laugardagur, 14. ágúst 2010

Lífstíllinn þróast og breytist eftir því sem tíminn líður. Þegar ég fyrst byrjaði að spekúlera í þessu lét ég mér nægja að telja kalóríur. 15-1800 á dag og skipti litlu máli hvernig þær voru samsettar. Allt sem var "low-calorie" var gott því þá fékk ég meira magn fyrir minni kalóríur. Svo fór ég að spá aðeins í samsetningu kalóríanna og þá fór allt "diet" og "light" drasl í ruslið því þegar maður fer að skoða t.d. sykurmagn í afurðum sem eru fitusnauðar og aukaefnin í fitulausu og þar frameftir götunum fyllist maður hálfgerðum viðbjóði. Ég fór því að velta meira fyrir mér næringarinnihaldi frekar en hitaeiningum. Hvað fæ ég mikla næringu og hversu lengi heldur maturinn mér ósvangri frekar en hvað má ég borða mikið af honum. Þar kom hafragrauturinn minn yndisgóði inn í spilið. Svo kom samsetning næringarefna, hversu mikið á maður að fá af próteini, kolvetnum og fitu? Hitaeiningar, kom í ljós, eru nefnilega ekki skapaðar jafnar. Svo varð mikilvægt að afurðirnar væru lífrænar og óunnar sem mest og því grófara því betra. Í dag smakkaði ég svo loksins hinn heilaga graleik. Ég er búin að vera að lesa mikið um brauð búið til úr spíruðu korni en fann hvergi hér í kringum mig. Og ef satt skal segja þá hafði ég ekki áhuga á að spíra korn sjálf. Þangað til í gær þá sá ég að það leyndist einn hleifur falinn í Holland og Barrett. Spírað brauð er búið til úr spíruðu korni eða sojabaunum og er ekki bakað úr hefðbundnu hveiti. Sjálf kaupi ég ekki hypið í kringum að brauðið sé gert samkvæmt uppskrift úr biflíunni, Ezekíel 4:9. Eftir því sem ég kemst næst þá inniheldur sú uppskrift mannaskít sem mér þykir óskemmtilegur í brauð hvort sem það er lífrænn kúkur eður ei. Það þarf ekkert að selja mér þá hugmynd að eitthvað sé hollt bara vegna þess að það er 2000 ára gamalt. Ég kaupi bara inn í hugmyndina að ég fái meiri trefjar, meira prótein, meiri vítamín, auðmeltari mat. Brauðið sem ég keypti hefur mjög suttan innihaldslista: Sprouted wheat. Það er allt og sumt, ekkert hveiti, enginn sykur, ekkert ger, engin olía, engin egg, ekkert. Bara spírað korn. Með mun hærra hlutfall af trefjum og próteini ásamt vítamínum er enginn vafi að það er betra að fá sér sneið af því en aumingjabrauði. Það er auðmeltara og heldur blóðsykri jöfnum. What´s not to love? Ég var því líka dauðfegin þegar í ljós kom að það er líka ljúffengt. Ég fékk mér í morgunmat eina sneið með osti og eina sneið með hnetusmjöri og St.Dalfour sultu. Massíft og dálítið rakt og nánast sætt á bragðið, sneiðin með ostinum var góð en þegar bætt var við grófu hnetusmjöri og sultu var ég að borða manna. (Af himnum, ekki hinsegin) Nú hlakka ég bara til að prófa með húmmús á morgun.

Engin ummæli: