fimmtudagur, 26. janúar 2017

Af vinnu

Því er ekki að neita að ég hef verið afskaplega lukkuleg með starfsframa minn hér í Bretlandi. Ég eyddi nokkrum árum í gleraugnaverslun, starf sem átti sérlega illa við mig. En um leið og ég fór í MBA námið fékk ég vinnu hjá skattinum sem var sérstaklega vel til fundið því vinnutíminn var þannig að ég náði að koma af stað hreyfingu og betri hugsun um mataræði. Ég er enn alveg viss um að stór þáttur í velgengni minni til að byrja með að léttast var að ég hafði allan morguninn út af fyrir mig til að stússast, planleggja og hreyfa mig.
Deildinni minni hjá skattinum var svo lokað og ég tók fyrstu vinnu sem bauðst, hjá Lloyds Banking Group. Ég byrjaði alveg á botninum, var ekki einu sinni fastráðin. Eftir nokkra bið losnaði þó staða þar sem ég hafði nokkur mannaforráð og komst inn í deildina sem sér um skuldara. Síðan hef ég unnið mig upp og er núna í deild sem sér um leiðréttingar á mistökum, hvor sem þau eru af manna völdum eða vegna tölvukerfis. Mér finnst ferlega gaman í vinnunni og sérstaklega búið að vera gaman núna undanfarna mánuði. Bæði vegna þess að nýjir yfirmenn mínir eru öll á mínu bandi, vinnan sjálf er fjölbreytt og ég læri eitthvað nýtt á hverjum degi og svo vegna þess að ég er að gera hluti sem ég er flink við. Ekki skemmir að ég er loksins á ágætum launum og svo það sem nýjast er; ég get unnið heima. Ég er búin að fá fartölvu og örugga línu svo ég get tengst bankakerfinu heiman frá mér. Svo sit ég bara í náttfötunum og stjórna "conference" símtölum og ráðgeri og skrafa við samstarfsfólk í Chester, Brighton, Edinborg, Glasgow, Halifax, Andover, Birmingham, London, Manila og Bangalore. Þetta gerir það að verkum að það er eins og maður sé að vinna fyrir sjálfan sig.

Nýjasta verkefnið er mér sérstaklega hugleikið þar sem ég hef tækifæri til að halda fyrirlestra og vinna í að vinna "hearts and minds" eins og það er kallað. Ég veit ekkert skemmtilegra en að halda pistla fyrir áhorfendur og ég hlakka til að þróa skilaboðin. Þar sem ég sat hér heima við að búa til fyrirlesturinn datt mér skyndilega í hug að um daginn hafði ég lesið viðtal við konu sem sagði að eftir að hafa grennst þorði hún loksins að gera allskonar hluti. Ég hugsaði með mér að það væri eitt, ég hefði aldrei látið spikið hindra mig neitt sérstaklega. En núna verð ég að viðurkenna að tilhugsunin um að líða vel með sjálfa mig hvað útlitið varðar á tvímælalaust eftir að skila sér í öruggri og skemmtilegri flutningi á fyrirlestrum. Meira segja þó ég geri það í náttfötunum.

Engin ummæli: