fimmtudagur, 1. mars 2012

Ég fæ oft góðar hugmyndir, segi við sjálfa mig að drífa hitt og þetta af, massa annað og koma öðru í gang. Og geri svo voðalega lítið í því. Ég var búin að segja að það væri ljómandi góð hugmynd að hlaupa heim úr vinnunni. En ef satt skal segja þá var ég ekki með á hreinu hvort ég væri bara að segja það eða hvort ég ætlaði í alvörunni að láta af verða.

Þannig að þegar ég tilkynnti að sumarið væri komið, að það væri tími til að pakka niður vetrarhlaupagallanum, sá ég líka að ég þyrfti að standa við það sem ég hafði sagt. Það var kominn tími á skipulag.

Komin heim.
Ég pakkaði hlaupagallanum í hlaupabakpokann í gærkvöld og fór í léttum (en gasalega smart) fötum í vinnuna í morgun. Vann svo eins og mófó við að afskrifa skuldir og lækka vexti (er ég ekki góð?), fór svo í hlaupagallann inni á klósetti og í strætó. Fór frá Chester til Wrexham og svo í stað þess að taka tengistrætó frá Wrexham til Rhos lagði ég í hann. Þetta er náttúrulega sama leiðin og ég hleyp á laugardagsmorgnum, nema bara í hina áttina. Og nú skil ég afhverju ég er alltaf að hlaupa svona ægilega hratt til Wrexham. Öll leiðin er niður í mót. Sem að sjálfsögðu þýðir að tilbaka er hún fricking upp í mót. Ég er líka búin að vera að vinna af mér föstudaginn, er sem sé í fríi á morgun, tróð bara allri vinnuvikunni á fyrstu fjóra dagana. Þannig að kannski var ég smávegis þreytt. Ég veit ekki. Allavega þá gafst heilinn upp á miðri leið. Sagði mér að stoppa, ég væri ekki hlaupari, hvað ég væri eiginlega að þykjast. Ég gerði þá trixið mitt þar sem ég kanna hvaðan þreytan kemur; sendi spurningu í fætur, í leggi, í læri, í mjaðmir og hendur. Ég spyr lungun hvort þau fái nóg súrefni, og hjartað hvort það sé að hamast of mikið. Ef allt þetta er í lagi þá veit ég að vandamálið er heilinn. Og það er nú bara orðið skemmtilegt að berjast við heilann í mér. Hann er rugludallur sem ég hef gaman að kljást við. Ég lofa mér allskonar skemmtilegheitum ef ég hleyp hálfan kílómetra í viðbót. Svo segi ég við sjálfa mig hvað það sé gaman að vera svona hraust, svona hress, finndu muninn! Og þá get ég stundum meira að segja ekki bara hlaupið aðeins lengra, heldur hraðar líka. Vííí hvað það er gaman að taka sprett! Og áður en ég veit af er ég komin á leiðarenda. Þetta virkar ekki alveg alltaf, en svona oftast.

Ég var allavega kát og hress þegar ég kom heim í kvöld. Skárra en að veltast um í strætó.

Engin ummæli: