þriðjudagur, 10. ágúst 2010

Ég man ekki annað en að ég hafi alltaf borðað í laumi. Þ.e.a.s ég faldi það sem ég borðaði, laug til um það, kom sönnunargögnum fyrir kattarnef (nema auðvitað spikinu utan á mér- það sjá allir) plottaði og planaði næsta skammt sem ég gæti borðað ein og án þess að neinn sæji til mín. Þetta faldi í sér t.d. að setja "næs kvöld" nammið í skál en borða upp úr skálinni á leiðinn upp stigann til að fá sem mest. Fara út í sjoppu og borða helminginn á leiðinni heim til að láta sem svo að keypt hafði verið helmingi minna. Fara í tvær til þrjár sjoppur í sömu sjoppuferðinni svo sjoppukellingin sæji ekki magnið. Plotta út hvenær maður er einn heima til að geta borðað í friði. Fela umbúðir vandlega. Borða hratt inni í eldúsi á meðan maður eldar og borða svo kvöldmat líka. Finna tilfinninguna sem er jafnhendis alsæla og alger hryllingur. Ég er ekki með á hreinu afhverju þetta byrjaði, ég man bara ekki eftir mér öðruvísi en hugsandi um næsta skammt og um leiðir til að aðrir föttuðu ekki hvað ég borðaði mikið. Eitthvað sagði mér bara að þetta væri ekki eðlileg hegðun. Hvað mig langaði svakalega mikið í "eitthvað gott". Í mínum huga er hreint samasem merki á milli laumuáts og geðveikinnar minnar. Ef ég núna borða í laumi eða lýg eða plotta þá er ég óbreytt og get bara aftur orðið 130 kíló. Búið spil. Það er skýrt að daginn sem ég kom heim úr C0-Op og sagði Dave frá því að ég keypti í alvörunni alltaf þrjú snickers, eitt handa mér á leiðinni heim, eitt handa mér og eitt handa honum, var dagurinn sem ég breytti hegðun minni til betri vegar. Það var hræðilegt að viðurkenna þetta en frelsandi á sama máta. Það er svo mikilvægt fyrir mig að vera gegnsæ og þessvegna verð ég líka að viðurkenna það þegar ég borða of mikið. Ég fann að mamma og pabbi voru farin að horfa á mig með áhyggjusvip í fríinu en það er svo mikilvægt að það sé allt til sýnis, warts and all. Ef ég ætla að borða rugl þá verður það að vera uppi á borði, fyrir framan alþjóð og ég verð að standa með ákvörðun minni að borða ruglið. Um leið og ég byrja að ljúga er þetta búið spil. Mig langar alltaf til að fá að vera í friði með nammið mitt og ég hugsa að það breytist aldrei, svona eins og mig langar alltaf smávegis í sígó. En baráttan er þess virði. Þetta er allt á batavegi.

3 ummæli:

Harpa sagði...

Svakalega fínn kafli í bókina???

Nafnlaus sagði...

Sammála síðasta ræðumanni. Snilld. Knús í hús.
Ólína

Hanna sagði...

vá ég fæ bara gæsahúð og tár í augun.
knús
Hanna