Árum saman skrifaði ég blogg. Mér hefur alltaf þótt gaman að skrifa og eftir að ég flutti til Bretlands 2003 varð það smá líflína til Íslands. Þegar „lífstílsbreytingin“ tók svo yfir allt varð ég svo nokkuð öflugur bloggari og fékk oft að heyra að hugleiðingar mínar um spik væru hjálplegar öðrum feitum.
Ég hef ekki fundið þörf til að skrifa síðan 2017. Sem update
þá er ég búin að þyngjast um 30 kíló, léttast um 35 kíló og þyngjast um 20 á
þessum árum, en hver er svo sem að telja?
Það hefur tvisvar sinnum komið fyrir á þessum árum síðan ég
hætti að skrifa að ég neyddist engu að síður til að setja niður hugsanir á blað
og ég endaði á setja bara á Facebook. Ég er, jú, svo vön að deila mínum
hugsunum með lesendum að það var náttúrlegt og eðlilegt að gera það. Svo fann
ég í gær að meira lá á hjartanu og ég kíkti inn á bloggið mitt til að athuga
hvort ég gæti ekki bara komið þessu frá mér þar.
Og ég hreinlega veit ekki hvort það sé góð hugmynd. Í
ofanlálag við tugi kílóa í + og – á þessum árum síðan ég hætti að skrifa hefur
mér nefnilega líka snúist hugur um hvað er rétt og gott þegar það kemur að því
að tala um líkama minn, og líkama feitra.
Á blogginu blasir sagan við, röð af myndum af sjálfri mér
með 10 kílóa millibili þar til við komum að myndinni sem heitir „hamingjusöm
kíló“. Ég get ekki lýst því hversu óþægilegt mér finnst þetta núna.
Hugmyndin að ég sé ekki ég sjálf, að ég sé verri útgáfa af
sjálfri mér þegar ég er í feitari líkama er núna það sem ég ströggla við hvað
mest. Að ég eigi ekki skilið að vera hamingjusöm þegar ég er í feitari líkama. Að
ég sjálf sé sek um fitufordómana sem ég er að grátbiðja aðra um að láta af, og
það gagnvart sjálfri mér.
Ég verð að afsaka sjálfa mig með því að þessi hugmyndafræði
kemur ekki frá mér. Ég að sjálfsögðu eins og aðrir lýt í lægra haldi fyrir
stanslausum áróðri allt í kringum mig um hversu óæskilegt það er að vera
feitur. Að bara ef ég verði mjó verði ég elskuð, að bara ef ég verði mjó fái ég
betri vinnu, að bara ef ég er mjó verði ég meira ég sjálf. Hamingjusamari. En
það hlýtur þá að sama skapi að þýða að feita ég sé ekki þessi virði að vera
elskuð, fá vel útborgað, vera hún sjálf eða vera hamingjusöm. Það er eitthvað
sem bara grannir fá að njóta. Og á sama tíma legg ég allt mitt, alla mína vinnu
og hugsun í að grennast en tekst það ekki. Og þegar skilaboðin frá samfélaginu
í ofan á lag eru að það sé svo einfalt mál að grennast, að ég þurfi bara að borða minna og
hreyfa mig meira, en mér mistekst það samt, hlýt ég að vera
enn verri manneskja en ég lagði upp með! Það hlýtur hver sem er að sjá hvað þetta er mannskemmandi. Ég er ekki bara feit
og ljót, og verri manneskja en aðrir, ég líka vitlaus og failure af því ég get
ekki eitthvað svona einfalt eins og að verða grennast!
Þetta er bara ekki eitthvað sem ég get gúdderað lengur. Ég
get ekki tekið þátt í því að minni útgáfan af sjálfri mér sé betri útgáfan. Að
þetta séu mismunandi útgáfur yfir höfuð. En það er samt það sem ég fæ að heyra.
Að útgáfan sem er svöng, stressuð, í nánast geðrofi af áhyggjum af því að borða
vitlaust, sé betri útgáfa af mér.
Í þessi ár sem ég var að skrifa fór ég í milljón hringi,
fann endalausar lausnir, skipti um skoðun og dreifði því sem ég taldi gospel í
hvað og það sinnið. Allt var þetta minn sannleikur það skiptið. En núna get ég
ekki annað en viðurkennt að ég er búin að fá nóg. Ég einfaldlega veit að þetta
er sjálfsagt líkaminn sem ég kem til með að búa í, alveg sama hversu mikla
vinnu ég legg í að kvelja sjálfa mig með föstum og skorti og hreyfingu sem ég
nýt ekki. Ég verð alltaf feit.
Það sem ég þarf að fá að gefa upp á bátinn er hugmyndin að
ég hafi brugðist, sjálfri mér og samfélaginu. Að ég sé verri útgáfa af
manneskju en aðrir. Að ég sé byrði á heilbrigðiskerfinu. Að ég sé skrímsli sem
særir fegurðarkennd annarra.
Ég minntist á þetta við mömmu í spjalli. Að það væri svo
erfitt að gefa þessa von upp á bátinn, vonina um að einn daginn fái ég að prófa
að vera mjó. Mig langar svo að hafa verið ung og mjó sagði ég við hana. „En þú
varst það“ minnti hún mig á. Bæði í 9.bekk og svo seinna árið í lögfræðinni.
Það voru tvö ár með nokkru millibili sem ég tók í undir 1000 hitaeiningar á dag
og nokkuð stífa líkamsrækt og ég varð mjó. Málið er að ég man það ekki. Ég tók
ekki eftir því sjálf að ég væri orðin grönn. Öll þessi vinna að þessu skýra
markmiði og ég tók ekki eftir því sjálf. Sjálfri fannst mér ég hafa verið feit. Aðeins
minna feit kannski en samt feit.
Ég er enn að melta þetta. Mér tókst semsagt ætlunarverkið, alla vega tvisvar sinnum, og ég tók ekki einu sinni eftir því. Greinilegt að það að vera mjó uppfyllti alla mína drauma?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli