Hádegismatur á frídegi. |
föstudagur, 25. febrúar 2011
Við Dave fórum út í gærkveldi. Sem er hreinlega í frásögur færandi. Það er mjög sjaldan sem við gefum okkur tíma til að vera bara tvö saman, maður er vanalega svo gagntekin af samviskubiti yfir löngum vinnudegi sem þýðir nánast ekkert samband við barnið á virkum dögum að maður hikar við að láta hann í pössun til að vera bara tvö saman. En það er líka alveg nauðsynlegt til að rækta sambandið. Hér í Wrexham er núna mikið átak í gangi til að kynna menningu til sögunnar, og ekki veitir af, hér eru flestir afkvæmi Vicky Pollard og fótboltabullu, allt það versta í fari Breta má finna hér. Það er því ýmislegt í gangi, leikrit og tónleikar, sýningar á söfnum og svo uppistand það sem við fórum að sjá í gær. Þetta var voðalega gaman, við fengum okkur einn bjór og sátum svo og hlógum í tvo tíma. Ég álpaðist náttúrulega til að svara að ég væri Íslendingur þegar uppistandarinn spurði hvort það væru útlendingar í salnum og varð skotspónn að nokkrum heldur föstum bröndurum. En það gerði kvöldið nú bara enn skemmtilegra. Þessi eini bjór ætlar þó að verða mér dýrkeyptur, ég var 400 grömmum þyngri i morgun en ég var síðasta laugardag. Grefillinn sjálfur.
Ég er í fríi í dag og er þessvegna með vatnsbrúsann í hendinni við að reyna að losna við þessi 400 grömm. Mikið sem er gott að eiga svona dag heima. Láki er enn hjá frænda sínum i sleepover og ég er búin að hoppa aðeins, þrífa húsið, elda mér quinoa grjóngraut í morgunmat, hasselback sæta kartöflu, kjúkling og grænt salat með mangósósu í hádegismat, setja í kald hefið brauð, tala við mömmu á skype, fá mér góðan kaffibolla og sit núna á sófanum og er að horfa á Nigellu Lawson í sjónvarpinu. Ég hugsa að ég fái mér bara lúr núna. Þvílíkt lúxus líf.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli