þriðjudagur, 29. september 2009


Eins og áður hefur komið fram þá finnst mér alveg sérstaklega leiðinlegt að strauja. Aðalástæðan er sú að ég geri það svo illa. Ég kuðlast bara um með efnið, enda alltaf á að strauja krumpur fastar í bakið, hita járnið of mikið eða sprauta vatninu eitthvað vitlaust þannig að ég enda með bletti. Þannig að ef ég er að vera hreinskilin hérna þá verður núna að koma í ljós að ég hef svona mestmegnis bara sleppt öllu strauji. Dave sér um sínar vinnuskyrtur sjálfur og ég, ég fattaði upp á frábærri aðferð. Skyrturnar mínar eru svo þröngar að það bara svona teygðist úr flestum krumpum þegar ég var komin í þær og restin liðaðist úr þeim svona með líkamshita. Sem kemur okkur þá að vandamálinu. Skyrturnar mínar eru bara ekki nógu þröngar lengur. Það teygist ekki á neinu, nema svona rétt yfir brjóstin. Ég verð að viðurkenna að ég gerði ekki ráð fyrir því að það að grennast þýddi að ég þyrfti að fara að strauja. Og þar höfum við það, hið skítuga leyndarmál sem granna fólkið er búið að halda leyndu fyrir okkur fitubollunum; það er leiðinda vinna að vera fínn og sætur!

Engin ummæli: