Josie, kisan okkar, er nefnilega heilmikill veiðiköttur, kemur með tvær til þrjár mýs inn á viku. Í morgun kom hún með eina sprelllifandi og fannst við hæfi að ég kæmi niður til að dást að veiðifærninni. Greyið litla músin skalf og hristist og var eins og límd við gólfið af hræðslu einni saman. Ég kem sjálfri mér á óvart með að geta tekið hana varlega upp og haldið á henni aftur út í grasið. Ég veit ekki hvort hún var eitthvað slösuð innra með sér, og kannski hef ég bara framlengt einhverjar kvalir en hún var farin þegar birti og ég fór aftur út í garð. Sjálfsagt étin af uglu eða eitthvað.
Svona morgunpælingar skila kannski ekki miklu. En samt, ef ég er einu skrefi nær að finna jafnvægið var það kannski þess virði að bjarga einu músagreyi. Kanilsnúðarnir er tvímælalaust þess virði. Ég trúi staðfastlega á að matur sem maður hefur smávegis fyrir sé bestur. Og að það skipti litlu máli þó það sé þá eitthvað sem flokkast sem "óhollt". Það er nefnilega allt of auðvelt að verða sér úti um nammi. Ég labba framhjá nokkrum búðum á leið heim úr vinnu og tók þessa mynd bara svona í bríaríi án þess að miða sérstaklega á nammið;
Súkkulaðikexpakkar, Oreokex, snakk, hlaup... allt á 50 pence. Hundraðkall. Það eina hollt sem mér dettur í hug sem kostar 50 pence er gúrka. Ein gúrka eða stór pakki af oreos? Ekki nema von að við séum öll rorrandi um í spiki. Þetta er ódýrt, innan seilingar, auðvelt og í ofgnótt. Ég veit að þetta gerir mér erfitt fyrir. Að grípa stóran maltesers poka fyrir hundraðkall? Ekki málið, ég er meira segja ekki viss um að það geti verið svo margar hitaeiningar í hundraðkalli. Mín lausn er að forðast sem mest að labba framhjá svona búðum. Og setja mér svo það verkefni að vinna inn fyrir ljúfmetinu. Ef ég þarf að standa í eldhúsinu, fara út í búð að kaupa hveitið, hnoða, blanda, fletja, skera, nú þá á ég gúmmelaðið meira skilið. Svo er ég líka frelsishetja í músasamfélaginu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli