fimmtudagur, 23. febrúar 2012

Ég sat í makindum aftast í strætó í gær á leið heim úr vinnu og kveikti á "podcast" sem ég hafði náð í frá BBC Radio 4 um daginn. The Food Program er skemmtilegur þáttur þar sem snert er á ýmsu því er kemur að mat. Þátturinn sem ég hlustaði á fjallaði um grunninn að þessu öllu; hitaeininguna. Og þar sem ég sat í strætó og hlustaði leið mér eins og ég ímynda mér að presti sem sat og hlustaði á Darwin tala um þróunarkenninguna hafi liðið. Allt sem ég hingað til hef trúað á og talið óhrekjandi sannindi eru þvættingur og tjara ein. Öll mín trúarbrögð voru tekin og tætt niður þar til ekkert stóð eftir.

Ég og milljónirnar sem telja hitaeiningar höfum alltaf vitað að í einu pundi af fitu eru 3500 hitaeiningar. Til að léttast um pund þurfum við að skapa 3500 kalóríu þurrð. Þetta er vísindaleg staðreynd sem enginn hefur talið nauðsynlegt að efast um. En næringarfræðingurinn sem talað var við lagðist í rannsóknir og komst að því að þetta er hæpið í besta falli, hreinn tilbúiningur í því versta.

Formúlan sem hér liggur að baki gerir ráð fyrir þremur þáttum. Sem svo þegar eru skoðaðir þá er bara einn af þessum þáttum staðreynd. Eitt pund er 453.5924 grömm. Það er staðreynd. Hinir þættirnir eru svo að í einu grammi af fitu eru 9 hitaeiningar og að eitt pund af mennsku fleski er 87% fita (lipide). En málið er að þessir tveir síðari þættir eru svo massíft breytanlegir að formúlan er gagnslaus.

Enda hef ég og eflaust líka hinar milljónirnar sem telja kalóríur staðið á vigtinni eftir nákvæmlega talda og vigtaða  viku þar sem 500 hitaeiningaþurrð var sköpuð í hverjum degi í þeirri fullvissu um að eitt pund af fitu ætti að leka af manni og séð vigtina fara upp um tvö pund. Eða niður um þrjú. Ég sver að ég sé helvítið stundum fara til hliðar. Hversvegna?? veinum við og skiljum ekkert í þessu. En ég gerði allt rétt! Ég taldi, ég vigtaði og allt fyrir ekki.

Þegar maður spáir í þessu þá passar þetta alls ekki. Hvað ef maður er 50 kíló? Og skapar 1000 hitaeiningaþurrð á hverjum degi í heilt ár? Endar maður sem - 2 kíló eftir árið? Þetta er greinilega vitleysa og virkar ekki.

Það virðist sem svo að þessi þrá okkar til að einfalda hlutina er að gefa okkur allt of einföld svör við gífurlega flóknu efni.

Ég er þess vegna búin að gefast upp á þessu öllu saman. Allt sem ég held að sé rétt og satt er rugl og vitleysa. Ég ætla héðan í frá að halda mig við það eina sem hefur reynst mér vel. Ég ætla að borða alvöru mat þegar ég er svöng, þangað til ég verð södd. Og trúa engu nema ég segi það sjálf.

2 ummæli:

Hanna sagði...

Amen! Hef hér með snúist til Murtisma :-)
Ástarknús á þig.
H

murta sagði...

Já! Nú breiðum við út boðskapinn! Vúhú! xx