sunnudagur, 5. febrúar 2012

Lúkas og kókóshnetan.
Hún er búin að vera áhugaverð þessi fyrsta tilraunavika án sykurs. Líkamlega líður mér orðið alveg ágætlega eftir að hafa losnað við hausverkinn, ógleðina og munnþurrkinn. Mig grunar að ef ég hefði reynt þetta fyrir þremur árum síðan hefði þetta verið miklu erfiðara og flóknara, ég er jú að miklu leyti búin að taka út hvítan sykur og hvítt hveiti hvort eð er. Þetta er bara svona lokahnykkurinn þetta að taka út frúktósann.

Andlega líður mér eins og milljón dollurum. Ég er yfirfull af krafti og nánast trúarofsa af sannfæringu um að loksins, loksins hafi ég fundið það sem er rétt og gott fyrir mig. Síðan að ég byrjaði að léttast fyrir þremur árum síðan hef ég prófað ýmislegt. Það eina sem ég hafði alltaf að leiðarljósi var að mér varð að líða vel. Og geta svarað spurningunni "Geturðu gert þetta að eilífu?" játandi. Og það er það sem ég hef gert og mér hefur liðið vel og ég hef lést um trukkfylli af spiki og er heilsuhraustari og hressari en nokkru sinni. En allan þennan tíma hef ég líka tekið rassíur þar sem ég treð andlitið fullt af sætindum og það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart að á meðan á ofátinu stendur haga ég mér nákvæmlega eins og ekkert hafi breyst. Ég geng í gegnum nákvæmlega sama taugastríðið og þegar ég var feit og hafði stanslausar áhyggjur af því að fá ekki nóg. Allt sem ég vil er frelsi og jafnvægi. Ég vil ekki vera háð efni og ég vil ekki að hegðun mín breytist vegna efnis.

Ég hef talið hitaeiningar, ég hef verið meðvituð um hvaða næringaefni eru í hitaeiningunum mínum, ég hef minnkað kolvetnið og aukið próteinið, ég hef borðað eins og vaxtarræktarrotta, ég hef reynt að borða af innsæi. Og allt þetta virkar og gerði mig ánægða. Að meðaltali léttist ég um 2-300 grömm á viku. Í þessari viku hef ég lést um 1 kiló. Og það er þó ég sé búin að troða mig út af smjöri og fitu og hnetum. Ég er semsagt búin að taka alla unna vöru út. Þar á ég við allt sem eitthvað er búið að fitla við. Þannig nota ég orðið hreint smjör og mjólk með fullri fitu.  Ég fékk þannig hreinan latte í gær, ekki neinn helvítis skinny neitt. Og af því að ég fékk alvöru kaffi langaði mig ekkert í sykurhlaðna muffinsbolluna sem ég fæ mér vanalega með skinny latte. (Sjáiði vitleysuna sem ég hef verið gera hingað til?)

Kókóshnetur eru að rokka minni tilveru akkúrat núna. Ég nota kókósmjólk í quinoa grautinn minn, set kókósflögur út á jógúrt, nota olíuna til að búa til hnetukúlur, kókósrjóma til að búa til ís og hef líka tekið upp á að nota olíuna sem andlitskrem. Ég hugsa að ég þurfi að flytja til Indónesiu til að eignast bara mitt eigið kókóstré.

Vísisindin sem ég hef lesið mér til um þetta hafa sannfært mig um að sykur sé eitur og þar með talið frúktósi. Ég er ekki að halda því fram að ávextir séu hættulegir heilsunni, en ég er að segja að þeir geta verið það í því magni sem ég var að borða þá.

Hér er ég búin að berja flikkið í sundur. 
Ég hef enn ekki fundið fyrir neinum löngunum. (Mér finnst cravings vera betra orð, en er að rembast við að sletta ekki of mikið.) Ég er enn í ástarbríma fyrstu daga nýs plans þar sem helgislepjan og stálviljinn lekur hreinlega af mér og ekki sjéns að fá mig til að bregða út af plani. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta á ekki eftir að duga lengi, geri ráð fyrir að depurðin taki við eftir eina eða tvær vikur. En ég ætla að geyma þessa tilfinningu sem ég finn núna og reyna að grafa hana upp þegar sverfir að.

Engin ummæli: