laugardagur, 23. janúar 2016

Af sálfræði

Ég var svo viss um að ég stæði í stað í þessari viku að ég eyddi þó nokkrum tíma á föstudagskvöldið í að upphugsa allskonar aðferðir sem myndu halda mér á góðu róli þegar ég myndi sjá sömu leiðindatöluna á vigtinni og í síðustu viku. Ég er ekki alveg viss um afhverju ég var svona viss um enga hreyfingu á spiki, ég hafði tvisvar sinnum verið stoppuð á gangi í vinnunni og verið hrósað fyrir sýnilegt fitutap og ég hafði farið í buxur sem ég hef ekki notað áður. Ég hafði einhverntíman tekið þær úr rekka á útsölu án þess að prófa og þegar heim var komið kom í ljós að þær voru aðeins of litlar. Ég nennti ekki að skila og setti bara inn í skáp. Datt svo í hug í vikunni að prófa þær og hey prestó! Smellpössuðu. Út frá því datt mér í hug að þó ég hefði kannski ekki misst nein grömm eða kíló þá gerist það oft hjá mér að spikið svona endurraðar sér utan á mér. Verður svona álitlegra eitthvað. Hvað ef ég kæmist núna aftur í buxur sem ég lagði hljóðlega til hliðar fyrir nokkru síðan þegar ég hætti að geta hneppt þeim? Það myndi nú vera hressandi og hvetjandi æfing, og það meira að segja þó engin hreyfing væri á vigtinni. Sjálfri finnst mér ótrúlegt að nokkrir spintímar og einn og einn pump tími geri það mikinn mun á vöðvamassa að maður léttist ekki. Fólk ofmetur hreyfingu sem þátt í þyngdartapi að mínu mati, það er.   Allt of auðvelt að fara tvisvar í viku og dóla sér á stigavélinni og borða svo tvöfalt meira í verðlaun. Og gapa svo í forundran og svekkelsi þegar vigtin sýnir meira en maður vill. Hreyfing er fyrir sálina, ekki fyrir líkamann, eins skrýtið og það nú er. 
Hvað um það, ég lét Dave ná í kassann með "vonandi einn daginn" fötunum mínum í morgun og dró upp buxurnar. Og mér til mikillar ánægju gat ég hneppt þeim. Ég myndi ekki segja að þær smellpössuðu en ég gat hneppt. Ég fór því salíróleg á vigtina. Skipti mig engu máli hvaða tala kæmi upp, ég var róleg í þeirri fullvissu að ég væri á réttri leið. Ég tók því þessvegna mjög rólega þegar ég sá að ég hafði lést um 1.2 kíló. Önnur kúla komin í marmaraskálina, 400 grömmum léttari en um jól og rétt rúm 10 kíló farin á fjórum mánuðum.
Hvernig er það? Á ekkert að fara að keep up with the Jones'?
 Aftur í buxurnar.

Engin ummæli: