þriðjudagur, 14. febrúar 2012

Það var nístingskuldi í London á föstudagskvöldið og ég var afskaplega fegin að eiga íslenskan búning. Mér fannst kaldara í London en í Wales, sem er skrýtið því ég er mun norðar og hátt upp á fjalli. En svona er þetta bara. Mér fannst ofboðslega gaman að rölta um Southbank og sjá þessi helstu kennileyti. Og ekki skemmdi fyrir að ég fékk að fara á Wagamama að fá edamame baunir! 

Við byrjuðum laugardaginn í Queen´s Park í Soca tíma hjá Cedric. Það var svo erfitt að ég hreinlega endaði tímann á því að grenja. Í alvörunni, ég grét. Af reiði við sjálfa mig að vera enn ekki í betra formi, af reiði við líkama minn að bregðast mér svona, smávegis af því að mér fannst að Cedric ætti að vorkenna (fyrrverandi) feitu stelpunni aðeins meira og láta mig í friði. En þegar yfir var staðið stóð það upp úr að ég ætla ekki að láta þetta vera neitt til að grenja yfir, ég ætla bara að ná aftur einbeitningu og fókus í æfingarnar mínar og vinna núna markvisst að því að bera eigin líkamsþyngd. Eins og maðurinn sagði; "ef þú berð ekki orðið sjálfa þig, þarftu að fara að skoða hvað þú setur ofan í þig." Sannleikurinn er stundum sár. En grenjið forðaði því nú samt ekki að við Ásta vorum eins og gullmolar að tíma loknum.

Við röltum svo um og tókum strætó að Regent´s Park þar sem við löbbuðum örlitið um. Þar við eru þessi fínu  líkamsræktartæki sem hver sem er getur notað. Mér fannst við hæfi að teygja aðeins á eftir átök morgunsins. Þó ég væri í stuttu pilsi og sýndi Lundúnarbúum næriíurnar mínar. Þarna er líka klifurveggur mikill og Ásta stakk upp á að þjálfunin í að bera líkamsþyngdina gæti endað í klifri á þeim vegg. Það fannst mér góð hugmynd. Og ég ætla að reyna að hafa það í huga núna. Ef ég get þjálfað mig til að hlaupa 10 kílómetra hlýt ég að geta þjálfað mig til að klífa vegg? Er þetta nokkuð tími til að vera með sjálfsefasemdir?

Við enduðum svo uppi á Primrose Hill þar sem maður hefur útsýni yfir alla borgina. 

Þaðan röltum við svo yfir í Camden Town þar sem allt skrýtna fólkið býr. Þar komst ég í Whole Foods og gat keypt ýmislegt til að aðstoða mig við sykurlausa lífið. Ég gæti eytt öllu mínu í að skoða og stússast í pælingum um þetta allt saman og mig langar svo að gera eitthvað meira úr öllu því sem ég veit nú þegar. Og mig langar svo til að læra svo miklu meira. Á auglýsingaspjaldi fyrir utan Whole Foods hangir auglýsing frá Ástu þar sem hún býður upp á námskeið. Er hún ekki fín? Ásta er ein af þessu fólki sem snertir líf þeirra sem hún hittir, og hún fær mig alltaf til að hugsa. Hugsa um samhengið á því sem ég segi og svo því sem ég geri. 

Í Camden er svo Inspiral kaffihúsið sem er að hluta til hráfæðiskaffihús. Nú hef ég svo sem engar sérstakar skoðanir á hráfæði eða þeirri fílósófíu sem því fylgir en ég hef bara svo gaman af því að prófa allskonar nýtt. Á þessum tímapunkti sleppti ég sykurleysinu svona nokkurn veginn, hafði fengið mér ítalskt heitt súkkkulaði kvöldið áður til að hlýja mér og á Inspiral fékk ég mér hnetusúkkulaðiköku. Sko vegna þess að þó að eitthvað sé hráfæði er ekki samasem merki þar á milli og sykurlaust, kalóríusnautt eða hollt. En kát var ég engu að síður. 

Á Camden Market er hægt að setjast út um allt á sætum búnum til úr gömlu vespum og fá mat frá öllum heimshornum. Stemningin alveg svakalega skemmtileg og gaman að prútta um verð á vörum sem eru til sölu. Ég keypti mér svakalega fína kopar eyrnalokka og svo eilífðartösku. Tösku úr alvöru leðri sem ég ætla núna bara að nota það sem eftir lifir. Var reyndar svo álveðin í að eignast hana að ég prúttaði bara smávegis og fékk bara 5 pund slegin af. 

