fimmtudagur, 16. febrúar 2012

Ég var heima í gær með hor í nös. Vanalega læt ég ekki þannig slíkt á mig fá, mæti galvösk í vinnu og tek bara lengri tíma í að jafna mig. Enda ekki fjárhagslega vænt að vera heima veikur; ég fæ ekki borgað fyrir veikindadaga. En í gær var ég með smá hita, enn með glýju í augum eftir Lundúnaferðina og bara hreinlega ekki stemmd til að berjast við hitann. Lá hérna uppi í sófa og horfði á sjónvarpið. Fékk mér hafragraut með ristuðum graskersfræjum og kanil og smá rjóma í morgunmat, flaxkorn og laukhrökkbrauð og harðfisk í hádeginu og chili með bláum maizflögum í kvöldmat. Uppgötvaði svo þegar ég var komin upp í að ég hafði látið fara framhjá mér dag sem ég hefði getað eytt í að smyrja á mér gúlann með crisco. Ég var veik, uppi í sófa, að vorkenna sjálfri mér smávegis, ein heima þannig að enginn hefði séð til mín. Ég hefði getað eytt deginum í að éta og ég fattaði það ekki einu sinni! Að hugsa með sér! Það er oft sem ég fatta svona lagað núna. Þar sem ég alveg óafvitandi eyði löngum tíma í að hugsa eins og mjó manneskja. Það finnst mér algert æði. Og hlakka til þegar ég fatta ekki einu sinni lengur að ég hafi hagað mér mjótt.

Bláu maisflögurnar keypti ég í London. Nú þarf ég að kanna hvort svona sé selt hérna í menningarleysinu, en verð að viðurkenna að ég er heldur vondauf með það. Þetta eru bara venjulegar tortilla flögur nema að innihaldið er bara blár mais og salt. Ekkert annað. (Skoðið til samanburðar innihaldslistann á Doritos poka.) Og ég fann rannsókn sem er heldur vísindaleg til aflestrar en rennir sem sagt stoðum undir að blár maís sé antioxidant (hvað svo sem það er á íslensku), er bólgueyðandi, myndar vörn gegn krabbameinsmyndandi frumum og berst gegn fitufrumum. Sjálfri finnst mér mest til um hvað hann er fallegur. Skær fjólubláar flögurnar á disknum mínum veita mér hamingju og lífsfyllingu. Ég verð bara að segja það. Svo mikið finnst mér um það þegar ég fæ að prófa eitthvað nýtt og skemmtilegt. Sykurleysið hefur eiginlega bara aukið á þennan áhuga minn á mat. Eða kannski endurvakið forvitni og tilraunagleði sem mér finnst ekkert nema skemmtilegt. Súkkúlaðimús úr avókadó? Það held ég að það verði prófað um helgina!

4 ummæli:

Guðrún sagði...

Fjólublár matur?????? Já,, jú....bláber og rauðkál og.....ég man ekki meir. En fjólubláar flög ur, er það ekki eitthvað plateða gervi?

Nafnlaus sagði...

"að haga sér mjótt" finnst mér skemmtilegt orðalag :)
Held þetta sé í fyrst sinn sem ég kommenta, hef samt lesið lengi. Mér finnst þú algjör töffari!
-Helga H.

Hólmfríður Gestsdóttir sagði...

antioxidant = andoxunarefni

Gaman að sjá að það gengur vel :)

murta sagði...

Já, mamma! Alveg helblár frá náttúrunnar hendi!

Takk fyrir Helga, ég er ægilegur töffari. Það er nú rétt og satt :)