælar, támjóir lágir skór, stutt stígvél og kúrekastígvél.

Ég fattaði svo að með litlum aukahlutum eins og fallegu úri eða armbandi, áberandi eyrnalokkum eða flottum trefli má gera hvað búning sem er flottan.

Það er líka bráðsniðugt að skoða tískublogg, og ég er eiginlega alveg dottin úr því að lesa lífstílsblogg, skoða frekar myndablogg. Eins og þetta. Hún er flott fyrir helgarfötin, meira svona casúal.  Þessi er uppáhaldið mitt. Hún er í Hollandi sem er strax plús og allt er í mínum litum og efnum. Ég er líka svo hrifin af hárinu á henni, rosaleg náttúrulegt en samt flott. Ég komst að því að ég get lagað mitt hár mjög svipað með því að þvo það ekki í tvo til þrjá daga. Á þriðja degi er ég fín.  Þessi er fín og mjög aðgengileg. Og þessi er svo kannski svona meira Carrie Bradshaw en flottar hugmyndir. Ég skoðaði og setti hjá mér þau átfitt sem mér fundust flott og setti svo saman úr fataskápnum mínum. Ég skrifaði líka niður lista af samsetningum sem ég skoða og finn til saman galla á kvöldin, tilbúinn fyrir daginn eftir. Virkar kannski dálítið OCD en þegar maður fer út klukkan sex á morgnana er best að vera búin að redda þessu fyrirfram.

Ég er búin að vera svona skipulögð í tvær vikur núna og mér finnst þetta vera algjör snilld. Ég fæ hrós á hverjum degi í vinnunni fyrir útlitið og ég er viss um að það er bara vegna þess að ég skín af sjálfstrausti og fólk tekur eftir því.  Ég er rosalega sátt við fataúrvalið mitt, og finnst eins og ég eigi bara nóg af fötum. Ég veit líka hvað það er sem vantar til að fullkomna og mér finnst því eins og ég hætti núna að kaupa bara eitthvað sem svo passar ekki við yfirallt stílinn minn. Sen stendur vantar mig bara köflóttan trefil, Michael Kors gullúr, Ray-Ban sólgleraugu og gulleyrnalokka. Allt og sumt. (Og hirðljósmyndara til að taka af mér almennilegar myndir - hér td sést ekki hvað ég er með fína hárgreiðslu!)

Laugardagur í Wrexham; hnéháleðurstígvél, þröngar svartar buxur, stór bleik peysa, svört kápa og bleikur trefill, gullúr og Chanel varalitur. 

2 ummæli:

Hanna sagði...

Du er simpelthen vidunderlig smuk ♥

murta sagði...

Tak skal du ha og sá videre! :) Smuss