Séð yfir Camden Market. 

Við fórum svo út að borða í Brixton á Eritresískum veitingastað. Alveg spes reynsla, maturinn var borinn fram á bakka og svo notaði maður bara pönnukökur til að skafa hann upp. Engin hnífapör. Bæði gott og skemmtilegt. 

Við enduðum á að panta "Kaffee Traditional". Fengum tvo litla kaffibolla og  kanilkryddað kaffi í karöflu borið fram með poppkorni! Já, þetta hvíta í skálinni er popp! Alveg frábært. Og reykurinn á myndinni kemur frá reykelsismola sem þjónninn bar fram á borðið með kaffinu. Ég spurði reyndar ekki um tilganginn, fannst þetta bara skemmtilegt. 

Eftir rölt á einn pöbb enduðum við svo á klúbbi þar sem dansað var fram eftir nóttu. Ég get reyndar sagt með hönd á hjarta að R ´n B tónlist er runnin beint undan rifjum djöfulsins og ég hef aldrei verið jafn föst á því að í mér slær rokkhjartað þungt og þétt. 

Á sunnudeginum fórum við á fleiri kaffihús, borðuðum makkarónu og möndlucroissant og ég sleppti alveg sykurleysinu. Við enduðum á rölti um miðborgina, röltum um Chinatown og skoðuðum túrista og fínar búðir. 

Það má náttúrulega ekki sleppa kvöldmat og tilboðið á ítölskum veitingastað sem lofaði tveimur pizzum á verði einnar var of gott til að láta vera. 

Í Covent Garden er ástin alls ráðandi og ég fékk  recovery sokka til  að gera hlaupin enn skemmtilegri.  Þeir eiga víst að halda að og auka blóðflæði og minnka höggið við hvert skref. Ég er að vona að þeir hjálpi þar með hnjám. 

Við enduðum svo kvöldið á Ska tónleikum á Ritzy sem er sögufrægt kaffihús í Brixton. Þar spilaði hljómsveitin Skamonics sem er fyndnasta band sem ég hef nokkurn tíman séð. Á trommur og bassa voru menn hátt á sjötugsaldri og lítu úr fyrir að vera bræður. Kona sem söng og spilaði á skemmtara var um fimmtugt og leit úr fyrir að vera eiginkona trúboða. Á saxófóna voru svo stelpa um tvítugt og ungur strákur sem var eins og klipptur út úr Nerds Weekly. Ekki það að ég hafi getað einbeitt mér að tónlistinni. Þegar þarna var komið var ég komin í geðveikina mína sem segir að ég þurfi að fá meiri sykur að borða. Ég er svo glöð að þetta hafi komið fyrir, ég er nefnilega núna algerlega sannfærð, ef ég hef ekki verið það fyrir, hversu mikilvægt það er fyrir mig að taka sykurinn út til að koma aftur jafnvægi á sál og líkama. Eftir tvær vikur sykrulaus þar sem ég var ekki stikandi um í leit að sætindum og sjá svo áhrifin á mig þegar ég fékk smá nammi var ótrúlegt. Ég tifaði um í angistarkasti eftir næsta munnbita. Ótrúlegt alveg hreint. 

Mér finnst London algjört æði. Þar er svo margt að sjá og svo margt að gera og allt sett upp á svo skemmtilegan hátt. Eins og þetta hérna kaffihús í Brixton Village þar sem ristavélin er á hverju borði og maður kaupir sér DIY (do it yourself) brauðkörfu. Ristar brauðið sjálfur og smyr með sultu og smjöri. En í stað þess að óska mér að búa á stað þar sem ég kemst í svona fínerí er ég að hugsa um að reyna frekar að skapa svona fínerí hér í kringum mig. Ég hef um svo mikið að hugsa núna um hvað ég vil út úr lífinu, hvað mér finnst mikilvægt og hvað ég ætla að gera til að verða hamingjusöm. Og svona hressandi ferð til London skerpir bara fyrirætlanir mínar um framtíðina. 

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

svindl! var búin að senda inn athugasemd og hún skilaði sér ekki. allavega, vildi koma því áleiðis að ég sit hérna græn af öfund yfir lundúnafínerí þínu, svo sammála að borgin sú er skemmtileg. svo ertu svo fín og með fallegt bros, og gaman að stúdera þetta sykurleysisferðalag þitt. gangi þér vel!

kkv, sigga dóra.

Guðrún sagði...

Vildi að ég hefði haft svona fararstjóra þegar ég var 2 mánuði að væflast í London sumarið 1967, 17 ára. Djöf.....áttu gott, stelpa.