miðvikudagur, 26. september 2012

Það er búið að rigna af ógurlegum krafti hérna síðustu dagana. Reyndar svo mikið að það eru hér flóð út um allt og allt í volli. Ég reyndar bý uppi á fjalli og þarf ekki að hafa miklar áhyggjur svona persónulega. Engu að síður þá er heit og góð súpa akkúrat það sem þarf í svona veðráttu. Ég gramsaði aðeins um í grænmetisdollunni minni og dró þar út eitt butternutsquash sem mátti alveg fara að nota. Til að gera súpuna áhugaverða ákvað ég að baka graskerið áður en það færi í súpuna.

Hita ofn í 190 gráður
Flysja og kjarnhreinsa og kubba niður grasker
skvetta smá olíu á það og baka í svona 40 mínutur þar til mjúkt og aðeins ristað

Á meðan það er að bakast sker maður niður einn lauk og maukar einn hvítlauksgeira.
Setja það í pott með olíu og mýkir.
Svo fer þar út í teskeið af za´atar kryddblöndu (Za´atar er sesamfræ, timjan, marjoram, oregano, sumac og salt. Nauðsynleg blanda fyrir miðausturlenska matargerð) og hita í olíunni þar til ilmurinn leggur af, svona þrjátíu sekúndur.
Svo hellir maður líter af vatni og tveim góðum grænmetiskubbum út í og lætur sjóða og malla. Og þykkti með kartöflumjöli.

Þegar graskerið er tilbúið hellist það út í lauksúpuna og svo maukar maður með töfrasprota. Ég reyndar veiddi nokkrar skeiðar af lauk upp úr fyrst og setti svo út í aftur þegar ég var búin að mauka af því að mér finnst gott að hafa smávegis af bitum. Svo saltaði ég aðeins og pipraði með nýmöluðum pipar.

Ég er ekki viss um hvort það var ristaða bragðið af graskerinu eða Za´atrið en súpan var svo góð að ég náði ekki einu sinni að taka mynd áður en hún kláraðist.




Engin ummæli: