Það tók á öllum mínum sjálfstjórnarvöðvahnykli í sunnudagshádegismatnum að reyna að borða hægt. Ég þurfti stanslaust að hnippa í sjálfa mig, minna mig á að tyggja, að smakka almennilega á, að leggja frá mér hnífapörin, að kyngja áður en ég var búin að hlaða næsta gaffal. Það er ekki hlaupið að því að vera "mindful" yfir hverjum bita, sei sei nei. Ég gerði eins vel og ég gat og svo fann ég að ég var orðin södd. Ég skal alveg viðurkenna að ég borðaði nokkra bita umfram það. En ekki svo marga bita að ég þyrfti að sjá eftir neinu. Ég lagði frá mér hníf og gaffal og sagði við Dave að ég væri bara ekki viss um að þetta væri sniðugt. Vanalega þegar ég graðga í mig svo hratt að skyndilega fæ ég bara illt í magann og verð að stoppa. En þarna sat ég alveg viss um að hafa borðað jafn mikið en eini munurinn væri að í þetta sinnið væri ég ekki með magaverk og myndi örugglega bara fá mér meira að borða á eftir. Þetta væri eins og að pakka niður í ferðatösku. Ef maður hendir bara einhverju drasli í töskuna án þess að raða þá kemur maður ekki jafn miklu fyrir. En ef maður vandar sig, brýtur saman og treður í allar holur þá fer miklu meira í töskuna. Væri þetta bara ekki það sama? Vanalega hendi ég bara eins miklu og ég kem fyri í magann þangað til ég er að springa en núna hafði ég raðað skipulega og hafði þessvegna örugglega bara náð að borða meira en vanalega. En Dave var ekki sammála. Hann sagði að þegar maður hendir í tösku þá hanga druslurnar út fyrir, maður treður í hana umfram getu fyrir utan að setja niður bara eitthvað rugl. Drasl sem manni vantar ekkert með í ferðalagið. En vel skipulögð taska er ekki úttroðin, í henni er bara ákkúrat rétt magn af dóti og í henni finnur maður allt sem maður ætlar að nota. Ekkert mál. Og ég rannsakaði hversu mikið ég hafði í alvörunni borðað og það var bara rétt yfir eðlilegum skammti. Ekkert til að skammast mín fyrir.
Ég stakk samt upp í mig einum og einum bita á meðan að ég var að ganga frá. Og datt í hug að það væri næsta mál að tækla. Þessi vellíðan sem ég finn þegar ég fæ að borða í einrúmi er algerlega rótin að vandamálinu. Það er þar sem ég sleppi mér og smákrakkinn fær bara að ráða. Ég þarf að pæla miklu betur í þessu en ég veit það að þegar ég hugsa tilbaka þá er það algerlega feluleikurinn minn yfir því hvað ég í alvörunni er að borða, allar lygarnar og svindilbraskið sem ég hef stundað til að geta borðað í einrúmi.
Næsta mál á dagskrá. Hressandi sálarferðalag framundan.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli