|
Eplapíkanpæ og Man U v. Liverpool |
Á sunnudagseftirmiðdegi er gott að liggja í leti. Opna tölvuna og fara á léttan bloggrúnt. Og taka út af uppáhaldssíðum nokkra bloggara sem eru hættir að skrifa. Ég finn reyndar alltaf nýja í staðinn, en engu að síður þá er alltaf smá sorglegt að fylgjast með fólki, fólki sem ég þekki ekkert, fólki út um allan heim sem er alveg eins og ég, smá saman hætta að blogga, missa þróttinn og hverfa síðan orðlaust í algleymi veraldarvefsins. Þetta fólk er búið að reyna þetta vel flest, búið að gefast upp og byrja aftur, búið að prófa allar pillurnar, alla hristingana, öll tækin sem lofa að með engri vinnu fái maður þvottabretti í magastað. Dettur svo niður á þetta "borða hollt og gott, hreyfa sig aðeins meira" tæknina en með örfáum undantekningu gefast flestir upp á því líka. Halda í einhvern tíma að með því að blogga sé hægt að viðhalda þessu lengur og það er engin spurning að fyrir marga er þessi ábyrgð gagnvart gerókunnugum mikilvæg til að halda manni við efnið. Engu að síður þá fer oft að líða lengra á milli færsla, bjartýnistónninn hverfur og að lokum hættir maður að nenna að tékka á fólki. Ég skrifa með þá hugsun að það sé enginn nema mamma að lesa. Mér finnst mikilvægt að reyna að halda þeirri hugsun, því ég vil skrifa eins og ég sé að skrifa í dagbókina mína. Ég nota bloggið til að flokka hugsanir, til að reyna að greiða úr flækjunni sem ég kem heilabúinu oft í, og með því að skrifa þetta niður líður mér betur. En auðvitað vona ég að sem flestir lesi. Og því fleiri ókunnugir því betra. Ég veit fátt betra en hrós, og þegar ég skrifa um það sem vel gengur fæ ég hrós í kommentin mín. Frábært. Þegar illa gengur fæ ég hvatningu og það er ekkert betra en hvatning þegar illa gengur. Fyrir mér er engin spurning að bloggið er lykillinn að þessu öllu hjá mér, ég fæ útrás, ég get prófað hugmyndir, ég fæ hrós og ég fæ hvatningu. Og þessvegna er mjög ólíklegt að ég hætti nokkur tíman að skrifa. Stundum fæ ég ógeð á "lífstílnum", og langar ekkert til að skrifa, en svo dettur mér eitthvað í hug sem ég bara verð að setja á blað til að skilja það betur og áður en ég veit af er pistill kominn.
|
Slátrarinn minn |
|
Láki fær muffin. |
Núna er helgi númer tvö án sykurs og hvíts hveitis. Mér líður rosalega vel, finnst ég vera stinn og sterk og hörð og hrein. Ég lyfti af kappi og hlakka til hverrar æfingar. Ég ákvað að það væri samt tími til komin á sunnudegi að kæta aðeins braglaukana, hressa við brennslukerfið og leyfa matardónanum aðeins að flassa. Við skelltum okkur því til Wrexham í gær og heimsóttum slátrarann minn og keyptum smávegis af velskum lambalærisneiðum og svo náði ég í poka af pecan hnetum til að búa til pekanhnetu eplapæ samkvæmt
þessari uppskrift. Ég sleppti reyndar öllum sykri úr uppskriftinni. Mér finnst alltaf voða gaman að þessum bæjarferðum og mér finnst voðalega gaman að fara til slátrarans. Það er svo fínt hjá honum og mér finnst svo mikilvægt að fá þetta svona beint af kúnni. Eða lambinu. Við setjumst oftast niður á kaffihúsi og ég og Dave fáum skinny latte og Láki fær muffin. Ég eldaði svo stórhættulegar kótilettur í raspi í hádeginu í dag. Reyndar bjó ég til raspinn sjálf úr heilhveiti en engu að síður stórhættulegt. Eftir svoleiðis máltíð sem endaði svo með ehem "sneið" af píkanpæ er ég heldur betur sátt. Og sannaði svo hið margkveðna að það skiptir litlu máli þó kakan sé "holl", ef maður borðar 3/4 af henni er lítið eftir af hollustunni!
3 ummæli:
Alltaf gaman að lesa bloggið þitt Svava,ég vildi óska að mér þætti svona gaman að elda eins og þér, ekkert smá girnilegt það sem þú er að gera. Þetta er eilíf barátta, að breyta up lífstíl er auðvelt í svona 4 daga :) en eins og þú segir aldrei að gefast upp. Ég er einmitt að upplifa það sama og þú er í hollustunni svona 95% en borða bara of mikið, vona að þú hættir aldrei að blogga, bæði ég og systir mín lesum alltaf og höfum bæði gott og gaman af. Baráttukveðja
Þú getur verið örugg um að mamma lesi pistlana þína og dáist alltaf jafn mikið af dugnaðinum og undrast yfir gáfunum (skil ekki hvaðan þær koma), brosi yfir skemmtilegheitunum, steli uppskriftunum og verð hugsi yfir öllum pælingunum. Svo er bónus að fá fréttir og myndir af Lúkasi.
(leiðr.).....dáist að......
Skrifa ummæli