sunnudagur, 4. mars 2012

Ég vigtaði mig í gærmorgun. Tvö kíló í plús. Og ég er send aftur á byrjunarreit. Hvað kílóafjölda varðar er mér alveg sama. Ég á við að ég er send á byrjunarreit hvað hugsun varðar. Sykurlaus og hrein, innan skammtamarka, regluleg hlaup og tiltölulega lítið stress að undanförnu og ég þyngist um tvö kíló. Og allt sem ég er öskrar og æpir að þetta sé bara ekki réttlátt. Að ég bara geti ekki meir. Að ég sé búin að reyna allt. ALLT. Og það virðist engu máli skipta hvað ég geri; ég losna ekki við þessi síðustu fimmtán kíló. Og ég get ekki að því gert en að setjast bara niður, gráta og gefast upp. Ég get ekki meir. Öll hugsun sem segir að þetta snúist um að vera heilsuhraust og heilbrigð hverfur. Allt sem segir að þetta snúist ekki um buxnastærð eða hvernig ég lít út fer út um gluggann. Það eina sem ég get hugsað um er að ég sé feit. Feit, feit, feit. Feit og verði alltaf feit.

Þegar þetta gerist reynir sá hluti af sjálfri mér sem er æðri vitund að taka yfir. Æðri vitund er skynsöm og ástrík og hún reynir að segja mér það sem ég veit að skiptir máli, að ég sé að vinna ævilangt starf, að þetta taki tíma, að það skipti í alvörunni ekki máli hvort ég sé í buxum númer tíu eða sextán, það segi ekkert um hversu verðmæt ég sé sem manneskja. Og þetta allt saman er rétt hjá æðri vitundinni.

En suma daga langar mig til að taka æðri vitundina, kyrkja hana hægt og henda henni svo fyrir svínin.

Sjálfseyðingarhvötin tekur svo við af fullum krafti. Tvö kíló í plús? Okei, þá fer ég og fæ mér MacJónas, sjeik og þrjú mismundandi súkkulaðistykki. Þetta er hvort eð er tilgangslaus barátta.

(Ég drekk svo bara spínatsjeik í þrjá mánuði, losna við þessi fokkings fimmtán kíló og sjáum svo hvað setur. Af því að það er jafn hjálplegt og að fá sér MacJónas.)

Þegar ég er svo hálfnuð með súkkulaðistykki númer tvö rennur aðeins af mér. Ég veit að ég er ekki að fara að gefast upp. Það er á engu að gefast upp. Ég er nefnilega ekki sama manneskjan lengur. Lífstíllinn er ekki einu sinni lífstíll lengur, hann er bara lífið.

En ég þarf greinilega að vinna aðeins í því sem ég segi, hugsa og geri. Það er ekki alveg samræmi í þessu. Er tilgangurinn að losna við fimmtán kíló í viðbót? Er hann að vera "sæt"? Er hann að vera einfaldlega sterk og fljót að hlaupa? Ég þarf að skoða þetta betur.

Best er að hugsa málið á meðan maður hleypur. Best að taka sprett.

9 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Helv vigtin...

Haltu áfram dugnaðinum og mundu hversu langt þú ert komin! fimmtán smintán kíló, hvað gerist þegar þau eru farin? Verðurðu sátt, verðurðu heilbrigðari, verður hverjum degi þá eytt á bleiku skýi?

Þú ert hrikalega dugleg og heilbrigð og ég held að það skipti öllu máli.

Skil þig samt vel með helv vigtina. :)

Hanna sagði...

Ég grét ...

ragganagli sagði...

Getur ekki verið að það sé kominn tími á smá pásu að borða í hitaeiningaþurrð og miklu cardio og fara í viðhaldspásu? Getur verið að hormónabúskapurinn hjá þér sé að streitast á móti og þú þurfir að endurstilla kerfið. Pæling.

murta sagði...

Takk fyrir Inga Lilý, þetta er ekki einfalt er það nokkuð?

Knús Hanna, knús xx

Já en Ragga! Ég er búin að vera í viðhaldi í rúmt ár! Bleurgh!

Nafnlaus sagði...

Hélt að byrjunarreiturinn hefði verið 130 kg? ;)

Skil vel að þú sért pirruð og fúl reyndar, væri það áreiðanlega sjálf í þínum sporum. En það er ekkert annað að gera en að halda áfram. Ég hef tröllatrú á Röggu, spurning hvort hún getur ekki hjálpað þér að finna svarið? Vonandi fer þetta allt að mjakast í rétta átt.

Nafnlaus sagði...

Datt óvart inn á þetta frábæra blogg. Þú hefur rétta attitjúdið, þú ert á leiðinni að markmiðinu (sem þú settir) en nú þegar ertu samt búin að ná stærsta markmiðinu, nýji lífstíllinn er orðinn hluti af lífinu.

Þú ert innblástur fyrir aðra.

Nafnlaus sagði...

Sæl, ég hef fylgst með þér í allan vetur og þú ert mér innblástur. ætlaði einmitt að benda þér á frábæran pistil Röggu nagla á heilsupressunni í dag, sem ég ætla að nýta mér, en sé að RN kommenterar. held að það sem hún bendir á sé málið.
baráttukveðja, JM

Húsmóðir sagði...

Enga svona neikvæðni kona góð.

Sendi þér stórt rafrænt knús - vonandi líður þér betur eftir að hafa látið móðan mása á blogginu.

Þú ert flott kona og ég hef lært mikið af því að lesa bloggið þitt. Ég kíki á það reglulega síðan ég uppgötvaði flottu uppskriftirnar Þínar.

Miðað við þennan árangur sem þú hefur náð þá getur þú allt !

ragganagli sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.