Batnandi konu er best að lifa og ég er viss um að hún mamma mín á eftir að taka hliðarstökk af hlessingi þegar hún sér hvað hér á eftir kemur. Ég er komin með æði fyrir rauðrófum. Já, það sem ég kallaði "bleika ógeðið" á jólum hefur heldur betur breyst og eftir að hafa að undanförnu raðað í mig rauðrófum eins og Bretar borða þær, þaes "pickled" þá lét ég loksins gossa í kvöld og eldaði ferskt búnt af þessum yndiskúlum. Fyrir utan að vera svo ofboðslega fallegar og gefa svona fallegan lit þá eru þær líka meinhollar. Þær andoxa fyrir allan peninginn og betaine efnið í þeim stuðlar að bættri hjartaheilsu og betra æðakerfi. Svo ekki sé minnst á að nýlegar rannsóknir bæði í mönnum og rottum hafa sýnt að þetta sama betaine vinnur gegn óeðlilegari fitumyndun í lifur sem gerist við ofneyslu alkóhóls eða með ofneyslu sykurs. Litarefnið í þeim er svo sterkt að það getur litað þvag og hægðir en það er ekkert til að hafa áhyggjur af.
Ég notaði að uppistöðu uppskrift frá honum Hugh F-W mínum en breytti eftir því sem til var hér og magni.
Ég skrúbbaði og kubbaði niður fjórar rauðrófur og lagði þær í eldfast mót með tveim óskrölluðum hvítlauksgeirum, saltaði og pipraði og glúggaði svo smá ólívuolíu yfir. Huldi með álpappír og hafði svo inni í ofni við 190 gráður í rúman klukkutíma. Tók svo út og lét kólna. Kramdi í skál hálfan hvítlauksgeira og lét þar út í vægt lófafylli af ristuðum og muldum hnetum. Þegar rófurnar voru orðnar nógu kaldar til að höndla þá renndi ég hýðinu af þeim og bútaði þær aðeins meira niður. Hellti svo olíu og safa úr mótinu yfir hnetu hvítlauksblönduna og hrærði vel saman. Svo hellti ég hnetublöndunni yfir rófurnar og muldi svo hreinan feta yfir. Þetta var algjört æði. Svo fullorðins. Ég notaði sem meðlæti með afgangum af lambinu síðan á sunnudaginn en ég ætla líka að borða þetta sem salat á morgun og bjóða upp á sem forrétt næst þegar ég elda. Það hefði ég nú haldið.
2 ummæli:
Þið Nanna Rögnvaldar eruð greinilega með svipaðar hugmyndir um góðan mat þessa dagana.
http://nannarognvaldar.wordpress.com/2012/09/24/raudrofur-spinat-og-afgangar/
En sniðugt! Ekki þykir mér nú leiðinlegt að hugsa svipað og Nanna, uppáhaldið sem hún nú er. Uppskriftin hennar líkist meira að segja meira upprunalegu uppskriftinni sem ég studdist við frá Hugh Fearnley-Whittingstall af því að hann notar rósmarín og pekanhnetur sem ég sleppti.
Skrifa ummæli