þriðjudagur, 28. febrúar 2012

Þær skeggræddu það fram og tilbaka frá því um hálftíu í morgun hvort þær ættu ekki bara að fá sér súkkulaðistykki samstarfskonur mínar. Voðalega sem þær langaði í, og að mestu leyti ætti þær það skilið, báðar  höfðu þær farið í ræktina í síðustu viku. En samt. Önnur þeirra á leið í sumarfrí, hefur bara átta vikur til að léttast um sjö kíló og hin nýbúin að eignast barn og þyrfti helst að ná af sér fæðingaskvapinu. En það eru nú alveg átta vikur fram að fríi og dagurinn leiðinlegur, súkkulaði myndi hjálpa.

Svona hringsnérust þær í kringum súkkulaðið þar til loksins að önnur þeirra stóð upp, fór í kaffiteríuna og kom tilbaka með kaffi og tvö Twirl.

Hvernig stendur á því að tvær fullorðnar konur þurfa að ganga í gegnum þessar hringborðsumræður áður en það er orðið réttlætanlegt fyrir þær að fá sér eitt súkkulaðistykki? Af hverju má fólk ekki bara fá sér smá nammi og njóta þess án þess að þurfa að skila inn í þríriti afsökunum og ástæðum? Mikið er þetta orðið erfitt allt saman. Og mikið eru þetta hræðileg örlög okkar allra að þurfa að lifa með þessu stanslausa samviskubiti.

Mér datt reyndar líka í hug að afsakanaflaumið væri að einhverju leyti beint til mín. Það er vitað mál að ég fæ mér ekki kex, kökur eða önnur sætindi þegar þau eru á boðstólum og flest hafa þau tekið eftir að ég hef hægt og bítandi verið að léttast. Og það er svo komið að þegar einhver fær sér nammi er mér tilkynnt að það sé út af hinu eða þessu. Og svo er mér sagt að ég sé spes og öðruvísi, ég hafi "willpower" og "motivation". "Oh," er svo andvarpað, "I wish I had your willpower."

Um leið og við tökum viljastyrk og hvatningu og setjum viljastyrk í krukku og hvatningu í dós og sjáum fyrir okkur sem hugtök sem standa fyrir utan okkur verður þetta að miklu máli. Eins og að við þyrftum að teygja okkur upp í efstu hillu til að ná í krukku af viljastyrk og dós af hvatningu. Og við færum ábyrgðina frá okkur sjálfum. Viljastyrkur og hvatning breytast í utanaðkomandi áhrifavalda sem við höfum enga stjórn á eða vald yfir. Og við stynjum upp yfir okkur að við höfum engan viljastyrk og fáum okkur annað snickers.

Um leið og við sjáum að viljastyrkur og hvatning eru ekki einingar sem standa út af fyrir sig og úr seilingu verður þetta allt miklu einfaldara og auðveldara. Ef við viljum gára vatnið verðum við að fleyta steininum.

Mér finnst þetta allt voðalega einfalt. Ef maður ætlar að fá sér súkkulaði þá gerir maður það bara. Það kemur mér ekki rassgat við. Það þarf enginn að afsaka sig fyrir mér. Og það síðasta sem ég hef áhuga á er að skemma súkkulaðið fyrir samstarfskonum mínum. Skárra væri það nú. Ég hef engan áhuga á að vera enn ein ástæðan fyrir samviskubiti.

Ég er nefnilega ekkert spes eða öðruvísi eða með eitthvert viljastyrksgen. Ég ber einfaldlega ábyrgð á sjálfri mér, samviskubitslaust.

Í öðrum fréttum þá er hér heldur betur farið að vora. Ég hélt ég myndi drepast úr hita við hlaupin í kvöld. Það er kominn tími til að pakka niður vetrarhlaupagallanum og ná í stuttbuxurnar. Djöö... kominn tími að raka á mér lappirnar!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

þú ert snillingur kv frá Selfossi

Inga Lilý sagði...

Já ég kannast við svona "þú hefur svo mikinn viljastyrk, oh ég vildi að ég hefði sama viljastyrk og þú". Well newsflash, ég hef ekkert meiri viljastyrk en nokkur annar. Ég hins vegar vil ekki verða feit aftur og geri því það sem mér hentar til að koma í veg fyrir það.

Mín leið er aðeins öðruvísi þar sem ég fæ mér enn súkkulaði en hei, maður verður bara að finna hvað hentar sér.

Mér finnst þú alveg óendanlega dugleg með mataræðið þitt og eldamennskuna og ég vildi að ég hefði smá af þínum áhuga á að gera spennandi nýjan, hollan mat. En ég bara set annað í fyrsta sætið og hef því engum öðrum en sjálfri mér um að kenna.

Maður verður að gera það sem er best fyrir sig og hætta að hugsa um hvað allir aðrir eru duglegir :)