sunnudagur, 31. janúar 2016

Af feitum konum


Ég hjó eftir um daginn að Ragga Nagli setti inn facebook status þar sem hún agnúast út í fyrirsögn á dönsku slúðurblaði. Fyrirsögin var eitthvað á þá leið að kona léttist um 92 kíló og varð sæt. Þetta fór fyrir brjóstið á Röggu og flestum lesenda hennar sem þótti þetta vera einelti í garð feitra og enn eitt dæmi um kynbundna árás á konur sem krefst þess að við séum grannar til að geta talist sætar. Að við séum öll falleg. Og vanalega er ég sammála Röggu, enda segir hún margt af skynsemi og prédikar sjálfsást sem ég er einmitt uppfull af. En í þetta skiptið gat ég ekki að gert en að finnast hún tala út um rassgatið á sér eins og við segjum hér í Bretlandi. Og það eru mýmargar ástæður fyrir því. 
Það er alþekkt fyrirbæri í sálfræðinni eitthvað sem heitir halo effect, eða geislabaugsáhrifin. Þetta er það sem gerir það að verkum að fallegt fólk er líklegar til að fá hærri laun, styttri fangelsisdóma, eignast fallegri maka og það sem er kannski órettlátast, lifa lengur. Þetta þýðir að burtséð frá einhverjum tískusveiflum þá er einfaldlega betra að flokkast í þann hóp fólks sem telst fallegt samkvæmt standard daglegum stöðlum. 
Það að léttast um 92 kíló hefur ótrúleg áhrif á sjálfið. Sjálfstraustið eykst sem þýðir að maður verður sætari. Maður sefur betur sem þýðir að maður er ferskur og rólegur og þar af leiðandi sætari. Maður getur keypt sér fallegri föt í mun meira úrvali sem þýðir að maður getur haft sig betur til og verið sætari. Maður getur æft af meiri ákafa sem gerir mann ánægðari svo það geislar af manni og verður sætari. Maður getur stundað kynlíf af miklu meiri krafti sem gerir mann sætari. Já, það eru mýmargar ástæður sem gera það að verkum að maður er sætari eftir að hafa lést um 92 kíló. Og ef satt er að segja þá finnst mér ekkert að því að segja það. Mér finnst ég vera rosalega sæt. En gvuð minn góður hvað ég var miklu, miklu, miklu sætari þegar ég var 84 kíló en þegar ég var 140. Það að banna það að leggja standard á fegurðarstuðul þegar maður er kominn upp í svona tölur er ekki bara barnalegt heldur heimskulegt líka.
Ég segi ekkert um að maður sé betri eða verðugri manneskja þegar maður léttist um 92 kíló. En að maður sé sætari? Já, ég ætla að halda því fram. Og mér finnst sigurinn sem finnst við að taka þetta verkefni svona vel nánast niðurlægður ef það má bara tala um að maður sé heilbrigðari eða hraustari, maður er sætari líka. 
Auðvitað er samfélagið klikk hvað útlit varðar, og það eru ótrúlegar kröfur á að konur líti út á einhvern vissan hátt. En ég tel að hér sé ekki um að ræða sama hlutinn þegar maður fordæmir tískuverslanir sem sýna bara gínur í mínusnúll stærð og þegar manneskja sem léttist um 92 kíló er talin sætari. 
Ef þú segir mér að þú sért feit kona vegna þess að það sé lífstíll sem þú velur þá er það fínt og þitt mál. En þegar sama manneskja segir líka að hún sé feit kona þrátt fyrir að borða hollan mat og hreyfa sig reglulega og ég eigi samt að meta líkama hennar sem fallegan renna á mig tvær grímur. Það er það sama og segja að einhver sé fallegur af því að hún sé hvít, eða ljóshærð.
Er semsagt alveg bannað að vera ljótur nú til dags? Og hversvegna þarf endilega að halda því fram að við séum öll falleg? Það hljómar eins og eitthvað sem ljótt fólk segir.

2 ummæli:

ragganagli sagði...

Eins gott að ég geri Glute æfingar fyrir rassinn fyrst hann er byrjaður að tala LOL. Alltaf hressandi að lesa færslurnar þínar mín kæra. Sammála eða ósammála. Þú ert snillingur.

murta sagði...

Hahahha :D