þriðjudagur, 8. september 2009

Mikið svakalega var gaman um helgina. Við verlsuðum og borðuðum og drukkum og dönsuðum og töluðum út í eitt þannig að ég er alveg dauðþreytt í dag, en það er góð þreyta. Og það besta er að af því að ég er að koma heim bráðum þá þarf ég ekkert að vera döpur. Það var að sjálfsögðu dálítið erfitt að viðhalda lífstílnum en þrátt fyrir að hafa kannski ekki alltaf valið hollasta matinn þá hafði ég bara nokkuð góða stjórn á magninu. Ég fylgdist að sjálfsögðu vel með hvað stelpurnar borðuðu og reyndi að gera eins og þær. Mestu kaloríurnar hafa verið í öllu áfenginu. En við dönsuðum líka stanslaust í rúma 4 tíma þannig að það kannski brenndi einhverju smá. Hvað um það, ef ég þyngist aðeins þessa vikuna þá er það þess virði.

Svona persónulega þá þótti mér merkilegast að ég keypti mér föt í 18. Og svo hversu brengluð sýn mín á föt er núna. Allt sem ég tók upp í þeirri stærð fannst mér vera pínulítið og stelpurnar þurftu að tala mig til í að prófa. Ég fór svo að gráta í búningsklefa í fyrstu búðinni. Ég hneppti venjulegum svörtum buxum í 18 og var bara fín. Og fór bara að gráta. Með ekkasogum. Ég veit ekki hvað gerist þegar ég kemst í 14, taugaáfall kannski. Ég varð aðeins hugrakkari við þetta og keypti tvennar buxur, gallabuxur og eitthvað smálegt fleira. En sá það síðan að ég þarf að mennta mig upp á nýtt í fatakaupum. Ég kann að klæða mig þegar ég er hundrað og tuttugu kíló en hef ekki hugmynd um hvað er fínt nú þegar ég er orðin minni. Ég reyni alltaf bara að vera eins snyrtileg og hægt er, allt til að draga úr hugmyndum um feita og subbuskap en sé það núna að ég hef kannski meiri möguleika á að fylgja tísku. En er svo úr tengslum við tísku að ég er bara í hættu á að vera halló. Hlutir sem þær voru að máta, skoða og kaupa hefði mér aldrei dottið í hug að væri fínt. En þær eru báðar svona ægilega smart. Þannig að nú er það verkefni sem bíður mín. Að fara að skoða föt með alveg nýju hugarfari.

Mér líður allavega alveg rosalega vel og er svakalega vel stemmd fyrir næsta "challenge" sem er að komast úr 3ja stafa tölu fyrir 1. nóv. Ég er með ýmislegt planað í sambandi við mataræði og hreyfingu sem ég fer að koma í gagnið núna. Og skrifa um hér. Sem minnir mig á að ég þarf að minnast á hvað mér þykir ofboðslega vænt um þegar ég fæ skilaboð frá fólki. Ég er sannfærð um að ástæðan fyrir hversu vel mér gengur núna er að ég hef gert sjálfa mig ábyrga ekki bara fyrir mér og vigtinni heldur öllum sem lesa og óska mér vel. Og að hafa stuðning er ómetanlegt. Ómetanlegt.

7 ummæli:

Líf Magneudóttir sagði...

hrós í hattinn - gangi þér vel.

Nafnlaus sagði...

Það er rosalega gott að vera með svona góða þreytu,en ég held svei mér þá að ég sé bara líka hálf þunn í dag eftir pilluátið í gær ;)og það er ekki gott.
Bíddu annars þú hefur aldrei verið halló og ferð nú ekki að taka upp á því nú.Hrós hrós hrós
kv.HH

Guðrún sagði...

Það er alltaf jafn skemmtilegt að lesa (og spjalla við þig) um allar pælingarnar um mat, hreyfingu, ímyndir, sjálfstraust og sjálfsmynd. Þú ert alveg á réttri leið.
+++ Þetta eru kossar eins og Lúkas sendir mér.

Harpa sagði...

Þetta er alveg frábært að lesa. Innilega til lukku, bara verst bara að geta ekki notið stundarinnar með ykkur þarna í mátunarklefanum. En Svava Rán verður aldrei halló, það er alveg á hreinu!

Luv
H

Hulda sagði...

Frábært að heyra elsku Svava! Hlakka til að geta samgleðst með þér þegar þú kemur til okkar :)

Nafnlaus sagði...

Þú ert ótrúlega dugleg og lítur svo vel út...Gaman að fá að fylgjast með hversu vel gengur. Þú ert líka að verða yngri með hverri myndinni? Hmmmmm

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir helgina elsku vinkona. Það var frábært að vera með þér. Ég var reyndar alveg uppgefin í gær en það var góð þreyta :-) Þú ert svo heilbrigð og tekur svo rétt á hlutunum. Þú ert að sjálfsögðu algjör skvísa og verður alltaf. Knús á þig. Go girl!
Love, Ólína