fimmtudagur, 8. mars 2012

(Ástarþakkir allemaal fyrir tölvupósta og kveðjur og komment, ég er agndofa yfir hvað allir vilja mér vel.)

Ég er ekki pirruð yfir því að léttast ekki um þessi síðustu fimmtán. Ég er pirruð yfir því að vera pirruð á að léttast ekki um þessi síðustu fimmtán. Ég er nefnilega á allt öðrum stað núna en þegar ég var rúm hundraðogþrjátíu kíló. Þá setti ég mér markmið sem miðuðu að því að verða heilbrigð en þau voru líka mjög tölfræðilega miðuð. Ég sá spikið gersamlega leka af mér og það var afskaplega mikilvægt þá. Ég þurfti á því að halda að sjá töluna á vigtinni fara niður á við til að að geta haldið áfram. Ég spurði sjálfa mig að því hvað ég væri tilbúin að gera til að léttast og það kom í ljós að ég var tilbúin til að gera heilmikið. Ég var tilbúin til að borða minna, til að taka út sætindi, kex og kökur, til að gera tilraunir með grænmeti og ávexti og hollara matfang, ég var tilbúin til að hreyfa mig meira og ég var tilbúin til að fórna allskonar tilbúnum hækjum og þægindum fyrir tímabundin óþægindi.

Núna er þetta allt annað umhverfi sem ég er að kljást við. Tilgangurinn er ekki lengur sá að léttast. Að léttast á að vera svona gleðilegur fylgifiskur. Tilgangurinn er að laga í mér heilann. Tilgangurinn er að vera hamingjusöm í eigin skinni feit eða mjó. Tilgangurinn er að hætta að vera svona upptekin af því að léttast og einbeita mér einungis að því að vera heilbrigð. Þess vegna verð ég svona reið þegar ég fyllist örvæntingu yfir því að léttast ekki. Ég á að vera komin yfir svoleiðis tilfinningar.

Ég hef nefnilega engan áhuga akkúrat núna á að gera það sem ég gerði í upphafi. Mig langar ekki til að telja og vigta. Mig langar ekki til að stjórna með smásjá öllu því sem ég borða. Mig langar ekki til að líða eins og neitt sé fórn eða að ég sé að sleppa einhverju. Og það eitt þýðir að ég kem ekki til með að léttast á sama hátt og ég myndi gera ef ég væri tilbúin til að mæla út grunnbrennslu, áætla kolvetnisskammt, auka hann á meðan á viðhaldi stendur, telja og vigta, telja og vigta. Ég er bara ekki til í þetta núna. Ég ætla að borða alvöru,hollan mat, þegar ég er svöng, þangað til ég verð södd. Ég er sannfærð, algerlega hundrað prósent sannfærð um að ef að ég geri það, borða alvöru, lifandi fæðu í mannsæmandi skammti og hreyfi mig eins og ég hef tíma til þá, að lokum, fari þessi síðustu fimmtán kíló. Ég hef engar áhyggjur af því. En ég verð að kenna sjálfri mér að vera þá líka samkvæm sjálfri mér og hætta að kveina yfir því að léttast ekki. Það er það sem ég þarf að laga.

Kannski hef ég komið sjálfri mér í þetta klandur. Ég skrifa bara fyrir sjálfa mig. En ég get heldur ekki neitað því að u.þ.b tvöhundruð manns kíkja hingað inn á hverjum degi. Og ég ímynda mér að mikið til af lesendum mínum leiti til mín til að fá inspirasjón og hvatningu. Og þegar ég, ár eftir ár, segi ekki frá neinum stórfenglegum leyndarmálum um hverning á að "léttast um tuttugu kíló á tveimur mánuðum" eða þegar ég missi sjónar á mínum eigin markmiðum, fæ ég herping í magann. Ég hlýt að vera að valda fullt af fólki vonbrigðum. Ég er bara engin fyrirmynd.

Það eina sem ég veit er að mér líður milljón, trilljón sinnum betur núna, meira að segja þegar ég er kveinandi í angist og örvæntingu, en mér leið þegar ég var alvöru feit. Og það er góð tilfinning.

Næst; uppskrift að kókóshnetuhveiti ammrískum pönnukökum. 



4 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Ég get LOFAÐ þér því að þú veldur engum vonbrigðum, ekki nokkurri einustu sálu.

Við lesum bloggið þitt einmitt til að fá innblástur í hollara líferni, ekki hvernig eigi að missa 20 kg. Það geta allir misst 20 kg, fer allt eftir því hvað þeir eru tilbúnir til að leggja á sig. Það geta hins vegar ekki allir verið eins duglegir og þú að prófa sig áfram með hollustu uppskriftir hreyfingu og annað slíkt, í lengri tíma.

Þannig að ekki breyta neinu, haltu áfram að vera dugleg að hugsa um heilsuna og blogga um það líka, það er það sem hjálpar fólki og veitir þeim innblástur.

Bestu kveðjur yfir hafið

Nafnlaus sagði...

Ég er á svo rosalega svipuðum stað og þú og finnst ég oft vera að lesa bloggið sem ég gæti verið að skrifa (en geri ekki :-) Það virðist vera erfitt fyrir þig að fara í leikfimissal en fyrir mig hefur alltaf virkað best að blanda saman hlaupum og liftingum og þá virðist vigtin fara í rétta átt. Ef ég er ekki að því virðist ekkert ganga hjá mér. Svo er hitt að þú lítur frábærlega út og ert örugglega heilbrigðari en flestir í kringum þig og því spurning hvort það sé ekki eðlilegt að endurmeta þessi síðustu 15!

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þú flott - og sæki í bloggið þitt því það er svo "manneskjulegt og hversdags".

Nafnlaus sagði...

Mér finnst einmitt svo gaman að lesa því þú ert svo hreinskilin og opinská. Það er hvatning að fylgjast með því... :)