miðvikudagur, 4. ágúst 2010

Þetta var besta sumarfrí til Íslands frá upphafi sumarfría. Dagsferð til Eyja með stórfjölskyldunni, pjattrófuferð í Borg Óttans, frænkuhittingur, útilega, Gullfoss og Geysir, kokteilboð, vinir, fjölskyldan og frábært veður. Og það þrátt fyrir að ég hafi algerlega sleppt af mér beislinu og gert það sem ég hafði ekki í hyggju að gera og nagaði mig í gegnum Suðurlandið. En það hefur bara eitthvað breyst í heilanum á mér sem þýðir að ég get ruglast svona í smátíma án þess að verða geðveik. Sem bara einhvern vegin þýðir að ég hef alltaf tök á að hella mér aftur í hreyfingu og hollustu fyrr en síðar. Ég þyngist kannski um um einhver x kíló en ég missi aldrei sjónar á sjálfri mér og því sem ég vil ekki kalla lokatakmarkinu vegna þess að þessu lýkur aldrei, en frekar svona lífsástæðunni minni. Það er stundum hægt að snúa sér við og fara í hina áttina og svo langt að maður sér ekki leiðina tilbaka. En ég virðist vera búin að koma mér upp einhverju innbyggðu hollustu GPS kerfi sem kemur mér á réttu brautina aftur. Allt þetta þýðir að ég skemmti mér konunglega og komst aftur hingað heim án þess að synda um í sykur-og hatursþokunni minni. Ég sakna Íslands og það er ekki hægt að neita því að mig langar aðeins meira að eiga heima þar en hér, en mér líður líka rosalega vel hér og á erfitt með að slíta mig upp. Og ég er ekki viss um að ég sé nógu sterk til að búa á landi sem selur ís með dýfu og Nóakroppi. Mamma mía! Ég ætla ekki að nota söknuðinn til að afsaka meira át, ég er enn í sumarfríi og kemst kannski ekki hundrað prósent inn í rútínuna mína, (enda með nýja rútínu í farvatninu) en það er heldur engin afsökun fyrir einhverju endalausu rugli. Við erum með ýmisleg planað fyrir þessa viku; Chester Zoo, Toystory 3, Fjallganga og Sund. Og ég þarf að komast í matvöruverslun. Það er ekki sjéns að reyna að vera heilbrigður ef það er ekkert í ísskápnum. Það er bara ávísun á Fish and Chips.

1 ummæli:

Harpa sagði...

Það var gaman að hitta ykkur mæðgin. Sjáumst vonandi sem fyrst!