sunnudagur, 14. febrúar 2010

Ég borða góðan og hollan mat. Ég borða mestmegnis grænmeti, gott prótín, flókin kolvetni og holla fitu. Ég hleyp a.m.k. þrisvar í viku, lyfti fjórum sinnum í viku og labba heilmikið. Ég rannsaka og læri og kenni sjálfri mér. Ég les og skrifa og finn upplýsingar. Ég er búin að léttast um 28 kíló síðan í mars. Það er ekkert sem ég veit ekki um "lífstílsbreytingar". Engu að síður finnst mér að ég þurfi að byrja upp á nýtt öðruhvoru. Ég þarf stanslaust að hrista upp í þessu öllu saman. Stundum virkar það, og stundum ekki. Oftast skemmti ég mér konunglega, en stundum skoða ég "spreadsheetið" mitt og hugsa með mér að ég sé alltaf að skemma fyrir sjálfri mér, að í hvert sinn sem ég kemst á flug og vel gengur þá geri ég eitthvað þannig að ég þarf að byrja upp á nýtt. Mér finnast 600 grömm á viku að meðaltali bara ekki vera nóg. Stundum skoða ég önnur blogg og verð græn af öfund af sögum af fólki sem er búið að léttast helmingi meira en ég á helmingi minni tíma. Eins mikið og ég veit þá held ég samt áfram að gera svo margt vitlaust. Og það er alltaf eins og það gerist þegar ég nálgast einhver takmörk. Eftir þrjár vikur verður heilt ár síðan ég byrjaði að garfa í þessu. Og ég væri óskaplega mikið til í að geta sagt að ég hafi lést um 30 kíló á þessu ári. En er núna nagandi mig í sjálfsefa um að það takist. Ég veit að þetta var núna bara einn (enn) sunnudagur í rugli og ég byrja upp á nýtt á mánudegi, ekkert mál, en ég bara nenni ekki lengur þessu "byrja upp á nýtt". Mig langar til að taka allt matarkyns út sem ýtir á rofann í heilanum á mér sem kveikir á "binge" hegðuninni. En er ekki alveg nógu sterk til þess. Það kemur alltaf upp hin hliðin á málinu sem segir mér að í öll hin skiptin sem ég léttist helmingi meira á helmingi minni tíma og var ekkert í neinu rugli þá kom alltaf sá tími þar sem ég fór í ruglið og komst ekki út úr því aftur. Er ekki betra að vera bara róleg í þeirri fullvissu að fyrir hvern ruglaðan sunnudag fylgja a.m.k. sex brilljant dagar? Ég er mjög tvístígandi yfir þessu. Kannski svona eins og alkahólisti sem gerir sér grein fyrir að hann á við vandamál að stríða vegna þess að hann heldur áfram að drekka einn heima eftir að partýinu lauk en enginn annar veit neitt því alkinn var hrókur alls fagnaðar á meðan partýinu stóð. Ég veit í hjarta mér að þetta "sex góðir dagar, einn vondur" er fínt ef ég ætla að halda mér stöðugri þar sem ég er, en ef ég ætla að halda áfram að léttast þá er komið gott. Ég verð að finna rofann inn í mér sem kveikir á "koma svo!" hegðuninni. Æji, ég veit það ekki. Ég veit alveg hvað ég þarf að gera, en nenni því ekki núna. Held að ég sé að fiska eftir samúð. Eða smá sparki í rassinn. Heill pistill og ekki kemst ég að niðurstöðu. Mikið djöfull er þetta mikið vesen. Mikið djöfull er þetta flókið! Mikið djöfull em þetta er líka einfalt mál! Djöfullinn sjálfur!

Engin ummæli: