laugardagur, 5. febrúar 2011


Getur þessi klipping falið 130 kíló?
Skór og veski eru bestu vinir feitu konunnar. Eða svo fannst mér allavega alltaf vera. Það mátti vera sem svo að ég fyndi aldrei fallega flík til að spóka mig í en skó og veski má alltaf finna í sinni stærð. Klipping fylgdi svo fast þar á eftir. En sársaukablandin þó. Ég gekk milljón sinnum í gegnum sama ferlið. Ómöguleg öll útlits en datt svo í hug að kannski ef ég færi í klippingu, ef ég fengi réttu klippinguna þá væri í lagi með mig. Fann svo mynd af einhverju sem mér fannst fínt og bað um svoleiðis. Vonin um að einhverjir töfrar myndu láta klippinguna lagfæra allt hitt var svo sterk. En undantekningalaust var þetta vonlaus æfing. Það er eitthvað við lýsinguna á hárgreiðslustofum sem gera andlitið á mér eins og tungl í fyllingu. Það er allt of mikið af speglum sem sýna allt. Sláin sem maður er settur í er svo stór að hlussur verða enn meiri hlussur. Og þrátt fyrir velvilja hárgreiðsludömunnar er það borin von að klipping breyti mér í Jennifer Aniston. Og niðurbrotin kom ég út í hvert sinn og lét ár líða á milli klippinga. Þegar sama sagan hófst upp á nýtt. 
 
Bara hár, ekkert kraftaverk.
 Núna eru rúmir 18 mánuðir síðan ég fór síðast og þá bara til að láta Helgu snikka endana. Engar æfingar í gangi. Og hárið bara fengið að vaxa í fax síðan. En svo kemur að ég bara varð að fara að láta laga endana. Og ég dreif mig í morgun. Þetta var alveg ný lífsreynsla fyrir mig. Ég var ekki með neitt spes í huga, bara að láta laga endana og klippa þannig að örsnöggur blástur á morgnana eftir rækt sé allt sem þarf til að líta sómasamlega út. Kannski að það hafi verið munurinn, ég var ekki að vonast eftir kraftaverki, mig langaði bara til að líta út eins og ég. Ég settist í stólinn og andlitið var bara eðlilegt að stærð. Sláin lagðist bara að mér og ég sá ekki fjallið sem sat þar fyrir tveimur árum síðan. Og svo klippti stelpan mig, krullaði lokkana og ég þakkaði bara fyrir mig. Ekkert drama, engin vonbrigði, bara gleði. Ég fór bara í klippingu og naut þess.

2 ummæli:

Guðrún sagði...

.......og svona líka sæt og fín eins og ég vissi.

ragganagli sagði...

MEGATÚTTA!!! Sjá þig kelling... þvílíkur munur!!