þriðjudagur, 22. febrúar 2011

Quinoa-bollur
Með í huga þann gullna vísidóm sem ég núna lifi eftir, kom ég heim úr vinnu í gærkveldi úrvinda á sál og líkama og endurreisti andann og holdið með smá eldhússtússi. Kvöldmaturinn var reyndar bara bixí úr sunnudagssteikinni en það sem fékk hjartað til að slá hraðar var það sem átti að vera hádegismaturinn minn í dag. Quinoa-bollur. Uppskriftina að bollunum hafði ég séð á Tastespotting.com (matarklám!) og aðlagaði að mínum aðstæðum. Jeremías það sem þetta var gott. Hálfur bolli quinoa soðið í einum bolla af grænmetissoði, og látið kólna. Sveppir, rauðlaukur og rauð paprika hakkað niður og steikt á pönnu með salt og pipar, oregano og rósmarín. Vænni gommu af spínati skellt á pönnuna. Mikið sem spínat minnkar við steikingu. En hvað um það. 2 matskeiðar af furuhnetum (eða bara hvað hetum sem er, ég notaði hakkaðar hesli og valhnetur) sett út í og hrært saman. Svo skellir maður kældu quinoanu út í og einu eggi og hrærir í mauk. Myndar svo litlar bollur, penslar með eggi og bakar svo í ofni við 200 gráður þangað til þær eru gullnar. Ef ekki er hugi til að smyrja plötuna með olíu þá þarf að eiga sílikonflöt eða smjérpappír því þessar elskur festa sig við ofnplötuna. Ég fékk út úr þessu einar 12 bollur sem mér reiknast til að séu 2 hádegismatar, sér í lagi þegar þær eru lagðar ofan á próteingjafann, (lax í mínu tilfelli í dag) sem hvílir á hverju öðru en spínatbeði. Þetta var, þó ég segi sjálf frá, alveg hrikalega gott.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert hreinasti snillingur í matargerð og textasmíð! ALLTAF gaman að lesa bloggið þitt.
kveðja
Alda ókunna