Eitt af skemmtilegri trixunum mínum er að einbeita mér bara að einhverju öðru. Öðru en ruslfæði það er að segja. Þannig er ég mikil kaffiáhugamanneskja, er búin að stúdera náttúrleg og grísk jógúrt frá a til ö, hef rannsakað mismunandi hveititegundir til súrdeigsgerðar og hef núna snúið mér að salti. Já, ég ætla að verða áhugamanneskja um salt. Er ekki ljómandi sniðugt að vera saltconnoiseur?
Þegar maður getur dúllað sér við að pæla í mismunandi salti og áhrifum sem það hefur á eldamennskuna þá hefur maður bara ekki tíma né nennu til að vera að spá í að maður hafi sleppt snickersinu í dag. Ég fór í leiðangur um daginn og skoðaði allt saltið sem er í boði núna. Það kemur í ljós að ég er ekki ein um að langa til að verða salt sérfræðingur; það eru milljón mismunandi fín sölt í boði. Ég ákvað að byrja á því allra frægasta (og dýrasta) og keypti mér krukku af Fleur de sel. Það er saltið sem er safnað saman með handafli einu af efsta laginu af salti þar sem það þornar. Fíngert og smávegis rakt, það bráðnar um leið og það kemur í snertingu við mat og gefur fínlegt bragð enda með flóknari samsetningu steinefna en venjulegt borðsalt.
Salt er eini steinninn sem við mannfólkið borðum. Það er nauðsynlegt steinefni og hjálpar til við ýmis störf í líkamanum. Það er líka nauðsynlegt til að upphefja mat. Það sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir áður var hversu gott það er að setja smá salt út í sætan mat til að ýta fram enn meira sætu bragði. Þannig er ég búin að vera að leika mér að setja smá fleur de sel á avókadó búðinginn minn og það er ótrúlega gott. Næst ætla ég að kaupa svart salt. Og svo bleikt. Bara að gamni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli