laugardagur, 30. janúar 2016

Af sokkaböndum

Þetta mjatlast.
Ég verð að viðurkenna að ég er nokkuð stolt af þessu kílói. Ég þurfti að ferðast fyrir vinnuna og var að heiman þriðjudag og miðvikudag sem hafði áhrif á allt. Á ferðir í ræktina, á matarplan og á valmöguleika. Ég planaði þessvegna eins mikið og ég gat og minnti svo sjálfa mig á að þegar ég hef ekki stjórn á umhverfinu mínu þá hef ég alltaf stjórn á hegðun minni innan þess umhverfis. Og ég hef greinilega gert eins vel og hægt var. 
Það var líka voðalega gaman að hitta vinnufélagana í Brighton. Ein þeirra hafði misst af mér siðast þegar ég kom og sá þessvegna heilmikinn mun á mér. Hún, eins og algengt er, vildi fá að vita "leyndarmálið". Mig langaði voðalega til að segja henni eitthvað hressandi og sexý en varð svo að viðurkenna að "leyndarmálið" er álíka sexý og sokkar í sandölum. Borða minna, hreyfa sig meira. Mér finnst voðalega leiðinlegt að þurfa að segja fólki frá þessu. Ætla þessvegna að fara að vinna í að pakka sannleikanum inn í sokkabönd og kloflaust nærhald og selja þannig. Kannski að þannig gæti ég hætt að vinna hjá Lloyds og unnið bara í að selja "leyndarmálið"? 

Engin ummæli: