sunnudagur, 22. janúar 2017

Stream of consciousness

Það grípur mig stundum alveg gífurlegt eirðarleysi. Þar sem ég stika um í leit að einhverju áhugaverðu til að eyða tíma mínum í en á sama tíma er ég líka lömuð af leti og einbeitningarleysi og nenni alls ekki að gera nokkurn skapaðann hlut. Þetta eru erfiðir dagar. Sér í lagi á sunnudegi þar sem mér finnst að ég eigi að slaka á. Og ef ég get ekki slakað á nú þá ætti ég að vera að nýta tímann í að hreyfa mig eða taka til eða skipuleggja vikuna eða gera eitthvað worthwhile. En ég nenni engu. Álpast bara um með sífellt meiri áhyggjur að dagurinn sé að sleppa frá mér og að áður en ég viti af sé kominn mánudagur og ég sóað heilum sunnudegi í að vera löt og eirðarlaus.

Mér finnst skrýtið þegar svona gerist. Sérstaklega um helgar þar sem ég eyddi laugardeginum bara í að gera gott við sjálfa mig. Morgunmatur á kaffihúsi, svo á beauty parlour að láta flikka aðeins upp á mig. Hádegismatur á bistró, og svo bíó og dinner á deit með manninum um kvöldið. Ég ætti að vera alveg sátt og fullnægð í sálinni.

En í dag virkar ekkert. Ekki stúss, ekki jóga, ekki þrif ekki skrif. Mér bara leiðist í sálinni. Ég get ekki útskýrt það betur. Ég eyddi morgninum í að búa til dásemdar marrókkóskan tagine rétt til að dreifa huganum, horfði svo á Casablanca í eftirmiðdaginn og er að reyna að lesa, reyna að skrifa, reyna að hreyfa mig en kemst ekki áfram með neitt.

Mig langar ekki einu sinni til að borða neitt svakalega. Kannski er það að trufla mig. Venjulega þegar mér leiðist í sálinni er það undanfari ofátskasts. En mig langar ekki einu sinni neitt sérstaklega til að borða. Það er dálítið sérstök tilfinning fyrir mig, að langa ekki til að borða. Ég ætti kannski að hætta að væla og hætta að pæla og njóta frekar bara þessarar tilfinningar að langa ekki í mat?

Sko! Mér líður alltaf betur við að skrifa.

Engin ummæli: