Þegar ég náði yfir landamærin í "onederland" um daginn og ég fagnaði þeim áfanga spurði mamma hvenær 95 kílóa myndin var tekin, hún vildi fá að vita hvað það hafi tekið mig langan tíma að veltast við að taka af mér síðustu 5 kílóin. Ég skoðaði í myndaalbúmin mín og myndin var tekin 3. mars 2010. Það er sem sagt hægt að segja að það hafi tekið mig frá mars 2009 að léttast um 30 kíló og svo frá mars 2010 og fram í febrúar 2011 að léttast um 5 kíló. Og ég fagnaði þessum áfanga mínum af öllu hjarta. Og eins glöð og ég var með að hafa séð einhverjar tölur á vigtinni verð ég líka að segja að ég vil frekar hafa eytt þessu ári í að læra það sem ég kann og léttast bara um 5 kíló en að hafa lést um önnur 30 eins og fyrsta árið og vita ekki það sem ég veit núna. Sérstaklega eftir allt það sem ég er búin að vera að pæla í þessari viku. Í sama hlutfalli við það sem ég hef lært um hegðan mína, um hvernig ég bregst við aðstæðum, um hvað ég er fær um að gera gera, hefur þyngdartapið hægt á sér. Og það er líka engin spurning um að ég á enn eftir að læra svo mikið meira og ég á enn eftir að gera milljón mistök. En ég get sko sveiað mér upp á að ef ég hefði þrusað í gegnum næstu 30 án þess að læra að skilja sjálfa mig þá væru þau hvort eð er komin aftur, með vaxtavöxtum og ég væri jafn vit-og vonlaus og ég var áður. Nei, ég er sko enginn vitleysingur.
Ég er svo núna búin með sálarrannsóknarpakkann í bili. Það er bara svo mikið af naflakuski sem er hægt að grafa upp hverju sinni. Ég er svo sátt við allar mínar uppgötvanir og er í rússandi stuði til að halda ótrauð áfram. Og ætla núna að fókusa algerlega á líkamlegu hlið málsins og leyfa andanum að hvíla sig. Og set vonandi inn 90 kílóa myndina innan tíðar. Ég er bara að spá hvar ég fæ styttri kjól en þann sem ég er í á 95 kílóa myndinni. Og í framhaldi af þvi hvar kjólarnir mínir eiga eiginlega eftir að enda!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli