miðvikudagur, 11. ágúst 2010
Enn spila ævintýri í grænu út með trompi. Lárperur, eða avocado, er eitthvað sem ég hef keypt nokkrum sinnum en alltaf látið malla í ávaxtaskálinni þangað til það var orðið seif að henda þeim bara. Mig óaði eitthvað við áferðinni, litnum og framandleikanum. Af einhverjum ástæðum ákvað ég að nú væri komið að því að prófa sem þátt í grænum ævintýrum enda margsannað að þrátt fyrir að vera nokkuð hitaeiningaríkt er það meinhollt. Það er nánast 20 sinnum meiri fita í lárperum en í öðrum ávöxtum en þetta er að sjálfsögðu meinholl fita sem hjálpar við að halda frá hungri og hjálpar til við brennslu. Að öðru leyti má nefna að lárperur hjálpa til við andremmu, lækka blóðþrýsting og kólesteról og geta hjálpað til við að róa magasár ásamt ýmsu öðru svona fíneríi. Ég fann svaka fína uppskrift að einföldu kjúklingasalati með lárperu bitum. En þegar ég skar það í tvennt kom í ljós að það var orðið vel þroskað og mér fannst það vera of mjúkt til að hafa í bitum í salati. Ég smakkaði og mér fannst meira til um áferðina en bragðið. Þetta færi ekki í salat hjá mér, ég þarf að hafa salat "crunchy". Hvað var þá að gera við gripinn? Annarshugar skrapaði ég kjötið úr berkinum og setti í skál. Ýtti svo í það með gaffli, ýtti því til og sneri aðeins. Klóraði mér í hausnum og velti þessu fyrir mér. Og skyndilega var í skálinni grænt mauk. Og þá kom það. Út í maukið fór ein túnfiskdós, hakkaður laukur og smá chili pipar ásamt pipar og smokey paprika. Þetta maukaði ég svo alveg með magimixer. Harðsoðið egg og skeið af chilisultu. Besta túnfisksalat sem ég hef nokkurn tíman smakkað. Og alveg laust við majónes en alveg jafn djúsí. Sletta á þýska brauðið mitt og hamingjan er alger. Ég vissi að lárperur væru notaðar sem uppistaða í svona ífdýfum, þær eru jú aðalmálið í guacamole, en að það væri hægt að skipta út majónesunni, það vissi ég ekki. Alltaf lærir maður eitthvað nýtt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli