föstudagur, 3. febrúar 2012

Í skemmtilegu samhengi við sykurlausu tilraunina mína hef ég tekið eftir umræðu um hollustu sykurs og agave síróps. Og ég verð að viðurkenna að það kemur mér stanslaust á óvart að það þurfi að ræða þetta yfir höfuð. Hvorugt er hollara en hitt, sykur eða agave, bæði er þetta eitur fyrir líkamann og rökin sem segja að agave hafi ekki áhrif á insúlínið og valdi þar með ekki sama sykur "spike" og hvítur sykur er í raun og veru ekki jákvæð rök því insúlín er eitt af hormónunum sem stjórna matarlyst.

Þegar við borðum fitu eða prótein eða flókin kolvetni þá bera ákveðin hormón í líkamanum skilaboð til heilans sem segja honum að við séum að fá næringu og svo að við séum orðin södd. Þetta gerist ekki þegar við fáum frúktósa. Agave er upp undir 90% frúktósi, borðsykur er 50% frúktósi og 50% glúkósi. Frúktósi fer í gegnum líkamann án þess að vekja nein skilaboð um að við séum orðin södd eða búin að fá nóg og þessvegna verðum við aldrei mett af frúktósa, ein leitum bara upp meira og meira. Samhengi á milli þess að vera háður sykri hefur ekki verið rannsakaður nóg, en sem stendur eru vísbendingar til þess að sykurfíkn sé raunveruleg líkamleg fíkn.

Þegar við sleppum að borða frúktósa kemst líkaminn í jafnvægi. Öll fíkn hverfur að lokum og við þurfum ekki að berjast við þessar stanlausu sveiflur. Við mettum líkamann, brennum hitaeiningum og borðum þegar við erum svöng. Þegar allt er í jafnvægi þá ættum við ekki að fitna þegar við borðum fitu, prótein og flókin kolvetni; líkaminn segir okkur þegar við erum búin að fá nóg og þegar okkur vantar meira.

Frúktósi hinsvegar fer óáreittur beint í lifur þar sem lifrin tekur til við að breyta honum í hreina líkamsfitu, líkt og hún gerir við alkóhól. (Þetta gerist ekki með glúkósa, sem líkaminn getur brotið niður.)

Frúktósi er náttúrlegt efni og aðalsuppistaðan í ávöxtum og auðvitað er ekkert að því að borða ávexti. En það má líka hafa í huga að flest vítamín,snefil-og næringarefni ásamt trefjum sem við þurfum úr ávöxtum er hægt að fá úr grænmeti. Og þannig má minnka neyslu á frúktósa. Við erum gerð til að þola mjög lítið af honum.

Allt þetta ætti að nægja til að sannfæra fólk um að agave er ekki hollara en sykur. Ég hef sagt það áður að sykur er sykur og það skiptir ekki máli í hvaða formi hann kemur.

Ástæðan fyrir því að ég er svona svakalega pirruð á þessu agave kjaftæði er að það og aðrir slíkir heilsukostir valda svo gríðarlegum misskilningi hjá fólki. Það grípur þetta á lofti að slíkt sé hollara en eitthvað annað, raðar því svo í sig með engri hugsun um að allt inniheldur þetta kalóríur og að lokaniðurstaðan er alltaf sú hin sama; ofát og offita.

Svo lengi sem fólk getur stjórnað meðalhófinu þá skiptir litlu máli hvaða eitur það kýs, hvítan sykur eða tískuheilsuvöruna sem er í gangi í það og það skiptið.

Ef fólk er hins vegar eins og ég og getur ekki stjórnað meðalhófinu og rorrar um í fíkn og óstjórnlegu áti þegar frúktósi er kynntur til sögunnar er best að reyna að sleppa þessu bara öllu. Tilgangurinn hjá mér er ekki einu sinni að reyna að létta mig, mig langar einfaldlega til að koma jafnvægi á líkamann, til að geta komist á þetta stig þar sem ég er frjáls undan fíkninni, þar sem líkaminn segir mér þegar ég er svöng og þegar ég er södd.





2 ummæli:

Guðrún sagði...

Þessi pistill ætti að birtast í öllum blöðum eða hengja á alla ljósastaura.

Nafnlaus sagði...

Orð að sönnu Svava!!! (eins og svo oft áður :-) Það er alltaf verið að plata fólk til að kaupa rándýrar vörur undir þeim formerkjum að þær séu svo miklu hollari en ekkert spáð einmitt í þessu sem þú segir, þ.e. að við verðum jafnfeit af þessu. T.d. þessi umræða um hvítt hveiti og spelt....jú jú vissulega er öööörlítið meira eftir af næringarefnum í spelti en kalóríurnar eru alveg þær sömu. Vínsteinslyftiduft kostar hálfan handlegg það en breytir litlu sem engu hvort þú notar það eða venjulegt eftir því sem ég kemst næst. Maður hefur alveg dottið í þá sjálfsblekkingu að borða köku úr spelti, agave og fleiri "hollustu"afurðum og halda að maður sé í fínum málum en á endanum er þetta bara spurning um meðalhófið, velja hollt og éta minna! Amen :-)
Kærar kveðjur til þín og gangi þér vel í baráttunni við helv...sykurinn, ég er líka hans þræll
Sandra Dís